03.03.1987
Sameinað þing: 58. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3678 í B-deild Alþingistíðinda. (3283)

288. mál, lán vegna greiðsluerfiðleika

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. fyrir þá skýrslu sem hér er til umræðu. Greiðsluerfiðleikalán Húsnæðisstofnunar hafa gert mikið gagn. Á því er enginn vafi. Ég er sammála hæstv. félmrh. um það.

Hitt er svo einnig augljóst að það vantar mikið á að þeir hafi fengið viðunandi úrlausn sem verst urðu úti vegna afnáms vísitölubindingar launa 1983 á sama tíma og lánskjaravísitalan var látin mæla af fullum þunga, látin auka skuldir og greiðslubyrði fólks frá mánuði til mánaðar meðan laun voru fryst. Það vantar mikið á að vandi þessa fólks hafi verið leystur. Hluta vandans hefur verið jafnað á allmörg ár til greiðslu, en sjálfur vandinn hefur á engan hátt verið leystur.

Ég tel að nauðsynlegt sé í fyrsta lagi að Húsnæðisstofnun hafi áfram umtalsverða möguleika á að veita greiðsluerfiðleikalán, a.m.k. til þeirra sem fengu lán eftir gamla kerfinu.

Í öðru lagi að bæta með beinum aðgerðum a.m.k. hluta þeirra áfalla sem fólk varð fyrir vegna misgengisins árið 1983. Það má gera á ýmsan hátt. Það má t.d. gera í gegnum skattakerfið, eins og fulltrúi Alþfl. í milliþinganefnd um húsnæðismál lagði til, og það má gera með beinum aðgerðum eins og lagt er til í þáltill. Kjartans Jóhannssonar og fleiri Alþýðuflokksmanna um jöfnun húsnæðiskostnaðar, 16. mál þess Alþingis er nú situr, en þar er lagt til að þeim sem urðu fyrir mestu skakkaföllunum vegna misgengisins verði með beinum hætti bættur skaðinn að hálfu.

Hæstv. forsrh. sagði á sínum tíma að það hefði verið mikið pólitískt slys að láta lánskjaravísitöluna mæla af fullum þunga meðan launin voru fryst. Með greiðsluerfiðleikalánum var að hluta dregið úr sársaukanum sem slysinu fylgdi, en það vantar mikið á að sárið hafi verið grætt. Úr því verður að bæta.

Herra forseti. Mig langar að lokum til að leggja tvær spurningar fyrir hæstv. félmrh. Annars vegar hvort hann telur hugsanlegt, þegar sérstaklega stendur á, að skuldbreyta eldri lánum yfir í lán samkvæmt nýja húsnæðislánakerfinu, t.d. þegar svo stendur á að ráðgjafarþjónustan telur það æskilegt eða nauðsynlegt. Hins vegar vil ég spyrja hæstv. ráðh. hvort hann og hæstv. ríkisstjórn telji sig hafa leyst á fullnægjandi hátt vanda þeirra sem verst urðu úti vegna misgengisins á sínum tíma. Ef svo er ekki, hvaða áætlanir hefur hæstv. ráðh. þá uppi um frekari lausn vandans?