03.03.1987
Sameinað þing: 58. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3679 í B-deild Alþingistíðinda. (3284)

288. mál, lán vegna greiðsluerfiðleika

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég vil, eins og hv. síðasti ræðumaður, þakka hæstv. félmrh. fyrir birtingu þeirrar skýrslu sem hér er til umræðu. Við þekkjum öll forsögu þessa máls og hana má enda að nokkru leyti lesa út úr þessari skýrslu þótt stuttaraleg sé og lengd hennar vitanlega í engu samræmi við stærð þess vanda sem er tilefni skýrslunnar. Æ ofan í æ höfum við rætt þennan vanda á Alþingi og fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna hafa verið óþreytandi að vekja máls á þessum vanda og reyna að þrýsta á um lausn hans. Ég minnti á í umræðum um skýrslu milliþinganefndarinnar að stjórnarandstaðan hefði neitað að samþykkja þinglok vorið 1985 fyrr en tekið hefði verið á vanda húsbyggjenda og húsnæðiskaupenda eða svokölluðum misgengishópi og niðurstaðan varð stofnun milliþinganefndarinnar.

Þessi skýrsla staðfestir það, sem áður hafði reyndar komið fram, að ýmislegt hefur reyndar verið gert til að taka á þessum vanda og það ber að virða. En hvergi nærri nóg. Fólk var miklum órétti beitt og það er langur vegur frá því að það óréttlæti hafi verið bætt og leiðrétt. Ég tek undir það sem hv. síðasti ræðumaður sagði um það. Erfiðleikar þessa fólks stöfuðu að mínu mati í fæstum tilvikum af fyrirhyggjuleysi og ég mótmæli því, sem leynt og ljóst er ýjað að í þessari skýrslu, að menn hafi af svona hálfgerðum rataskap og fáráðlingshætti reist sér hurðarásinn fræga um öxl.

Í öllum þeim tilvikum sem ég þekki til hafði fólk gert sínar áætlanir og notið jafnvel ráðgjafar sérfræðinga. Það hafði reiknað út kostnað og greiðslugetu og spáð varlega um tekjur og væri hægt að nefna ýmis dæmi um þetta. Ég veit t.d. um ágæta vinkonu mína og grandvara þar sem eru tvær fyrirvinnur sem komu yfir sig húsi. Það var allt reiknað út áður en þau lögðu í þessar byggingarframkvæmdir og þegar þau byrjuðu að borga af lánunum fór 1/3 af hennar launum í afborganir. Nú fara laun hennar eins og þau leggja sig í afborganir. Þótt þau gerðu þarna sínar áætlanir og legðu upp með ágæta útreikninga kom allt fyrir ekki eins og raunin var með svo marga því að aðstæðurnar breyttust. Misgengi launa og lánskjara var eitt, kostnaðaráætlanir annað, vaxtahækkanir það þriðja. Þetta eru fyrst og fremst þeir þættir sem hafa skipt sköpum, enda segir í skýrslunni á bls. 5 í lok kaflans sem heitir „Lýsing vandans“:

„Ef ekkert misgengi launa og lána hefði komið til væru þeir sem leita hefðu þurft aðstoðar úr sérstökum lánaflokki Húsnæðisstofnunar eitthvað færri en raun ber vitni, en umsóknir hefðu engu síður orðið margar.“

Hins vegar er ekkert leitast við að skýra þetta neitt frekar, hverjar eru ástæðurnar fyrst það er ekki misgengið. Hér vantar alla tengingu. Það er bara talað um að sumt veki athygli, annað sé eftirtektarvert og enn eitt undarlegt. Sú setning sem ég vitnaði til sýnir vitanlega fyrst og fremst að sú stefna sem fylgt hefur verið, þ.e. séreignastefnan, gengur ekki upp við breyttar aðstæður. Hún gekk upp þegar menn þurftu ekki að greiða lánin sín verðtryggð, en hún gengur ekki upp núna.

Við fáum upplýsingar í þessari skýrslu um hversu margir hafa sótt um lán vegna greiðsluerfiðleika og hve mörg lán hafa verið samþykkt og hve mörgum hafi verið synjað. En hér vantar upplýsingar um þá sem ekki varð bjargað. Hvar eru t.d. upplýsingarnar um þá sem seldu og komu út á núlli? Um það þekki ég mörg dæmi. Og hvar eru upplýsingarnar um þá sem misstu eignir sínar á nauðungaruppboði? Þessar upplýsingar, sem skipta að mínu mati öllu máli, eru ekki finnanlegar í þessari skýrslu.

