03.03.1987
Sameinað þing: 58. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3633 í B-deild Alþingistíðinda. (3239)

216. mál, mat á heimilisstörfum til starfsreynslu

Magdalena Margrét Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. félmrh. fyrir þessa skýrslu og þann fróðleik sem hún veitir. Það er greinilegt að mjög mismunandi háttur er á því hvort og hvenær og hvernig heimilisstörf eru metin, en það er greinilegt að verklegir þættir heimilisstarfa eru nær eingöngu metnir til starfsreynslu og er það trúlega sú mynd sem flestir gera sér af heimilisstörfum. En í þessu eina orði, heimilisstörf, felst margt annað sem ekki er minna virði þegar meta á starfsreynslu. Þar vil ég nefna til stjórnun, frumkvæði, meðferð fjármála og skipulagningu, umgengni og samskipti fólks, þ.e. hin ýmsu mannlegu samskipti sem eru ekki svo lítils virði á hverjum vinnustað.

Trúlega verður þessi skýrsla og þær tillögur sem settar eru fram leiðbeinandi hvað varðar kjarasamninga á næstunni. En ég vil ekki líta á þessar tillögur sem neinn lokasigur. Þarna virðist ekki vera um svo miklar fjárhæðir að ræða eða svo marga einstaklinga. Flestar þessar konur sem kæmu þarna inn eru komnar kannske upp undir miðjan aldur og þær áttu þess ekki kost vegna þeirra þjóðfélagshátta sem þá voru að afla sér starfsreynslu úti á vinnumarkaðinum. Það eru þær konur sem voru heima og ólu upp þá kynslóð sem stendur á herðum þeirra núna. En það er ekki bara í þessu tilliti sem þessum konum er freklega mismunað, vil ég meina. Það er ekki síður í lífeyrismálum þar sem þær standa algerlega utan við allt. En þar sem þetta virðist ekki vera spurning um svo stórar fjárhæðir mundi ég vilja að þetta skref yrði stigið til fulls strax.