04.03.1987
Efri deild: 48. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3704 í B-deild Alþingistíðinda. (3318)

395. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Flm. (Jón Sveinsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um breytingu á lögum nr. 60 frá 1. júní 1984, um Húsnæðisstofnun ríkisins, með síðari breytingum. Frv. hef ég leyft mér að flytja ásamt hv. þm. Valdimar Indriðasyni, Karli Steinari Guðnasyni, Helga Seljan og Sigríði Dúnu Kristmundsdóttur. Það er 395. mál deildarinnar á þskj. 721.

Breyting sú sem hér um ræðir er við 3. mgr. 47. gr. laganna sem lagt er til að orðist þannig:

Eigi skal greiða stimpilgjald af afsölum fyrir verkamannabústöðum og veðskuldabréfum til Byggingarsjóðs verkamanna vegna verkamannabústaða, en kostnað við þinglýsingu greiðir kaupandi.

Breytingin felur í sér að útgefin veðskuldabréf kaupenda verkamannabústaða til Byggingarsjóðs verkamanna vegna lána úr sjóðnum verði ásamt afsölum fyrir verkamannabústöðum undanþegin stimpilgjaldi. Í núgildandi 3. mgr. 47. gr. laganna eru einungis afsöl vegna verkamannabústaða undanþegin stimpilgjaldi.

Samkvæmt stimpillögum er stimpilgjald 0,4% af fasteignamati eignar. Stimpilgjald af veðskuldabréfum þeim sem hér um ræðir er hins vegar 1,5% af lánsfjárhæð. Kostnaður við stimplun veðskuldabréfa er því oft miklum mun hærri en við stimplun afsals. Stafar það annars vegar af hærri hundraðshluta og hins vegar af því að byggingarkostnaður eða kaupverð eru yfirleitt allmiklu hærri en fasteignamat.

Með hliðsjón af því meginmarkmiði með verkamannabústöðum að bæta úr húsnæðisþörf láglaunafólks er viss mótsögn fólgin í þeim mismun sem fram kemur í núgildandi 3. mgr. 47. gr. laganna hvað stimpilgjald afsala og veðskuldabréfa snertir. Minnt er á að réttur til kaupa á verkamannabústað er bundinn m.a. því skilyrði að umsækjandi hafi í meðaltekjur þrjú síðustu árin áður en úthlutun fer fram eigi hærri fjárhæð en sem nam 419 þús. og 100 kr. árið 1986 fyrir einhleyping eða hjón og 38 þús. og 200 kr. fyrir hvert barn á framfæri umsækjanda innan 16 ára aldurs. Með tekjum er átt við heildartekjur umsækjanda, maka hans og barna. Ljóst er því að verkamannabústaði kaupir einungis láglaunafólk.

Samkvæmt 49. gr. laganna eru veitt lán úr Byggingarsjóði verkamanna til byggingar eða kaupa á verkamannabústöðum. Eru lánin oftast 85% af byggingarkostnaði eða kaupverði, stundum 90% og í undantekningartilvikum 100%. Stimpilgjald af slíkum lánum eru allveruleg og tilfinnanleg fyrir það láglaunafólk sem hér á í hlut. Hækkar gjaldið því meira því meiri og brýnni sem þörfin er. Af íbúð sem t.d. kostar 4 millj. kr. þarf að greiða 51 þús. kr. í stimpilgjald af 85% láni, 54 þús. kr. af 90% láni og 60 þús. kr. af 100% láni.

Fyrir ríkissjóð er tekjutap nokkurt vegna þessarar breytingar en það er þó ekki eins mikið og ætla mætti í fyrstu. Samkvæmt upplýsingum Húsnæðisstofnunar ríkisins sem fram koma á fylgiskjali með frv. reyndist heildarfjárhæð nýlána úr Byggingarsjóði verkamanna árin 1983-1986 vegna verkamannabústaða nema samtals 1655,5 millj. kr. Miðað við þessar upplýsingar hafa stimpilgjöld þessi ár numið alls 24,8 millj. kr., mest árið 1986, eða 7,7 millj. kr.

Tekjutapið er að mínu áliti mjög óverulegt fyrir ríkissjóð. Fyrir það láglaunafólk sem hér um ræðir skipta þessar greiðslur hins vegar verulegu máli. Eru jafnvel dæmi þess að há stimpilgjöld veðskuldabréfa hafa valdið því að láglaunafólk treystir sér ekki til að taka við úthlutun verkamannaíbúða sem það hefur átt kost á. Til að auðvelda þessu fólki að eignast eigið húsnæði á félagslegum kjörum og gæta um leið samræmis og aukins réttlætis í meðferð afsala og veðskuldabréfa er lagt til að felld verði niður stimpilgjöld af veðskuldabréfum vegna verkamannabústaða. Gert er hins vegar ráð fyrir því að kaupandi verkamannaíbúðar og útgefandi veðskuldabréfs vegna láns úr Byggingarsjóði verkamanna greiði þinglýsingargjald af veðskuldabréfi á sama hátt og af afsali, enda er sú upphæð mjög óveruleg. Tekur breyting sú sem hér um ræðir aðeins til veðskuldabréfa vegna verkamannabústaða. Er því ekki gert ráð fyrir að undanþágan nái til lána úr Byggingarsjóði verkamanna vegna annarra félagslegra íbúða, svo sem leiguíbúða sveitarfélaga.

Virðulegi forseti. Ég hygg að það sé ekki þörf á því að fara mörgum fleiri orðum um þetta frv. svo einfalt og skýrt sem það er. Málið er samt sem áður réttlætismál. Vonast ég til að það mæti ekki mikilli fyrirstöðu hér í deildinni þó að það komi seint fram og stutt sé í þinglok.

Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. félmn.