03.03.1987
Sameinað þing: 58. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3646 í B-deild Alþingistíðinda. (3249)

345. mál, blýlaust bensín

Flm. (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. sem liggur fyrir á þskj. 602 og er 345. mál þingsins, en hún er um undirbúning notkunar á blýlausu bensíni hér á landi. Meðflm. mínir eru hv. þm. Skúli Alexandersson og Steingrímur J. Sigfússon.

Till. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að beita sér fyrir því að blýlaust bensín verði fáanlegt hér á landi og að vinna að því að það verði samkeppnisfært við bensín með blýi. Skipuð verði nefnd hagsmunaaðila sem geri tillögur til ríkisstjórnarinnar um þetta efni fyrir árslok 1987. Kostnaður við störf nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði.“

Herra forseti. Til að skýra aðeins hvað hér er um að ræða vil ég leyfa mér að benda hv. þm. á fskj. I með till., en þar er grg. frá Guðmundi G. Haraldssyni, sem er dósent í lífefnafræði við Háskóla Íslands, en þar skýrir hann m.a. hvað í raun og veru er blýlaust og blýbætt bensín. Ég leyfi mér að vitna í nokkrar setningar. Hann segir:

„Afköst bensínhreyfla hafa verið aukin með því að hækka svokallað þjöppunarhlutfall vélarinnar. Slík hækkun á þjöppunarhlutfallinu hefur í för með sér vandamál sem er svokallað bank eða glamur, „knocking“ á ensku. Glamrið er afleiðing af ótímabærri íkveikju bensíngufunnar í hreyflinum og leiðir til dvínandi afkasta. Slíkt vandamál hefur verið leyst á tvo vegu. Í fyrsta lagi með nákvæmu vali eða stjórnun á samsetningu kolvetnanna í eldsneytinu og í öðru lagi með viðbót á blýi í eldsneytið í formi svokallaðra „tetraalkylblýsambanda“. Það er því oft talað um svokallaða oktantölu bensíns, en hún er háð samsetningu kolvetna í eldsneytinu. Oktantala eldsneytis í jarðolíu er mjög lág. Afköst hreyfilsins eru því aukin með hækkun oktantölu auk þess sem umræddur hávaði minnkar frá vél.

Oktantalan hefur verið hækkuð m.a. með að velja heppilega samsetningu kolvetna í eldsneytinu og bæta við blýmagn þess. En á síðari árum hefur mönnum orðið æ ljósara að útblástur frá bifreiðum sem ganga fyrir blýbættu bensíni er stórskaðlegur mönnum, gróðri og dýrum. Þessi notkun blýs hefur í för með sér alvarleg mengunarvandamál. Skýrslur sýna að svo rammt kvað að slíkri blýnotkun í Bandaríkjunum t.d. að hundruð tonna af blýi dreifðust út í umhverfið dag hvern í formi eitraðra blýoxíða þegar verst lét. Árið 1970“, segir Guðmundur G. Haraldsson í grg. sinni, „voru t.d. 39% allrar umhverfismengunar í Bandaríkjunum talin eiga rætur að rekja til bifreiðanotkunar.“

Í lokaskjali frá alþjóðlegri ráðstefnu Norðurlandaráðs um loftmengun yfir landamæri, sem haldin var 8.-10. sept. 1986, er ein af niðurstöðutillögunum sú að auknar verði aðgerðir gegn útstreymi loftmengandi efna frá fólksflutningabifreiðum, öðrum vélknúnum ökutækjum og flugvélum. Þannig þarf betri árangur við að fjarlægja mengunarefni úr útblæstri ökutækja og breytingar á uppbyggingu í samgöngumálum. Það er auk þess alveg ljóst að minnkandi hraði dregur raunar úr blýmagninu og hættunni af útblæstrinum.

„Það er talið að um 90% blýs í bensíni skili sér í útblæstri bíla í formi ólífrænna sambanda“, segja þeir Hörður Þormar og Þorkell Jóhannesson í tímariti um lyfjafræði árið 1979 en þeir voru að kanna blý í götulofti og blóði manna í Reykjavík.

Á vegum Hollustuverndar ríkisins standa nú yfir mælingar á loftmengun við fjölfarnar akstursleiðir, en niðurstöður liggja enn ekki fyrir. Samkvæmt upplýsingum vísindamanna sem við rannsóknirnar vinna er þó þegar vitað að um verulega loftmengun er að ræða vegna umferðarinnar. Mengunarvandinn eykst hér á landi ekki síður en annars staðar og því er mikilvægt að fylgt verði þeim varnaðarráðstöfunum hér á landi sem aðrar þjóðir leggja nú kapp á.

Þá ber ekki síst að undirstrika að börn eru í mestri mengunarhættu í umferðinni. Þau eru nær útblástursrörum bifreiðanna en fullorðnir, einfaldlega vegna þess hve lág þau eru í loftinu, og börn í kerrum eru sennilega í mestri hættu þar sem þeim er ekið bókstaflega við hliðina á útblástursrörum bifreiða.

Íslendingar hafa þegar undirritað alþjóðlega samninga um varnir gegn loftmengun. Ríkisstjórn Íslands hefur undirritað og staðfest alþjóðasáttmála sem gerður var í Genf milli fulltrúa 35 ríkja í nóvember 1979 og á síðasta þingi Norðurlandaráðs var samþykkt tillaga samgn. ráðsins um að Norðurlandaþjóðir samræmdu aðgerðir til að hverfa frá notkun bensíns og annars eldsneytis sem inniheldur blý, en útblástur eiturefna frá farartækjum er ganga fyrir slíku eldsneyti er verulegur loftmengunarvaldur eins og áður er sagt og veldur sem kunnugt er miklum skaða á gróðri og mannvirkjum, auk þess sem hann veldur heilsutjóni á fólki. Á ýmsum stöðum hefur verið sýnt fram á að börn sem búa við miklar umferðargötur hafa beðið verulegt tjón af þessari sífelldu mengun og sýnt hefur verið fram á að afköst barna í skólum við slík skilyrði geta verið verulega rýrð.

Ísland er nú eitt af örfáum Evrópulöndum þar sem ekki er hægt að fá blýlaust bensín. Við svo búið má ekki standa vegna þess einfaldlega að það er alveg ljóst að innan tíðar verða í æ minna mæli framleiddar bifreiðir sem ganga fyrir öðru en blýlausu bensíni. Svíar hafa t.d. lögfest að frá árinu 1989 verði ekki framleiddar aðrar bifreiðir en þær sem ganga fyrir blýlausu eldsneyti og í Noregi verður notkun þess lögskyld í janúar 1989. Þjóðir innan Efnahagsbandalagsins hafa ályktað um að almenn notkun verði hafin á blýlausu bensíni frá 1. okt. 1989 og í Bandaríkjunum og Japan eru nýjar bifreiðar þegar búnar tækjum sem hreinsa útblástur eiturefna, en sá búnaður krefst notkunar á blýlausu bensíni. Það er því alveg ljóst að vandamál hljóta að skapast ef ekki verður hafinn undirbúningur að þessum breytingum hér á landi sem allra fyrst.

Olíufélögunum mun ekkert vera að vanbúnaði að hefja sölu blýlauss bensíns hvað varðar ytri búnað, en ýmis atriði þarf að sjálfsögðu að kanna, svo sem samkeppnishæfni, því að ljóst er að blýlaust bensín gæti orðið dýrara en það bensín sem inniheldur blý og auk þess þyrfti að athuga kaupsamninga, bifreiðainnflutning og eflaust ótalmargt fleira. Einn vandinn er auðvitað sá að við kaupum bensín og olíur frá Sovétríkjunum, en þar er einmitt ekki enn þá hægt að fá blýlaust eldsneyti. En að því hlýtur að koma. Allir eru sammála um að það hljóti að verða framtíðin að einungis blýlaust bensín verði notað og því hljóta Íslendingar eins og aðrir að horfast í augu við það og koma notkun þess á.

Þessi till. til þál. er því flutt til að hreyfa við þessu máli. Hún fer ekki fram á annað en að ríkisstjórnin beiti sér fyrir því að sett yrði á laggirnar nefnd til að athuga um þessi mál í samráði við hagsmunaaðila. Ég leyfi mér, herra forseti, að vísa till. til meðferðar í hv. samgn. og vil leggja á það nokkra áherslu að hv. nefndarmenn þar treysti sér til að greiða götu þessarar till. svo að hún nái fram að ganga fyrir þinglok vegna þess að ég held að nauðsynlegt sé að fara að huga að þessum málum.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað.