03.03.1987
Sameinað þing: 58. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3652 í B-deild Alþingistíðinda. (3257)

379. mál, réttur raforkunotenda

Flm. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Þáltill. sem hér um ræðir er ásamt mér flutt af Birgi Ísl. Gunnarssyni, Birni Dagbjartssyni, Stefáni Guðmundssyni, Steingrími J. Sigfússyni og Guðmundi Einarssyni.

Ályktunargreinin er á þá leið að Alþingi álykti að fela iðnrh. að skipa nefnd til að gera tillögu um samræmda uppbyggingu á gjaldskrám og reglugerðum rafveitna í landinu með það að markmiði að tryggja réttarstöðu rafmagnsnotenda og sem eðlilegasta samsvörun verðlagningar og tilkostnaðar. Í nefndina verði skipaður einn fulltrúi samkvæmt tilnefningu Sambands ísl. rafveitna, einn samkvæmt tilnefningu Neytendasamtakanna, einn samkvæmt tilnefningu Alþýðusambands Íslands, einn samkvæmt tilnefningu Vinnuveitendasambandsins og einn án tilnefningar, sem sé formaður nefndarinnar.

Eins og kunnugt er eru reglugerðir rafveitna og taxtar allfjölbreytileg að uppbyggingu og fyllsta ástæða til að leita samræmis í þeim efnum. Hér er ekki verið að tala um sama raforkuverð um allt land heldur samræmi í uppbyggingu taxtanna og reglugerða rafveitnanna. Í því sambandi er rétt að hafa í huga að rafveitunum er afhent eins konar einokunarhlutverk um dreifingu og sölu raforkunnar hver á sínu svæði. Við samningu reglugerða og taxta fyrir þessi fyrirtæki er nauðsynlegt að réttur neytandans komist til skila og að skilgreindar séu eðlilegar skyldur rafveitnanna gagnvart raforkunotendum.

Nú mun það að sjálfsögðu vera svo að rafveiturnar hafa sjálfar samið sínar reglugerðir og taxta og þess vegna er hér reyndar gerð tillaga um að aðrir komi þar að, fulltrúar neytenda, fulltrúar verkalýðshreyfingar, fulltrúar atvinnurekenda. Í greinargerð með till. er þetta rakið nokkru nánar og þær ástæður sem liggja til þess að eðlilegt sé að leita einföldunar í uppbyggingu rafveitnanna og ætla þeim ekki afskipti af því nema í mjög takmörkuðum mæli til hvers raforkunotandinn sé að nota þá raforku sem hann kaupir en þess gætir allnokkuð í þeim gjaldskrám sem í gildi eru.

Herra forseti. Ég skal ekki fjölyrða frekar um þessa till., en legg til að henni verði vísað til hv. iðnn.