04.03.1987
Efri deild: 47. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3695 í B-deild Alþingistíðinda. (3296)

359. mál, stofnun hlutafélagsbanka um Útvegsbanka Íslands

Frsm. 1. minni hl. fjh.- og viðskn. (Stefán Benediktsson):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 730 um frv. til laga um stofnun hlutafélagsbanka um Útvegsbanka Íslands frá 1. minni hl. fjh.- og viðskn.

Í byrjun desember s.l. ályktaði þingflokkur Alþfl. um Útvegsbankamálið. Það er reyndar þegar komið fram við 1. umr., en ég vil þó ítreka það svo það fari ekki fram hjá mönnum, því að þessi ályktun lagði í fyrsta lagi áherslu á nauðsyn þess að eyða óvissu í Útvegsbankamálinu með því að leggja þá þegar fram lausn á því. Í öðru lagi var lagt til að ríkisbankareksturinn yrði stokkaður upp þannig að stofnaðir yrðu tveir viðskiptabankar úr þremur, þ.e. ríkisbönkunum, og annar þeirra síðan seldur sem hlutafélag. Þessi lausn hefði bætt skipulag og rekstur bankakerfisins frá sjónarmiði hagkvæmni, samkeppni, þjónustu og stjórnar peningamála. Í þriðja lagi var lagt til að Alþingi hætti að kjósa fulltrúa í bankaráð, en viðskrh. þess í stað falin skipan þeirra. Í heild miðar þessi lausn að því að draga úr ábyrgð og afskiptum ríkisins af bankarekstri jafnframt því að draga skýrar línur hvað varðar stjórnarábyrgð á rekstrinum. - Ályktun þingflokksins fylgir með nál. mönnum til glöggvunar.

Það fer ekkert á milli mála að það mikla áfall sem reið yfir Útvegsbankann vegna gjaldþrots Hafskips var mjög þungur dómur um leið um þá alvarlegu ágalla sem finna má á íslensku stjórnkerfi og í þessu tilviki sérstaklega á bankakerfinu. Ríkisrekstur á íslenskum bönkum hefur yfirleitt reynst mjög skaðlegur markmiðum efnahagsstjórnar og óábyrgur þegar á reyndi eins og kemur í ljós við það áfall sem Útvegsbankinn verður fyrir að þá er skattgreiðendum þessa lands einfaldlega gert að greiða þann skaða sem stjórn bankans hefur valdið.

Niðurstaða þessa máls, og það er kannske á þessu augnabliki meira viðblasandi og alvarlegri hlutur, sýnir að ríkisstjórn sú sem nú situr hefur hvorki haft getu né vilja til að breyta íslensku viðskiptalífi, þrátt fyrir margítrekuð loforð, til ábyrgari starfshátta og í öðru lagi, sem lítið hefur nú kannske farið fyrir í þessari umræðu, hefur þessi ríkisstjórn ekki einu sinni haft getu eða vilja til að framfylgja lögum, því að eins og allir vita, og það mál er kannske mjög alvarlegt frá okkar bæjardyrum sem hér störfum séð, hefur Útvegsbankinn á annað ár ekki uppfyllt þau ákvæði laga um viðskiptabanka sem kveða á um hlutfall eigin fjár af niðurstöðutölum efnahagsreiknings. Þetta var eitt af mjög veigamiklum atriðum sem talin voru í þeim lögum sem við settum fyrir rúmu ári um starfsemi viðskiptabanka.

Einu atriði ætla ég að víkja að sem ég tel að sé erfitt að mæla á móti, en það er að ábyrgð eins stjórnmálaflokks á þessu máli er sérstaklega mikil. Í fyrsta lagi dylst engum ábyrgð ráðamanna Sjálfstfl. á Hafskipsmálinu sjálfu. Því verður einfaldlega ekki mótmælt hver ábyrgð þeirra er vegna þess að þeir hafa sjálfir viðurkennt að bera á því þunga ábyrgð. Í ljósi þess verður að skoða þá ákveðnu stefnumörkun sem sett var fram á flokksráðsfundi Sjálfstfl. í nóvember s.l. þar sem menn settu endurskipulagningu bankakerfisins á oddinn sem eitt það mikilvægasta mál sem Sjálfstfl. þyrfti að ná fram. Þar kröfðust menn þess og gefin voru loforð um það að aldrei rynni eyrir úr ríkissjóði í Hafskipsgjaldþrotið.

