03.03.1987
Sameinað þing: 58. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3671 í B-deild Alþingistíðinda. (3280)

376. mál, áætlanir á sviði samgögnumála

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Virðulegur forseti. Hér er tekið á dagskrá hvert stórmálið á fætur öðru. Ég ætla að mæla fyrir till. til þál. á þskj. 677, 376. máli, um samræmingu áætlana á sviði samgöngumála og mannvirkjagerðar. Flm. ásamt þeim sem hér talar eru hv. þm. Skúli Alexandersson og Helgi Seljan.

Tillgr. er svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta: „Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta vinna að samræmingu áætlana á sviði samgöngumála og meiri háttar mannvirkjagerðar þannig að slíkar áætlanir fyrir einstaka landshluta og landið allt falli eðlilega saman í eina heild.

Stuðlað verði að samræmingu flutninga og flutningaleiða á landi, sjó og í lofti með opinberri stefnumörkun sem jafnframt taki mið af áformum um meiri háttar mannvirkjagerð, þróunarforsendum atvinnulífs og byggðasjónarmiðum.“

Í grg. eru nokkuð raktar ástæður þessarar till. og vísast til þess. Það er skoðun flm. að löngu sé tímabært að við Íslendingar eins og flestar nálægar þjóðir hafa gert förum að skoða í heild sinni samgöngumál og meiri háttar mannvirkjagerð og reynum eftir því sem kostur er að samræma og samhæfa áætlanir á þessu sviði til þess að forðast tvíverknað og óeðlilega skörun verkefna og til að tryggja það að eitt styðji annað eftir því sem kostur er og að samræmi sé í uppbyggingu á þessu sviði. Þetta hafa nálægar þjóðir þegar gert og ekki bara innanlands og gagnvart samgöngum sínum heldur gerist það nú æ algengara að hópar þjóða og jafnvel heilar heimsálfur eigi með sér samstarf á þessu sviði til að tryggja að samgönguleiðir séu sem eðlilegast samræmdar. Mætti nefna dæmi frá Norðurlöndum, frá Bretlandseyjum og meginlandinu og víðar að í þessu efni.

Það hefur talsvert verið unnið að áætlanagerð hér innanlands á sviði samgöngumála og má benda á ýmislegt í þeim efnum, svo sem langtímaáætlun í vegagerð, áætlanir um uppbyggingu hafna, lög hafa verið sett um röð virkjana og áætlanir hafa verið gerðar fyrir einstök landsvæði, einstakar sýslur og einstaka landshluta. Nú liggja fyrir hér á Alþingi tillögur um uppbyggingu flugsamgangna, frv. til laga um fjáröflun til flugmála og í framhaldi af því verður væntanlega lagt fyrir virðulegt Alþingi, þegar þau lög hafa verið samþykkt, þáltill. um langtímaáætlun í uppbyggingu flugvalla.

Á síðasta þingi var vísað til hæstv. ríkisstjórnar till. um gerð langtímaáætlunar í jarðgangagerð og rætt hefur verið um nauðsyn þess að skipuleggja samgöngur á sjó, bæði innan fjarða og umhverfis landið.

Þetta er allt gott og blessað, svo langt sem það nær, virðulegur forseti, en það er tilgangur þessarar till. að leitast við að tryggja það að til komi af opinberri hálfu stefnumörkun þar sem yfirsýn yfir allt þetta svið er á einni hendi og reynt er eftir því sem kostur er að samræma allar þessar áætlanir og þessi áform.

Það er auðvelt að tína til dæmin um hvernig samgöngubætur eða framkvæmdir af þessu tagi geta breytt aðstæðum og haft áhrif. Þar má nefna aðstæður í atvinnulífi, í byggðamálum og aðstæður við mannvirkjagerð. Nokkur dæmi af því tagi eru tínd til í grg.

Það er svo að allar áætlanir stefna nokkuð inn í óvissuna hvað varðar fjármögnun og aðstæður á komandi árum, en það hlýtur engu að síður að teljast skynsamlegt að huga að samhengi hlutanna eftir því sem kostur er. Það er miklum fjármunum ráðstafað í þennan málaflokk og þyrfti reyndar að gera miklu betur. Þessi þjóð eyðir sjálfsagt til uppbyggingar samgöngumálanna þegar allt er talið ekki minna en 2,5-3 milljörðum kr., lauslega áætlað, og þyrfti í raun að gera mun betur þannig að það eru mikil verðmæti í húfi ef samræmingarstarf af því tagi sem hér er fjallað um getur leitt til betri nýtingar og sparnaðar á þessum sviðum.

