03.03.1987
Sameinað þing: 58. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3664 í B-deild Alþingistíðinda. (3273)

337. mál, menntun stjórnenda smábáta

Flm. (Gunnar G. Schram):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. á þskj. 587 um menntun stjórnenda smábáta, en hana flytur ásamt mér Pétur Sigurðsson. Með leyfi hæstv. forseta les ég tillögutextann. Hann er svohljóðandi:

„Alþingi skorar á ríkisstjórnina að skipa nefnd til að semja frv. til laga um samræmda kennslu og próf stjórnenda allra skráðra smábáta annarra en fiskibáta. Skulu lögin miða að því að stjórnendur þessara báta hafi skipstjórnarréttindi.“

Þessi till. til þál. er fram borin fyrir ábendingar ýmissa þeirra sem starfa að menntun sjómanna og annarra. Ástæðan er sú að það er ljóst að áhugi Íslendinga, eins og fram kemur í grg. með till., á siglingum á skemmtibátum hefur aukist mjög á síðustu árum. Þar er bæði um að ræða siglingar á vélbátum og seglbátum og er óhætt að fullyrða að fjöldi þessara báta skiptir nú hundruðum og horfir ugglaust í mikla fjölgun á næstu árum. Þá hefur það aukist að ferðast sé á slíkum bátum milli Íslands og annarra landa. Á öðrum skipum en skemmtibátum, eins og menn vita, þurfa skipstjórnarmenn að hafa hið meira fiskimannapróf til slíkra ferða.

Hins vegar eru fæstir þeirra sem eiga skemmtibáta vanir sjómennsku og þurfa því að fá fræðslu í sjómennsku og siglingafræði auk þess sem nokkur þekking í veðurfræði er nauðsynleg fyrir þann sem á sjóinn fer.

Það má telja eðlilegt að þessum málum sé skipað með lögum og þar yrði fjallað um þessa kennslu og próf manna. Ég undirstrika að hér er ekki verið að tala um fiskibáta og ekki fjallað um atvinnuréttindi og lagaákvæði um þau. Hér yrði fjallað um samræmt námsefni og próf undir opinberu eftirliti fyrir stjórnendur skemmtibáta. Með lagasetningunni yrði gert ráð fyrir því að stjórnendur allra skráðra skemmtibáta hefðu skipstjórnarréttindi. Ég vil undirstrika það að hér er einungis verið að fjalla um skráða skemmtibáta. Til skýringar á því hvað þar er átt við, smábáta, skal vitnað til 1. gr. l. nr. 115 frá 1985 um skráningu skipa. Þar er mælt svo fyrir að sérhvert skip sem er 6 metrar á lengd eða stærra sé skráningarskylt samkvæmt þeim lögum. Hér er þá um að ræða skip sem eru stærri en 6 metrar á lengd sem þessi till. tekur til. Það er gert ráð fyrir að stjórnendur slíkra skráðra skemmtibáta afli sér þeirrar menntunar sem hér er talin nauðsynleg og raunverulega öfluðu sér þá skipstjórnarréttinda.

Það má velta því fyrir sér hvort þetta er nauðsynlegt eða sanngjarnt. Þessu er náttúrlega nokkur fyrirhöfn og kostnaður samfara, en á það má benda að það verður að teljast eðlilegt að dómi flm. með tilliti til krafna sem gerðar eru til stjórnenda annarra farartækja, svo sem flugvéla og bifreiða hér á landi. Á það má benda í þessu sambandi að algengt er að stjórnendur skemmtibáta taki með sér farþega til lengri og skemmri sjóferða. Og þá má telja líklegt að farþegarnir geri sér ekki alltaf grein fyrir því að ekki séu gerðar kröfur til kunnáttu hjá viðkomandi stjórnanda.

Hér er því um að ræða öryggisatriði, ekki aðeins fyrir þá sem eru eigendur og þá stjórnendur þessara báta, heldur einnig allra þeirra sem með þeim ferðast. Í íslenskum lögum eru nú engar kröfur um slíkt. Ég endurtek að hér er vitanlega ekki verið að fjalla um fiskibáta eða aðra báta sem reknir eru í atvinnuskyni, heldur þá tegund báta sem ég hef hér nefnt. En það er jafneðlilegt að til eigenda þeirra, umráðamanna og stjórnenda séu gerðar svipaðar kröfur og þegar menn aka bifreið eða afla sér flugvéla og þurfa þá að ganga undir flugpróf hið minna eða flugpróf hið minnsta. Fræðsla á þessu sviði er nauðsynleg og að dómi flm. mikið öryggisatriði.

Ég vil síðan leggja til að að lokinni þessari fyrri umræðu verði þáltill. vísað til síðari umr. og hv. félmn. Sþ.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað.