28.10.1986
Sameinað þing: 9. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 371 í B-deild Alþingistíðinda. (329)

Framleiðnisjóður landbúnaðarins

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Ég hygg að bændur finni fyrir því þessa dagana að vegið er að þeim úr ýmsum áttum samtímis. Það er boðað í fjárlagafrv. að áburðarverð eigi að hækka á komandi vori um 30%. Það vofir yfir veruleg hækkun á rafmagnsverði í sveitum fram yfir almennar verðlagsbreytingar og niðurgreiðslur á landbúnaðarvörum fara ört lækkandi ár frá ári með þeirri afleiðingu að sala og neysla hér innanlands dregst saman. Og nú seinast blasa við afleiðingarnar af samþykkt framleiðsluráðslaganna hér á dögunum þegar 1/3 hluti útflutningsbóta er tekinn í Framleiðnisjóð og notaður til að kaupa framleiðslurétt af bændum. Það er í gangi mikil herferð til að fá þá til að fallast á þetta og þessi herferð er kostuð af bændum sjálfum. Þeir eru sjálfir látnir borga herkostnaðinn gegn sér.

Það er skoðun mín að þetta geti ekki leitt til neins annars en þess að kjör bænda skerðist enn frekar með stórminnkuðum útflutningsbótum sem auðvitað var full þörf á þegar neyslan dregst svo saman sem raun ber vitni, þetta séu röng viðbrögð við miklum vanda, röng notkun á fé Framleiðnisjóðs. Það fé átti að nota til uppbyggingar en ekki til niðurrifs. Að öðru leyti er óþarfi að endurtaka það sem kom fram áðan hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, en mig langar aðeins til að benda á eitt atriði sem ekki hefur komið fram í þessari umræðu.

Þegar búið er að pretta aðþrengda bændur til þess að afsala sér rétti til að framleiða á viðkomandi jörðum og þeir sitja eftir á algjörlega verðlausum jörðum sem auðvitað engum dettur í hug að kaupa af þeim eftir að búið er að fórna öllum framleiðsluréttinum á jörðinni eða kannske verulegum hluta hans, hvað er þá um lán og veð sem hvíla á jörðinni? Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvort þetta hafi verið tekið með í reikninginn. Hvert verður tjón Stofnlánadeildar landbúnaðarins af þessum sökum? Hver ber ábyrgð á þeim skuldbindingum sem hvíla á jörðum sem gerðar eru verðlausar með þessum uppgripum á framleiðslurétti? Og ég spyr að lokum: Hlýtur ekki ríkissjóður á endanum að verða skaðabótaskyldur gagnvart þeim veðhöfum sem þannig missa raunverulega veð sín vegna þessara aðgerða ríkisvaldsins?