03.03.1987
Sameinað þing: 58. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3645 í B-deild Alþingistíðinda. (3247)

332. mál, námsbrautir á sviði sjávarútvegs

Tryggvi Gunnarsson:

Herra forseti. Ég ætla mér ekki beint að tala á móti till. hv. 4. þm. Vesturl., en mér finnst vanta nokkuð mikið í hana í þá veru að það er ekki nóg að skylda skólakerfið til að koma á móti þessum kröfum, sem er vissulega aðkallandi alls staðar, heldur er það hitt sem vantar og það er að það þarf að búa þannig að þessari grein að fólkið sæki til hennar. Það er vonlaust, ef ég má nota svo óþingræðislegt orð, að nauðga nokkrum manni til að sinna því sem hann sækist ekki eftir - ja, vegna peninga bara. Við skulum orða það svo. Það er sannleikurinn. Það er alveg víst að meðan þannig er skipt tekjum þjóðfélagsins að það er ekki hlynnt og hlúð að þessum undirstöðum íslensks þjóðfélags fáum við ekki fólk í þessa grein. Við fáum það ekki með nokkurri tilskipun ofan frá. Við verðum að leita alveg að grunninum og borga fyrir það með réttum peningum því fólki sem þangað vill sækja. Þá er ég ekkert hræddur um að í hverju sjávarplássi muni ekki koma upp slíkar skólagreinar sem munu halda fólkinu og mennta það við hæfi í þeim atvinnugreinum sem þessi minni pláss bjóða upp á, ef það er ekki teygt og trekkt með öðrum gylliboðum og leitar á ríkisjötuna vil ég segja og það er þá auðvitað allt hér fyrir sunnan. Það kallar á allt okkar besta fólk. Það er blóðtaka sem landsbyggðin hefur orðið fyrir. Besta fólk okkar er komið hingað suður og helst svo við hér. Hér er það margyfirborgað fram yfir þessa aumingja sem enn þá reyna að bjástra á útkjálkum þessa lands.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað.