03.03.1987
Sameinað þing: 58. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3660 í B-deild Alþingistíðinda. (3264)

378. mál, Skógrækt ríkisins

Tryggvi Gunnarsson:

Herra forseti. Ég þakka flm. þessarar till. fyrir að bera hana fram og ágæta framsögu hjá hv. 1. þm. Austurl.

Erindi mitt er aðeins það að styðja þessa till. og í því efni tek ég sérstaklega undir síðustu orð frsm. þar sem hann sagði eitthvað á þá leið að þetta væri prófmál fyrir vilja stjórnvalda að flytja stofnanir út á land. Það er: Ef gengur illa að flytja þessa stofnun, sem á nánast hvergi annars staðar heima en á Héraði, hugsa ég að það verði erfitt að hreyfa öðru.

Hv. 2. þm. Austurl. kom upp og lýsti stuðningi við þetta mál einnig, en hann nefndi örlítið sem ég að vísu hafði heyrt um. Hann segir að fólkið sjálft vilji ekki fara með sínum stofnunum. Þarna er ábyggilega meginvandinn, að hreyfa þetta fólk. Það er létt að hreyfa það frá landinu og hingað suður, en það getur orðið erfiður reipdráttur, eins og hv. 3. þm. Norðurl. e. nefndi, að koma því aftur á réttan stað. Það gæti orðið erfiðara. En ég lýsi stuðningi við þetta mál.