03.03.1987
Sameinað þing: 58. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3629 í B-deild Alþingistíðinda. (3237)

216. mál, mat á heimilisstörfum til starfsreynslu

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. fyrir þessa skýrslu um mat á heimilis- og umönnunarstörfum til starfreynslu. Skýrslan kemur fram í framhaldi af þáltill. sem flutt var af þm. Kvennalistans á síðasta þingi og reyndar þinginu þar á undan einnig og samþykkt nokkuð breytt á síðustu vordögum.

Í þessari skýrslu koma fram ýmsar gagnlegar upplýsingar og er töluverður fengur að henni. Í henni kemur t.d. fram að þar sem heimilis- og umönnunarstörf eru metin til starfsreynslu úti á vinnumarkaði eru þau ævinlega metin í neðstu launaflokkum. Það segir okkur þó nokkra sögu um hvers virði þessi störf eru talin úti á vinnumarkaðnum.

Einnig kemur fram í skýrslunni að hér á hv. Alþingi komu fram raddir um að heimilisstörf væru svo víðtæk að þau nýttust í svo til öllum störfum og er þar m.a. vitnað í hæstv. heilbrmrh. auk þeirrar sem hér stendur. Einnig kemur fram að heimilisstörf eru nokkuð mismunandi metin, þ.e. þau eru sums staðar einskis metin og sums staðar eru þau metin í öll störf, þó ævinlega í lægstu launaflokkum.

Jafnframt kemur fram í þessari skýrslu, sem er mjög athyglisvert, að upphæðirnar sem um er að ræða, ef heimilisstörf væru metin að fullu úti á vinnumarkaðinum, eru ákaflega lágar. Kostnaðurinn fyrir vinnumarkaðinn er ekki mikill þannig að eins og segir á bls. 10 í skýrslunni er fremur um að ræða viðurkenningu á því að heimilisstörf séu metin sem starfsreynsla á sem flestum sviðum. Hér er því ekki um mikla fjármuni að tefla heldur fyrst og fremst viðurkenningu á því að þau störf sem unnin eru á heimilunum séu metin sem hver önnur störf og nýtist hvar sem er í þjóðfélaginu.

Í inngangi að þessari skýrslu kemur fram að hér á hv. Alþingi var nokkur skoðanamunur á að hve miklu leyti skyldi meta heimilisstörf til starfsaldurshækkana úti á vinnumarkaðnum. Niðurstaðan varð sú að farin var millileið og samþykkt að meta heimilisstörf til starfsreynslu þegar um hliðstæð störf væri að ræða og síðan athugað að hve miklu leyti mætti meta þau þegar ekki væri um hliðstæð störf að ræða.

Eins og fram kemur í inngangi skýrslunnar er allur gangur á þessu. Matið sveiflast frá því að heimilisstörf eru hreint ekki neitt metin til þess að heimilisstörf eru metin takmarkalaust til starfsreynslu, t.d. í Garðabæ, Kópavogi, Akureyri og Vestmannaeyjum.

Hlutverk Alþingis í þessu máli hlýtur að vera að samræma þetta mat sem eins og glöggt kemur fram í þessari skýrslu er margs konar og allt í einum hrærigraut. Og hlutverk Alþingis hlýtur líka að vera að gefa út skoðun sína á því hvernig þessu mati skuli háttað. Í þriðja lagi hlýtur það að vera hlutverk Alþingis að sjá til þess að matið sé framkvæmt.

Þá kem ég að þeim tillögum sem er að finna í II. kafla skýrslunnar og ráðherra gerði grein fyrir áðan. Hér er um að ræða þrjár tillögur og þær fela allar í sér þó nokkrar takmarkanir á mati heimilisstarfa til starfsreynslu. Fram kom í máli hæstv. ráðh. áðan að hann teldi tillögu 1 ganga lengst í þá átt að meta starfsreynslu við heimilisstörf, en ég held að það sé enginn vafi á því að tillaga 2 gengur þar lengst vegna þess að í þeirri tillögu er ekkert þak sett á það hve hár starfsaldurinn við heimilisstörf getur orðið þegar um hliðstæð störf er að ræða. Í tillögu 1 er sett þak, þar getur starfsaldur mest orðið sex ár, en í tillögu 2 er ekkert slíkt þak. Þegar um óskyld og sérhæfð störf er að ræða er sett þak í tillögu 2, en ekki þegar um hliðstæð störf er að ræða. Mér sýnist því að tillaga 2 hljóti að ganga lengst. Hún gengur þó ekki nærri nógu langt að mati okkar Kvennalistakvenna. Sú óskatillaga sem við hefðum viljað sjá hljóðar á þessa leið með tilvísan til tillögu 2:

„Metin skulu til starfsreynslu heimilis- og umönnunarstörf þegar um hliðstæð störf er að ræða. Sama gildir um óskyld eða sérhæfð störf.“

Slíka tillögu hefðum við Kvennalistakonur viljað sjá hér í þessari skýrslu. Slík tillaga er nokkurn veginn samhljóða upprunalegu þáltill. Við erum enn sama sinnis og við vorum þá er við fluttum hana. Við sjáum engin rök fyrir því að takmarkanir séu settar á mat heimilisstarfa til starfsreynslu frekar en mat annarra starfa. Þetta er okkar afstaða til þeirra tillagna sem hér koma fram.

Næsta atriði í málinu er: Hvað ætlar hæstv. ráðh. að gera við þessar tillögur? Það kom fram í máli hans að hann ætlar Jafnréttisráði það hlutverk að koma tillögunum á framfæri í samningum aðila vinnumarkaðarins. Síðan hvatti hann til þess að þrýst yrði á bæði ríki og aðila vinnumarkaðarins til að taka tillit til þessara tillagna. Hér finnst mér harla skammt gengið hjá hæstv. ráðh. Ég bendi hæstv. ráðh. á að sem ráðherra í ríkisstjórn er hann samningsaðili við opinbera starfsmenn og er því í lófa lagið sjálfum að taka þessar tillögur upp í samningum við opinbera starfsmenn. Jafnframt hefur Alþingi í hendi sinni að setja lög um að við starfsaldurshækkanir séu heimilisstörf ævinlega metin og þá hvernig þau skuli metin. Alþingi þarf reyndar ekki að ganga svo langt vegna þess að það hefur tíðkast á undanförnum árum að ríkisstjórn kemur inn í samninga aðila vinnumarkaðarins þannig að með þeim hætti er Alþingi og ríkisstjórn fært að koma vilja sínum í þessu máli áleiðis. Þess vegna þarf hæstv. ráðh. ekki að beita Jafnréttisráði fyrir sig í þessu máli. Hann getur sjálfur framkvæmt það sem hér er lagt til.

Ég hlýt að krefjast þess fyrir hönd okkar Kvennalistakvenna að ráðherra hefjist þegar handa og sjái til þess að það mat á heimilisstörfum sem meirihlutavilji er fyrir að taka upp komi til framkvæmda, jafnt hvað varðar opinbera starfsmenn og á hinum almenna vinnumarkaði. Til þess hefur ráðherrann allt vald. Við svo búið má ekki standa. Þessi skýrsla og sú framkvæmdaleið sem ráðherra ætlar að fara skilar okkur engan veginn á endastöð í þessu máli og má með sanni segja að samkvæmt þessari skýrslu og því sem fram kom í máli ráðherra áðan sé þetta mál enn á áfangastigi.