28.10.1986
Sameinað þing: 9. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 368 í B-deild Alþingistíðinda. (326)

Framleiðnisjóður landbúnaðarins

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs utan dagskrár til að ræða það sem á meðal bænda gengur þessa dagana undir nafninu „októberáhlaupið“, sem sagt, nýjasta úthlaup framámanna í stofnunum landbúnaðarins undir forustu fulltrúa úr landbrn. og fjmrn. til að skera niður í landbúnaði og fækka bændum. Vösk sveit fjögurra manna ríður nú um héruð og býður í bændur og fylgja þau kostakjör með að séð verði um að opna á ný sláturhús fyrir þá sem eru tilbúnir til að skera. Þessi valda sendinefnd hefur meðal bænda hlotið nafnið „fjórmenningaklíkan“ og aðgerðin í heild gengur undir nafninu „októberáhlaupið“ eins og ég áður sagði.

Forsaga þessa máls er í stuttu máli sú að þegar gengið var frá samningum milli ríkisvalds og bænda um verðábyrgð ríkisins á tilteknu magni mjólkur- og sauðfjárafurða í haust var ábyrgðinni að hluta til velt yfir á Framleiðnisjóð með ákvæðum um að verðábyrgð ríkisins skyldi skerðast sem næmi þeim fullvirðisrétti sem Framleiðnisjóður kaupi eða leigi á tímabilinu 20. sept. til 15. nóv. eða að öðrum kosti verðbæti Framleiðnisjóður sjálfur það sem ekki takist að kaupa eða leigja upp að 800 tonnum kindakjöts og 3 millj. lítra mjólkur út úr heildarsamningunum.

Það er nú orðið ljóst að stjórnvöld landbúnaðarmála ætla sér að reyna að kaupa út úr framleiðslu helst allt þetta magn og jafnvel meira með fjármagni Framleiðnisjóðs og það þarf að sjálfsögðu ekki að taka það fram, herra forseti, að þessi nýjasta niðurskurðarlota er með öllu skipulagslaus og handahófskennd eins og allar ráðstafanir núv. ríkisstjórnar til framleiðslustjórnunar hafa verið, þ.e. flatur niðurskurður án nokkurs tillits til aðstæðna.

Þarna er því, herra forseti, í fyrsta lagi um að ræða notkun fjár úr Framleiðnisjóði, sem komið er í sjóðinn á grundvelli 37. gr. laga nr. 46 frá 1985, til að draga enn saman framleiðslu í landbúnaði umfram gerða rammasamninga milli ríkisvalds og bænda. Takist að ná samningum um allt magnið sem að er stefnt, þ.e. 800 tonn kindakjöts og 3 millj. lítra af mjólk er búið að binda 420-440 millj. kr. af því fé sem úr Framleiðnisjóði átti að fara á næstu árum til að mæta áhrifum samdráttar í landbúnaði, ekki til að stuðla að enn frekari samdrætti.

Í öðru lagi er byrðunum með þessu velt af ríkissjóði yfir á Framleiðnisjóð og bændur sjálfa.

Í þriðja lagi eru það svo ákvæði 37. gr. laga sem ég áður vitnaði í um ráðstöfun fjár sem ríkissjóður skal leggja fram til þess að mæta áhrifum samdráttar í framleiðslu mjólkur- og sauðfjárafurða. Og ég endurtek, skal leggja fram til að mæta áhrifum af samdrætti í mjólkur- og sauðfjárframleiðslu, ekki til að stuðla að enn frekari samdrætti. Með leyfi forseta langar mig til að lesa 1. mgr. 37. gr. laga nr. 46 frá 1985. Hún er svohljóðandi:

„Ríkissjóður skal leggja fram fjármagn til þess að mæta áhrifum samdráttar í framleiðslu mjólkur- og sauðfjárafurða. Fjármagni þessu skal varið til eflingar nýrra búgreina, markaðsöflunar og fjárhagslegrar endurskipulagningar búreksturs á lögbýlum.“

Og því spyr ég, herra forseti, hæstv. landbrh.: Hvernig samrýmist þessi notkun fjár úr Framleiðnisjóði þessum nefndu lögum sem ég nú hef vitnað til og allt þetta októberáhlaup á bændur? Hvernig samrýmist þetta anda 37. gr. og þeim anda sem lagður var til grundvallar samningunum sem bændur taka á sig um skerðingu eða takmörkun á framleiðslunni gegn því að úr Framleiðnisjóði komi fé til að mæta afleiðingunum?