Hér vantar líka upplýsingar um hversu margir leituðu aðstoðar ráðgjafarþjónustunnar oftar en einu sinni. Það minnir á að á síðasta þingi lagði hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir fram fsp. m.a. um þetta atriði og óskaði skriflegs svars, en þrátt fyrir ítrekun sem ég bar fram í umræðum um húsnæðismálafrv. í fyrravor barst þetta svar aldrei. Þessi fsp. var í þremur liðum og hljóðaði svo, með leyfi forseta:

„1. Hve margir festu kaup á íbúð eða hófu byggingu húsnæðis á árunum 1981, 1982 og 1983?

2. Hve margir þeirra sem keyptu íbúð eða byggðu húsnæði á árunum 1981, 1982 og 1983 hafa leitað aðstoðar ráðgjafarþjónustu Húsnæðisstofnunar á árinu 1986? Hve margir þeirra leituðu einnig til ráðgjafarþjónustunnar á árinu 1985?

3. Hve mikið hefur eignatap þeirra einstaklinga orðið sem keyptu eða byggðu húsnæði á árunum 1981, 1982 og 1983?"

Með þessari fsp. fylgdi örstutt greinargerð sem ég sé ástæðu til að lesa hérna upp, með leyfi hæstv. forseta. Hún hljóðar svo:

„Óskað er eftir því í svari við þriðju spurningu að aflað verði upplýsinga úr skattaframtölum allra þeirra sem keyptu eða byggðu húsnæði á árunum 1981, 1982 og 1983 um heildartekju- og eignarskattsstofn fyrir hvert ár, þ.e. eignir að frádregnum skuldum fyrir skattárin 1980-1985. Þessar upplýsingar óskast settar fram á aðgengilegan hátt sem sýnir fjölda einstaklinga og þær fjárhæðir sem hver einstaklingur hefur tapað á tímabilinu 1980-1985. Allar tölur verði reiknaðar til verðlags við áramót 1985/1986. Óskað er eftir því að engin persónueinkenni tengist þessum upplýsingum. Reikna skal með heimilistekjum þar sem við á. Upplýsingar óskast sérstaklega um þann hóp sem leitað hefur aðstoðar ráðgjafarþjónustu Húsnæðisstofnunar á þessu ári. Þess er farið á leit að félmrh. láti ráðgjafarþjónustu Húsnæðisstofnunar og Þjóðhagsstofnun leita þessara upplýsinga með tölvuvinnu.“

Eins og ég sagði áðan var beðið um skriflegt svar og ítrekað innt eftir því fyrir þinglok á s.l. vori, en allt kom fyrir ekki. Svarið barst aldrei. Ég vil því spyrja hæstv. félmrh., sem hafði vissulega góð orð um að þetta svar mundi berast, hvort þessar upplýsingar hafi ekki verið unnar og hvort ekki megi vænta þess að við fáum að sjá þær eða hvort þurfi að leggja fram sérstaka fsp. til að ýta á eftir því.

Það er reyndar annað sem ég sakna úr skýrslu sem þessari. Í henni er lögð töluverð áhersla á að tekjur ráði ekki úrslitum við lýsingu vandans og inn á það kom m.a. hæstv. ráðh. áðan. Það stendur hér m.a., með leyfi forseta:

„Eftirtektarvert er varðandi þá sem keyptu íbúðir á árunum 1984, 1985 og 1986 að tekjur virðast ekki ráða úrslitum við lýsingu vandans. Lágtekjufólk er að sjálfsögðu í vanda, sérstaklega það lágtekjufólk sem aflar lítils umfram það sem nauðsynlegt er til eðlilegrar framfærslu.“ - Og skyldi reyndar engan undra.

Raunar er kannske ástæða til að lesa hér aðeins lengra, með leyfi forseta:

„En undarlegra er að allur fjöldi þeirra sem höfðu þokkalegar og jafnvel mjög góðar tekjur var engu að síður í sama vanda og lágtekjufólkið. Í þessu sambandi vísast til töflu 4 þar sem fram koma tengsl tekna við íbúðarstærð, skuldir og vanskil eftir tekjum 1985. Vanskil hátekjufólks eru nánast þau sömu og vanskil lágtekjufólks, en skuldir og íbúðarstærð eru hins vegar mun meiri hjá hátekjufólki.“

Hér vantar alla frekari greiningu. Ég vildi t.d. gjarnan vita hversu margir voru lágtekjumenn, en náðu svo hærri tekjum með margföldu vinnuálagi eins og tíðkast iðulega hjá húsbyggjendum sem eyðileggja heilsu og lenda í þessum fræga vítahring. Í mínum huga er orsök alls þessa ljós. Stefna stjórnvalda er einstaklega einstrengingsleg. Hún segir: Þú átt að byggja hvort sem þú hefur efni á því eða ekki. - Afleiðingin er oft og tíðum ofboðslegt vinnuálag sem í mörgum tilvikum leiðir til heilsutjóns og stundum þolir hjónabandið og fjölskyldulífið ekki það álag sem öllu þessu fylgir.

Ég vil sérstaklega benda á eina setningu í lokaorðum skýrslunnar, þ.e. kaflanum sem heitir Lokaorð. En neðst á bls. 6 segir svo, með leyfi forseta:

„Þeir íbúðarkaupendur og húsbyggjendur sem urðu fyrir aukinni greiðslubyrði lána vegna afnáms vísitölubindingar á laun á árinu 1983 hafa fengið ýmsa aðstoð við að koma þeirri greiðslubyrði í viðráðanlegra horf. Frá því í febrúar 1985 hafa verið veitt sérstök lán vegna greiðsluerfiðleika úr Byggingarsjóði ríkisins auk þeirra skuldbreytinga sem fram hafa farið hjá bönkum og sparisjóðum.“

Síðan segir: „Enginn hefur fengið greitt til baka þá auknu greiðslubyrði sem afnám vísitölubindingar á laun á árinu 1983 leiddi af sér, en hins vegar fara þau lán sem veitt hafa verið úr Byggingarsjóði ríkisins langt með að bæta upp þessa auknu greiðslubyrði þó að þau þurfi að sjálfsögðu að greiða til baka.“

Þetta er athyglisvert því að í þessu felst að minni hyggju viðurkenning á því, sem margir hafa haldið fram, þar á meðal margir þm., að fólk sem varð fyrir þessum órétti hefði átt að fá leiðréttingu í formi endurgreiðslna. Öðruvísi er í raun og veru ekki hægt að rétta hlut þess.

Margt af því sem síðar segir í þessum kafla hef ég þegar rætt, en ég vil ítreka mótmæli mín við fullyrðingum eins og þeirri sem kemur fram í skáletruðum texta á bls. 7 um að vandinn sé afleiðing rangra fjárfestinga og reyndar segir í öðru lagi lágra launa o.s.frv. Ég vil sérstaklega mótmæla þessu aftur, að þetta sé afleiðing rangra fjárfestinga. Svona er ekki hægt að segja útskýringalaust. Ég endurtek að margt af því fólki sem lent hefur í þrengingum vegna húsbygginga og íbúðarkaupa og á í þrengingum enn þá gerði áætlanir sem urðu því aðeins „rangar“ að stjórnvöld rugluðu forsendum.

Hér er svo reyndar lítillega minnst á þann hóp sem virðist vera hálfgerður vandræðahópur í þjóðfélaginu, þ.e. þeir sem stunda eigin atvinnurekstur. Það segir á bls. 7, með leyfi forseta:

„Sumir hópar þjóðfélagsins hafa það lág laun að íbúðakaup þeirra eru á engan hátt möguleg. Fjölskyldutekjur umsækjenda um lán vegna greiðsluerfiðleika þar sem eru tvær fyrirvinnur og báðar í fullu starfi voru lægstar tæpar 500 þús. kr. fyrir árið 1985, en hæstar nokkuð yfir 2 millj. kr., þ.e. vel fjórfaldur munur. Í þessu sambandi er rétt að taka fram að þegar talað er um lág laun er ekki verið að tala um þá sem stunda eigin atvinnurekstur þó að tekjur þeirra flestra séu að sjálfsögðu við neðri mörkin.“

En hvað er svo sjálfsagt við það og hvers vegna er þessi hópur alltaf utan við allt í þjóðfélaginu? Hann er líka utan við í þeim breytingum sem nú á að fara að gera á skattalögunum. Þetta ætti ekki að vera neitt huldufólk. Er ekki einfaldlega kominn tími til að kanna aðstæður þeirra sem stunda eigin atvinnurekstur svo við sitjum ekki uppi með einhvern utangarðshóp í þjóðfélaginu sem við vitum ekkert um, fólk sem er tekjulægra en einstæðar mæður upp til hópa og þarf sérstaka meðhöndlun í öllum málum? Það verður fróðlegt að heyra álit hæstv. félmrh. á því.

Ég minnist þess að það komu fram upplýsingar í sambandi við þann hóp sem hefði leitað eftir þessum lánum sem boðið var upp á vegna greiðsluerfiðleika. Það komu fram þær upplýsingar að í þeim hópi, ef ég man rétt, voru tekjulægstu einstaklingarnir þessir sjálfstæðu atvinnurekendur. Þeir voru upp til hópa með lægri tekjur en einstæðar mæður úr þessum hópi. Það meira en hvarflaði að mér að flytja till. til þál. um að kanna félagslegar aðstæður þessa þjóðfélagshóps sem hlýtur að eiga afskaplega bágt.