Við sjáum ekki ástæðu til að fjölyrða í grg. um vinnubrögð við slíka skoðun. Það eru sérfræðingar til í landinu sem hafa nokkuð stundað þessi mál, ég nefni sérfræðinga í Byggðastofnun og innan Háskóla Íslands, landafræðideildar og víðar. Ég tel eðlilegt og við flm. að slíkum yrði falið að setja sér vinnulag, semja sér vinnureglur við slík störf.

Svo öllu sé til haga haldið má geta þess að þetta er auðvitað ekki ný hugsun undir sólinni. Þessum málum hefur verið hreyft hér á Íslandi, en lítið orðið úr framkvæmdum. Þó var það þannig að í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnar Ólafs Jóhannessonar, síðara ráðuneyti hans, var í stjórnarsáttmála eða samstarfsyfirlýsingu Alþb., Alþfl. og Framsfl., sem gefin var út af forsrn. í ágúst 1978, fjallað um þennan málaflokk undir liðnum samgöngumál og talað um að gera ætti samgönguáætlanir fyrir landið í heild og einstaka landshluta þar sem flutningar yrðu samræmdir.

Ragnar Arnalds, þáv. samgrh., setti á fót nefnd sem gjarnan var kölluð samgönguáætlananefnd og tók til starfa í byrjun febrúar 1979. Í skipunarbréfi hennar var sömuleiðis talað um að gera ætti áætlanir fyrir landið og einstaka landshluta þar sem flutningar á sjó, landi og í lofti yrðu samræmdir. Síðan átti þessi nefnd að huga að skipulagi samgangnanna á breiðum grundvelli. Þessi nefnd starfaði nokkuð á árinu 1979, en virðist svo hafa lognast út af með einhverjum hætti í sviptingum stjórnmálanna síðla árs 1979 eða framan af árinu 1980 og 1. flm. hefur ekki séð að þessu máli hafi verið sinnt að ráði síðan.

Vikið er að því í grg. til að telja ofurlítið í menn kjark að ekki sé ástæða til að fælast frá því að ráðast í verkefni af þessu tagi af ótta við að það verði of viðamikið eða vaxi mönnum yfir höfuð. Hér er um stóran málaflokk að ræða þar sem eru samgöngurnar á breiðum grundvelli og meiri háttar mannvirkjagerð með í takinu. En það starf sem hér yrði unnið, ef af samþykkt till. þessarar verður, yrði væntanlega fyrst og fremst gagnasöfnun og athugun á fyrirliggjandi áætlunum á þessu sviði og úrvinnsla sérfróðra aðila. Ef til vill kæmi í ljós við athugun, og það er ekki ósennilegt, að það þyrfti að vinna betur að þessum málum á vissum sviðum, það vantaði áætlanir fyrir vissa hluta samgöngumálanna og þá þyrfti að vinna slíka vinnu. En niðurstaðan ætti að verða sú að menn gætu, nestaðir af þeim upplýsingum sem til þarf, komið sér niður á skynsamlega og heildstæða stefnumörkun á þessu sviði. Það er tilfinning okkar flm. að þær áætlanir, góðar eins og þær eru hver á sínu sviði, séu brotakenndar í heildatmyndinni og vinna þurfi að því að þær falli betur saman. Þetta er stórt hagsmunamál fyrir ýmis byggðarlög í landinu. Þar sem samgönguerfiðleikar eru miklir og jafnvel engin tiltekin samgönguleið, hvorki á landi, í lofti né á sjó, er í viðunandi standi, er mjög mikilvægt að það verði skoðað í heild sinni með hvaða hætti samgöngumálin verða best leyst, hvort það er með uppbyggingu flugvalla, með vegagerð eða jarðgangagerð, hvort til þurfi að koma samgöngur á sjó eða af einhverju öðru tagi. Þetta þyrfti að skoðast í samhengi.

Það er einnig augljóst, og um það eru rakin dæmi, að samgöngubætur eða tilteknar aðgerðir í samgöngumálum geta haft úrslitaáhrif á þróun atvinnulífs og mannlífs í viðkomandi byggðarlögum.

Að lokum er rétt að ítreka það, sem væntanlega allir hv. alþm. vita og skilja, að enginn einn þáttur hefur jafnmikil áhrif á þróun hins mannlega samfélags og einmitt samgöngur og þess vegna er sérstaklega nauðsynlegt að horfa til samhengis hlutanna á þessu sviði og reyna að tryggja eftir því sem kostur er farsælt samspil sem flestra þátta samgangna og annarrar mannvirkjagerðar í þágu lands og þjóðar.

Ég hef þá ekki fleiri orð um þessa till., en legg til að hún verði að loknum þessum hluta umræðunnar send til virðulegrar fjvn.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað.