03.03.1987
Sameinað þing: 58. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3691 í B-deild Alþingistíðinda. (3287)

288. mál, lán vegna greiðsluerfiðleika

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umræður mikið, en ég vildi vekja athygli á því sem hæstv. ráðh. sagði áðan varðandi frekari úrlausn fyrir fólk sem lenti í greiðsluerfiðleikum vegna misgengis launa og lánskjara og raunar fleiri þátta, að það hefði aldrei staðið til að endurgreiða þeim. Það sem sagt kom aldrei til greina að endurgreiða þeim það sem á þá féll vegna þessara þátta.

Í öðru lagi vildi ég drepa á fsp. sem ég vakti athygli á og ekki hafði fengist svar við. Ég sagði áðan að hún hefði verið ítrekuð. Það er rétt hjá hæstv. ráðh. að hún kom fram nokkuð seint á þinginu í fyrra, þó ekki seinna en svo að það voru nokkrar vikur eftir af þinginu. Ég leitaði ítrekað svara við henni í umræðum um frv. til l. um húsnæðismálastjórn. Í þeirri umræðu svaraði hæstv. ráðh. því til að svar mundi berast. Hugsanlega er það orsökin fyrir því að við ítrekuðum þetta ekki enn frekar. En ég get vissulega fallist á það með hæstv. ráðh. að við hefðum átt að minna á þessa fsp. og ítreka hana í haust. Það hefði verið rétt og eðlilegt. Hef ég nú ekki beint svör við því hvers vegna við gerðum það ekki. Má vera að það hafi gleymst. En ég þakka hæstv. ráðh. fyrir viðbrögð hans í því máli og vona að við fáum þá svar.