Hér eru svo að lokum úrræðin sem skýrsluhöfundar benda á í niðurlagi skýrslunnar og úrræðin eru svo sem góðra gjalda verð svo langt sem þau ná, en þau felast í því að reyna að byrgja brunninn áður en barnið dettur ofan í hann. Því miður eru svo margir dottnir í þennan brunn að það er ekki alveg nógu gott.

Í fyrsta lagi er hér talað um öflugt upplýsingastarf. Það er auðvitað sjálfsagt og ágætt, en þá er líka eins gott að forsendur breytist ekki. Og þá komum við enn einu sinni að því að það er ekki nóg að gera áætlanir ef síðan koma ruglarar og skekkja myndina.

Í öðru lagi er talað um að það þurfi að leiðbeina. Það er líka allt gott um það að segja, en ber að nákvæmlega sama brunni.

Ég held ég hlaupi yfir þriðja úrræðið og geymi mér það gullkorn þangað til síðast, en í fjórða lagi er talað um og ég ætla, með leyfi forseta, að lesa það:

„Í fjórða lagi þarf að setja á stofn þjónustu við þá sem hafa hug á að kaupa eldra húsnæði til þess að meta það ef óskað er. Með þess háttar þjónustu væri hægt að firra marga óþarfa kostnaði sem hlýst t.d. af göllum eða skemmdum sem ekki sjást nema með nákvæmri skoðun.“

Við veltum þessum punkti fyrir okkur og ég verð að segja að mér finnst þetta ekki geta tilheyrt verksviði húsnæðismálastjórnar. En þetta er í anda fyrirbyggjandistefnunnar að reyna að hindra fólk í því að ana út í ófæruna og má vel vera að eitthvert gagn væri að þessu. En ég hef sem sagt efasemdir um að þetta samrýmist hlutverki húsnæðismálastjórnar.

En þá er það þriðji punkturinn, rúsínan mikla. Ég er búin að lesa þessa setningu aftur og aftur og ég ætla að lesa hana upphátt, með leyfi hæstv. forseta. Hún hljóðar svo:

„Í þriðja lagi þarf Húsnæðisstofnun að koma í veg fyrir að þeir sem hafa það lág laun að íbúðakaup á frjálsum markaði eru ekki möguleg leysi húsnæðismál sín á annan hátt og forða þeim þannig frá algeru skipbroti.“

Samkvæmt orðanna hljóðan, eins og ég skil íslenskt mál, eiga þessar ágætu manneskjur alls ekki að fá að leysa húsnæðismál sín. Húsnæðisstofnun þarf fyrir alla muni að koma í veg fyrir það. Líklega má þetta fólk ekki einu sinni tjalda. Og hver er eiginlega meiningin með svona setningu? Í mínum eyrum hljómar þetta eins og argasta háð, en líklega á það ekki að vera svo. Kannske hafa menn ætlað að segja eitthvað allt annað með þessari setningu, en ég skil hana ekki. Hvert er eiginlega verið að vísa þessu fólki? Það stendur ekkert um það. Það á einfaldlega að koma í veg fyrir að það leysi húsnæðismál sín, enda á þetta fólk auðvitað hvergi heima í þeirri séreignastefnu sem hefur ríkt og virðist ætla að ríkja áfram hér á landi.

Það er ekki að undra þótt úrræða sé ekki getið og það er kannske ekki greiði við hæstv. ráðh. að vera að nudda um þessi mál. Ég veit að hann hefur slíka meðstjórnendur í ríkisstjórninni sem ekki vilja líta á einu úrræðin sem duga því að þau úrræði falla ekki inn í stefnuna. Það eru þau úrræði sem við Kvennalistakonur höfum margsinnis bent á og talað fyrir. Það verður að auka leiguhúsnæði í landinu. Öðruvísi verður ekki leystur vandi þeirra sem hafa ekki tekjur til að standa undir fjármagnskostnaði vegna húsnæðiskaupa eða bygginga. Að okkar dómi er þetta eitt brýnasta atriðið í húsnæðismálum nú og er verulegt áhyggjuefni hversu lítill áhugi virðist á því meðal ráðamanna og beinlínis andúð við það úrræði.

Ég vildi nú biðja hæstv. ráðh., auk þeirra spurninga sem ég beindi hér til hans, að skýra þetta þriðja úrræði sem er vitanlega ekkert úrræði og hreint og klárt öfugmæli nema það sé til háðungar. Þetta hlýtur að þarfnast einhverra skýringa. Ég vildi spyrja líka að því hvort það hafi ekki verið meiningin að benda á nein úrræði sem svo mætti kalla.

En ég segi það enn og aftur, og það skulu vera mín lokaorð hér, að það verður að gera stórátak í byggingu leiguhúsnæðis í landinu.