Nú stöndum við frammi fyrir því að Sjálfstfl. hefur alls ekki getað framfylgt því sem hann sjálfur hafði lýst yfir að hann vildi í þessum málum. Getuleysi jafnstórs stjórnmálaflokks og Sjálfstfl. er í svona máli hlýtur að vekja menn til umhugsunar um að eitthvað er ekki með felldu í voru samfélagi og þá kannske ekki hvað síst í okkar stjórnkerfi.

Ég held að tengsl Sjálfstfl. við stjórnkerfið, það hvað hann þarf orðið að gæta ótalmargra hagsmuna í því, sýni manni fram á nauðsyn rækilegs uppskurðar á stjórnkerfi okkar og þá með tilliti til þess að það færi að vinna á einhvern hátt eins og menn vildu að það ynni. Þá er ég að höfða til þess að menn hafa margoft gefið yfirlýsingar um hvað þeir vilja en aldrei komið þeim síðan fram. Hæstv. ráðh. upplýsti í 1. umr. um málið að einhverjir ótilteknir aðilar hefðu einfaldlega verið á móti því t.d. að sameina Útvegsbankann og Búnaðarbankann. Það var mjög greinilega á hans máli að heyra að það var ekki neinn gífurlegur fjöldi manna sem þar hafði verið við að etja. Það voru örfáir einstaklingar raunverulega sem komu í veg fyrir það að sú leið yrði farin sem var talin annar besti kosturinn af ríkisstjórninni.

Í raun og veru hefur aldrei fengist nokkur skýring á því hvers vegna fyrsti kosturinn náðist ekki, a.m.k. ekki viðhlítandi skýring, nema þá einfaldlega sú að það hafði aldrei verið grundvöllur fyrir henni frá upphafi. En það voru einmitt mjög margir sem leiddu getum að því strax þegar hún var nefnd.

Ef það er þannig í íslenskum stjórnmálum að flokkur sem kosinn er á þing af hartnær 40% þjóðarinnar getur ekki gert það sem hann vill hlýtur það að liggja í getuleysi þess hins sama flokks. Ég held að það sé alls ekki út í hött að staðhæfa að það bákn sem helst þarf burt úr íslensku stjórnkerfi er Sjálfstfl. sjálfur og ekkert annað.

Nú er það staðreynd að menn hafa bráðum í tvo áratugi verið að tala um nauðsyn endurskipulagningar bankakerfisins. Sú lausn sem hér er lögð til breytir engu öðru en því að koma Útvegsbankanum aftur í gang við nákvæmlega sömu aðstæður og hann bjó við fyrr. Í ljósi þess get ég ekki mælt með samþykkt þessa frv. Aftur á móti verður maður líka að horfa til þess að það hefur dregist bráðum í 11/2 ár að gera það sem gera þurfti í þessu máli. Eins og segir í ályktun þingflokks Alþfl. frá því í nóvember s.l.: Það fyrsta sem gera þarf er að eyða óvissu um framtíð þeirrar bankastarfsemi sem nú fer fram innan Útvegsbankans. Af þeim ástæðum get ég heldur ekki lagt til að þetta frv. verði fellt heldur munum við Alþýðuflokksmenn sitja hjá við afgreiðslu þess.

Hv. 3. þm. Norðurl. v. kallaði það heillaráð þegar Útvegsbankanum var breytt úr hlutafélagsbanka í ríkisbanka. Mér finnst það frekar napurleg fullyrðing í ljósi þess hvað við sitjum,uppi með, því það er einmitt sú aðgerð, þegar Útvegsbankanum var breytt úr hlutafélagsbanka í ríkisbanka, sem er trúlega upphafið að þeim ósköpum sem við stöndum frammi fyrir núna. Ég verð að viðurkenna að mér hefur alltaf komið spánskt fyrir sjónir, en ég hef nokkrum sinnum gert bankamál hér að umræðuefni, þessi undarlega trú Alþb. á réttmæti þess að ríkið ætti banka því að mér finnst að það sé afskaplega fátt í okkar efnahagssögu sem sanni að svo sé.

Eitt getum við hv. 3. þm. Norðurl. v. samt sem áður verið sammála um, að bönkum beri að fækka. En það er greinilegt að hann ætlar sér að fara aðrar leiðir í því efni en Alþfl. og það er ekki víst að við getum þar af leiðandi verið samstiga eftir kosningar í þeim málum. En eitt er víst, að Alþfl. mun neyta þess afls sem hann hefur þá fengið til að framkvæma þá endurskipulagningu á íslensku bankakerfi sem menn forsómuðu að framkvæma núna.