03.03.1987
Sameinað þing: 58. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3665 í B-deild Alþingistíðinda. (3275)

380. mál, Norræni umhverfisverndarsamningurinn

Flm. (Gunnar G. Schram):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um aðild Íslands að Norræna umhverfisverndarsamningnum sem er að finna á þskj. 690. Flm. till. auk mín eru þeir Friðrik Sophusson, Birgir Ísl. Gunnarsson og Valdimar Indriðason. Með leyfi hæstv. forseta ætla ég að lesa tillögutextann, en hann er svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að undirbúa aðild Íslands að Norræna umhverfisverndarsamningnum sem gerður var 19. febr. 1974 og hefur þegar tekið gildi milli Noregs, Svíþjóðar, Danmerkur og Finnlands.“

Umhverfismál hafa í vaxandi mæli verið til umræðu hér á Alþingi, á þessu þingi og einnig hinum síðustu. Farið hefur vaxandi skilningur þm. sem annarra í þjóðfélaginu á mikilvægi þessa málaflokks, á mikilvægi þess að sett séu í lög og reglur ákvæði sem tryggja það að ekki spillist líf eða land og þá ekki síður hafið sem þjóðin byggir afkomu sína að svo miklu leyti á.

Norðurlandaþjóðirnar hafa lengi haft með sér nokkurt samstarf í umhverfismálum og m.a. var gerður árið 1974 norrænn samningur um umhverfismál og umhverfisvarnir. Kveikjan að gerð þess samnings var ályktun og umfjöllun á þingi Norðurlandaráðs á sínum tíma en hann hefur verið í gildi undanfarinn áratug eða svo. Samningurinn var undirritaður 19. febr. 1974 en tók ekki gildi fyrr en nokkru seinna þegar þau fjögur ríki sem að honum eru í dag aðilar höfðu fullgilt hann. En eitt ríki Norðurlandanna stendur enn utan þessa norræna samstarfs og það er Ísland. Þessi þáltill. er flutt í því skyni að vekja athygli á þessum samningi, þessum norræna umhverfisverndarsamningi, og í öðru lagi að hvetja íslensk stjórnvöld, þ.e. ríkisstjórnina, til þess að undirbúa að við Íslendingar gerumst aðilar að samningnum.

Ég skal engum getum að því leiða hvers vegna við höfum ekki gerst nú þegar aðilar. Ég hygg þó að ástæðan hafi verið sú að lengi vel þótti umhverfisvandi vera mun minni á Íslandi en í hinum þéttbýlli nágrannalöndum okkar, svo sem Danmörku, og þess vegna e.t.v. ekki ástæða til þess að við gerðumst aðilar að þessum samningi. En málin hafa breyst. Þar hefur skipast veður í lofti svo sem mönnum er kunnugt.

Ég minni á vaxandi loftmengun sem nú veldur miklum usla, loftmengun sem berst frá Bretlandi og meginlandsríkjunum norður til Norðurlanda og miklum usla hefur valdið í norrænum skógum og vötnum þar sem fiskadauði fer mjög vaxandi og þarf ekki að orðlengja um. Ég minni einnig á þá miklu geislamengun og loftmengun sem kom í kjölfar Chernobyl-slyssins í Sovétríkjunum.

Bæði þessi tilvik sýna að mengunin virðir engin landamæri og getur borist á skammri stund mjög langar leiðir milli þjóðlanda, hundruð ef ekki þúsundir km á mjög skömmum tíma. Það sýnir að okkur er ekki sú sama vörn í einangrun landsins í umhverfisefnum eins og menn áður töldu. Það er einmitt þess vegna sem flm. telja fulla ástæðu til þess að ríkisstjórnin hefji undirbúning að aðild okkar að þessum norræna sáttmála.

Efnisatriði hans eru rakin í grg. þannig að ég ætla ekki að fara ítarlega út í þau á þessari stundu. Meginatriði samningsins eru þau að íbúar allra Norðurlandanna eru jafnsettir að því er varðar heimtu skaðabóta vegna tjóns sem valdið er á umhverfinu hvar sem það tjón á sína uppsprettu eða sitt upphaf.

Það þýðir að ef um er að ræða mengun sem berst til Íslands frá einhverju hinna Norðurlandanna, þá hafa íslenskir ríkisborgarar sama rétt til þess að krefjast skaðabóta og íbúar þess lands þar sem umhverfistjónið átti sér stað. Á sama hátt hafa íslenskir ríkisborgarar rétt samkvæmt samningnum til þess að kæra fyrirhugaða mengandi framkvæmd, t.d. byggingu verksmiðju sem mengandi er talin eða losun úrgangsefna eða annars slíks sem á sér stað í einhverju Norðurlandanna. Þeir hafa rétt til þess á hvaða stigi undirbúningsins sem er, eða eftir að slík starfsemi er hafin, að kæra þessa starfsemi og krefjast þess að hún verði stöðvuð eða takmörkuð, allt eftir atvikum málsins hverju sinni. Þennan rétt höfum við hins vegar ekki nú. Við getum á þann hátt stöðvað slíkar framkvæmdir í öðrum löndum jafnt sem þær væru í okkar eigin landi eða jafnt sem við værum ríkisborgarar í því landi þar sem framkvæmdirnar eiga sér stað.

Á þennan hátt er Íslendingum skapaður innan ramma þessa samnings mikilvægur nýr réttur til þess að hafa áhrif til varnar skaðlegum mengunaráhrifum sem gætu borist hingað til lands vegna starfsemi sem á sér stað á hinum Norðurlöndunum. Ekki þarf að taka það fram í þessu sambandi að Norðurlandabúar mundu þá öðlast samkvæmt samningnum sama rétt gagnvart íslenskum yfirvöldum til þess að taka í taumana og kæra, kvarta eða lögsækja íslenska aðila, íslensk yfirvöld og opinberar stofnanir, ef þeir teldu að þær aðhefðust eitthvað sem mengunarhætta stafaði af í hinum Norðurlandaríkjunum.

Ég ætla ekki að rekja efni þessa samnings í lengra máli. Ég vil aðeins leggja áherslu á það að við flm. teljum að hér sé stigið nauðsynlegt skref, kannske ekki ýkja stórt en nauðsynlegt skref í átt til þess að búa í haginn á sviði umhverfisvarna betur en nú er um að ræða.

Að lokinni fyrri umræðu legg ég til að þessari till. verði vísað til síðari umræðu og hv. félmn.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað.