14.10.1986
Sameinað þing: 3. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 45 í B-deild Alþingistíðinda. (33)

20. mál, samningur milli Íslands og Bandaríkjanna

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég kvaddi mér hér hljóðs undir ræðu hæstv. utanrrh. Auðvitað verður hann að hafa það eins og hann vill með þetta plagg, og þessi meiri hluti sem hér er. Ef hann vill hafa þetta vitlaust og illskiljanlegt, nú, þá er það þeirra mál. Við höfum verið að benda á eitt og annað sem er heldur ruglings- og grautarlegt í þessu hjá þeim en það er náttúrlega ekki von að þeir vilji hlusta á leiðbeiningar okkar eftir yfirlýsingar Jóns Baldvins Hannibalssonar hv. þm. hér áðan vegna þess að það á að sjálfsögðu ekki að hlusta á þá sem hafa hinar óhreinu skoðanir í þessu máli. Það á auðvitað að passa það að svoleiðis fólk, sem er ekki þessum meiri hluta hér á þinginu þóknanlegt, komi hvergi nálægt hlutunum. Með þessum orðum sínum var hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson auðvitað sérstaklega að ávarpa Samband ungra jafnaðarmanna og formann Sambands ungra jafnaðarmanna, Maríu Kjartansdóttur, og lýsa stríði á hendur því fólki með býsna ósmekklegum hætti hér áðan, eins og honum er reyndar gjarnan tamt í samskiptum við flokksmenn sína.

Það sem rak mig hér upp var það að hæstv. utanrrh. var að rembast við, og tókst það nokkuð vel út af fyrir sig, að skilja ekki það sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson og hv. 10. landsk. þm. Guðrún Helgadóttir voru að segja áðan. Það er auðvitað alveg ljóst, hæstv. utanrrh., að það er óhjákvæmilegt, ef þið ætlið að fara með þetta mál í gegnum þingið, að skýra nánar 4. gr. Það verður að leggja í það vinnu í utanrmn. að skýra nánar þessa 4. gr. Ég held að menn eigi að bera þá virðingu fyrir verkum sínum sem alþm. að þeir reyni að vanda sig við texta eins og þennan og það er alveg ljóst að textinn er óskýr vegna þess að hann gefur í skyn að niðurstaða þáltill. skuli ganga fyrir ákvæðum hvers kyns eldri ósamrýmanlegra laga eða reglugerða lýðveldisins Íslands eða Bandaríkja Ameríku.

Nú er auðvitað í þessum texta almennt verið að tala um flutninga, almennt í tillögunni er verið að tala um flutninga. Í þessari grein sem er lokagrein plaggsins er hins vegar verið að draga almennar ályktanir varðandi samningana í heild. Og ég tel að það sé nauðsynlegt að hæstv. utanrrh. sjái til þess að utanrmn. eða formaður hennar fái í hendur texta um ótvíræða túlkun á þessu máli í samræmi við það sem utanrrh. hefur verið að segja, sem sé það að þessi grein skipti í rauninni engu máli varðandi sett eða ósett íslensk lög, settar eða ósettar íslenskar reglugerðir, hún snerti í raun og veru ekkert annað en lögin bandarísku frá 1904.

En ef þetta er svona, af hverju í ósköpunum stendur þá ekki hér fullum fetum í þessari grein að þetta eigi eingöngu við bandarísku lögun frá 1904? Af hverju er verið að reyna að fara eins og köttur í kringum heitan graut sem mér finnst reynt að gera hérna annaðhvort vísvitandi eða öllu heldur, sem er mikið líklegra, óvart þegar menn voru að setja þetta saman vegna þess að þeir hafa ekki áttað sig á því hvað þetta í rauninni gat boðið upp á alvarlegan skilning eða misskilning á málinu eftir því hvernig menn vilja setja þetta fram. Og ég held að menn eigi að temja sér það á hv. Alþingi þegar verið er að ræða um lagatexta, tillögur og alþjóðasamninga, að hafa í frammi eðlilegar ábendingar um efni máls, uppsetningu og framsetningu burtséð frá því hver þeirra afstaða kann að vera til málsins. Ég ætlast a.m.k. til þess af hæstv. utanrrh. og ég veit að það á við um hann að hann er tilbúinn til þess að hlýða þannig á mál sem fram kemur frá stjórnarandstöðunni þó að sumir hér séu svo heilagir að þeir telji helst að þeir þurfi bara ekkert að hlusta á það sem kemur fram frá þeim sem eru andvígir amerísku hersetunni hér á landi. .

Í þessum enska texta er, eins og hv. þm. Guðrún Helgadóttir benti á, talað um „military cargo“, efst á bls. 3. Ég sé ekki að þessu sé til haga haldið í íslenska textanum. (GHelg: Það er þýtt flutningar.) Það er þýtt flutningar. Af hverju er þetta sett svona fram, til hvers? „Military cargo“ er hergagnaflutningar. Þetta er þýtt hér flutningar. Af hverju eru menn að breiða yfir hlutina í íslenska textanum eða er þetta kannske inni einhvers staðar annars staðar? Þá tökum við auðvitað öllum ábendingum um það. Ég sé það ekki í textanum eins og hann er núna. Mér sýnist að óhjákvæmilegt sé að laga svona hluti eða hvað, nema menn geti bent á að þetta sé inni einhvers staðar annars staðar og þá hlusta menn náttúrlega á það. En ég hef ekki heyrt neinar slíkar ábendingar. Og mér finnst satt að segja alveg útilokað fyrir hæstv. utanrrh. - enda veit ég að hann er ekki vanur því að menn séu að reyna að aka sér undan efnislegum og alvarlegum ábendingum, jafnvel þó að þær komi frá fólki sem kann að vera í andstöðu við viðkomandi þingmál eins og við Alþýðubandalagsmenn höfum gert grein fyrir í dag.

Ég ætla ekki að fara að ræða þetta plagg mjög ítarlega né heldur þau önnur mál sem hafa komið upp. Hér er till. til þál. um aronsku. Hér er till. til þál. um viðskiptatengsl hersins og íslenskra fyrirtækja til viðbótar við þau fjölmörgu íslensku fyrirtæki sem þegar skipta við ameríska herinn. Við höfum verið þeirrar skoðunar að það eigi að einangra herinn efnahagslega. Við höfum sagt sem svo að það eigi að leggja vinnu í að draga úr hinum efnahagslegu tengslum svo lengi sem herinn er hér, að menn setji sér einhver eðlileg mörk í þeim efnum. Það hefur verið okkar afstaða. Og það er í raun og veru athyglisvert að menn skuli hrökkva svo við þegar þetta er nefnt af okkur, að formaður Alþfl. emjar og kveinar og segist hafa verið kallaður landráðamaður, segir að talað hafi verið um hermang og mola af borði. Það er greinilegt að maðurinn finnur til, það er ánægjulegt. En enginn hefur kallað hann landráðamann úr þessum ræðustóli, ekki af mínum flokksmönnum a.m.k.

Það er hins vegar alveg ljóst að þeir menn sem hafa haft fyrirtæki í viðskiptum við herinn hafa haft stórkostleg pólitísk áhrif á Íslandi. Munið þið ekki eftir því 1973 þegar nokkrir forvígismenn Framsfl., sem tengdir voru viðskiptum við herinn, gengu á fund þáv. forsrh. og utanrrh. og óskuðu eftir því að herinn færi ekki úr landinu, töluðu sérstaklega fyrir hönd þessara hagsmuna? Ég er ekki að halda því fram að hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson né aðrir ágætir hv. þm. ættu hlut í þessum fyrirtækjum né heldur að þeir væru að ganga erinda þeirra. En ég er að benda á að þessi fyrirtæki og forráðamenn þeirra hafa ráðið býsna miklu, talsverðu í Framsfl., talsverðu í Sjálfstfl., stundum. Ég tel að þetta sé hættulegt fyrir þjóðina og þessa flokka ef þeir vilja taka á öryggis- og varnarmálum sjálfstætt og óháð viðskiptalegum tengslum.

Þessi mál voru rædd hér talsvert í sumar. Og þá kom fram að formaður Framsfl., Steingrímur Hermannsson, hæstv. forsrh., taldi eðlilegt að endurskoða öll samskipti við bandaríska herinn. Formaður Alþfl. lýsti þeirri skoðun sinni einnig í einhverju blaðaviðtali sem ég sá á hlaupum og formaður Bandalags jafnaðarmanna, sem var til þá, sagðist endilega vilja rannsaka og fara yfir öll samskipti við herinn. Mér er spurn: Hvað hefur síðan gerst sem kemur í veg fyrir að menn vilji jafnvel ganga í þetta verk? Ég hef ástæðu til að ætla að formenn þessara flokka séu enn þessarar skoðunar. Varla láta þeir þennan Rainbow-samning ganga fyrir því réttindamáli eða hvað? Það væri nokkuð öfugsnúið eftir svardagana um aðskilnað viðskiptahagsmuna annars vegar og öryggisstefnu í utanríkismálum hins vegar. Ég held að nauðsynlegt sé fyrir hv. Alþingi að fá ítarlegar upplýsingar um viðskipti íslenskra fyrirtækja við bandaríska herinn. Við höfum ákveðið í þingflokki Alþb. að leggja fram væntanlega á morgun, ef ekki er þegar búið að dreifa því, þingskjal sem er fsp. um þessi viðskipti, mjög ítarleg fsp., bæði um fyrirtæki sem eiga í þessu og eins magn þessara viðskipta. Það er best að það komi í ljós hversu mikill fjöldi fyrirtækja þetta er og hvort það gæti verið hugsanlegt að þar sé um einhver pólitísk tengsl að ræða. Gæti það verið að forráðamenn þessara fyrirtækja væru meðlimir í einum og einum stjórnmálaflokki hér í þessu landi? Það skyldi þó aldrei koma í ljós. Og það skyldi þó aldrei koma í ljós að þeir væru jafnvel í forustu í einstökum kjördæmum eða bæjarfélögum fyrir þetta lið sem ber ábyrgð á hersetunni hér á landi.

Nei, ræða hv. 5. þm. Reykv. minnti auðvitað átakanlega á upphaf þessa máls, herstöðvasamninginn 1951, þegar Alþfl., Framsfl. og Sjálfstfl., þm. þessara flokka, tóku ákvörðun um að herinn skyldi koma hingað og að sjálfsögðu var ekki kallað í aðra eins og það var orðað á þeim tíma. Hér er þetta vanheilaga bandalag enn einu sinni að ganga fram á 4. áratugi framkvæmdar þessarar utanríkisstefnu. Það segir manni út af fyrir sig ekki neitt nýtt, en þessi hjúskapur er staðfestur ákaflega skýrt hér í dag.

Við Íslendingar þurfum nú að mínu mati að vega og meta þessa stöðu alla og leggja á það áherslu að finna lausn á þessum málum sem skapar víðtækari samstöðu meðal þjóðarinnar en tekist hefur til þessa. Á Íslandi er meiri ágreiningur um framkvæmd utanríkisstefnunnar en í nokkru öðru ríki innan Atlantshafsbandalagsins. Það er vegna þess að meiri hlutinn hér á landi, í þinginu sérstaklega, hefur iðulega knúið þessi mál fram af offorsi gagnvart mikið stærri hluta þjóðarinnar en þeir hafa viljað vera láta. Og ég held að á þeim tímum sem við lifum nú, þar sem við erum vitni að alvarlegum umræðum um afvopnunar- og öryggismál, eigum við að reyna að hugsa ferskar og nýjar hugsanir og spyrja okkur sjálf: Hvað getum við gert til að stuðla að framkvæmd öryggismálastefnu sem sameinar Íslendinga betur en tekist hefur til þessa?