03.03.1987
Sameinað þing: 58. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3670 í B-deild Alþingistíðinda. (3278)

375. mál, námslán og námsstyrkir

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Það væri út af fyrir sig engin goðgá að taka rispu hér um Lánasjóð ísl. námsmanna, en ég ætla að láta það vera, einkum og sér í lagi þar sem okkur er ráðherra vant. En sú aðgerð hans, sem till. þessi er sprottin út af, var, svo sem hér hefur verið nefnt, einkar gerræðisleg og vanhugsuð. Má kannske segja með nokkrum rétti að við hv. alþm. hefðum átt að spyrna harðar við fótum þegar ráðherra beitti þessari aðgerð því að okkur hlýtur mjög mörgum að vera kunnugt um ýmis tilvik þar sem þetta kom mjög illa við námsmenn erlendis sem máttu þarna sæta mikilli skerðingu á sínum framfærslueyri. En þessi till. er viðbragð við þeirri gerð og ég vildi ekki láta hjá líða að lýsa fylgi við hana.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað.