04.03.1987
Efri deild: 48. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3712 í B-deild Alþingistíðinda. (3323)

391. mál, fæðingarorlof

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Dræm fundarsókn hér í hv. deild nú þegar þetta mál kemur til umræðu er e.t.v. til marks um það að hér er á ferðinni gamalkunnugt mál fyrir hv. þingdeildarmenn því að eins og hv. þingdeildarmenn vita hef ég á þremur umliðnum þingum flutt hér frv. til laga um lengingu fæðingarorlofs úr þremur mánuðum í sex mánuði og fullar launagreiðslur til foreldra í fæðingarorlofi. Hefur ævinlega orðið mikil umræða um það mál hér í hv. deild og sitt sýnst hverjum, en skemmst er frá því að segja að það frv. hefur aldrei fengist afgreitt úr hv. heilbr.- og trn. þessarar hv. deildar þrátt fyrir ítrekaðar óskir þar um og þrátt fyrir að nefndinni hafi á sínum tíma verið afhentar hátt á fimmta þúsund undirskriftir þess efnis að hún afgreiddi það frv. með einhverjum hætti.

Þetta hefur þó e.t.v. orðið til þess að það var loksins sett á verkefnalista þeirrar hæstv. ríkisstjórnar, sem nú situr, nú á síðasta hausti að endurskoða gildandi lög um fæðingarorlof. Og síðan í október, þá er verkefnalistinn kom fram, höfum við beðið eftir því að sjá þau frumvörp sem þá voru boðuð um þessi mál. Þau eru nú hér fram komin og því fagna ég svo sannarlega, en vil jafnframt taka fram að það er vitaskuld afleitt að þetta viðamikla mál komi fram á síðustu dögum þingsins. Ljóst er að það er ekki nokkur von til þess að þau frumvörp sem hér liggja fyrir fái fullnægjandi umfjöllun í nefnd ef það er þá meiningin að afgreiða þau.

Hæstv. ráðh. komst svo að orði í ræðu sinni áðan að það væri gagnlegt að afgreiða þessi frumvörp nú fyrir þinglausnir. Var þar ekki fastar að orði kveðið og velkist ég í nokkrum vafa um það hvort þessi frumvörp eru lögð hér fram til sýnis eða hvort það sé raunveruleg meining ráðherra að fá þau afgreidd hér á þessu þingi. Ef svo er þá er það ekki vansalaust að þingið fær ekki nema tæpar tvær vikur, ef svo fer sem stefnir, til að fjalla um þetta viðamikla mál.

Það er nýmæli í þessum frumvörpum að hér er búið að búta ákvæði um fæðingarorlof niður í tvö mismunandi frumvörp. Annars vegar er um að ræða frv. þar sem skilgreint er að fæðingarorlof sé leyfi frá launuðum störfum án greiðslna og síðan er í fylgifrv. kveðið á um greiðslur í fæðingarorlofi og hvernig þeim skuli vera háttað. Þeim er þar skipt í tvennt, annars vegar í fæðingarstyrk og hins vegar fæðingardagpeninga. Þessi framsetning málsins er með ólíkindum flókin og enginn vafi á að hér er verið að gera einfalt mál óþarflega flókið.

Ég tek undir það sjónarmið að nauðsynlegt er að skilgreina nákvæmlega hvað átt er við með fæðingarorlofi, en sú flókna skipting, sem hér er um að ræða, að búta þetta niður í tvo mismunandi lagabálka og að skipta greiðslunum með þeim hætti sem hér er gert, er heldur mikið af því góða. Sama má segja um þær vangaveltur sem fram koma í grg. um kostnaðarskiptingu milli ríkis og atvinnurekenda vegna fæðingarorlofs og eins hvað varðar sérstakan fæðingarorlofssjóð sem er sett fram sem lausleg hugmynd í grg. með greiðslufrv. og verður að teljast heldur langsótt og fjarstæð eins og málum er nú háttað.

Í þessum frv. er að finna ýmsar af þeim hugmyndum sem voru lagðar fram í því frv. sem ég hef hér flutt þrjú þing í röð og ég fagna því að þær eru komnar það langt að vera nú hér í frv. fluttu af meiri hluta Alþingis. Þar ber fyrst að nefna að samkvæmt þessum frv. er stefnt að því að lengja fæðingarorlof úr þeim þremur mánuðum sem það er í dag í sex mánuði og það er nákvæmlega sú lenging fæðingarorlofs sem ég hef lagt til á hverju þingi fram til þessa. Þessi lenging er afskaplega mikilvæg og hana verður að telja lágmarkslengingu fæðingarorlofs. Eins og hæstv. ráðh. kom að í máli sínu hér áðan þá tryggir þessi lenging móður og barni, og föður einnig hafi hann hug á að taka fæðingarorlof, næði til þess að mynda traustan grundvöll undir samskipti foreldra og barns og jafnframt gerir það móðurinni kleift að ná sér eftir áreynslu barnsburðarins.

Annað atriði sem skiptir mjög miklu máli í sambandi við lengingu fæðingarorlofs í sex mánuði er að það gerir konum kleift, ef þær sjálfar vilja, að hafa börn sín á brjósti í sex mánuði. Það er konum ráðlagt nú af heilsufarsástæðum og þá sérstaklega með tilliti til heilsufars barnanna og það nær vitaskuld ekki nokkurri einustu átt að konur hafi aðeins ráðrúm til þriggja mánaða fæðingarorlofs á meðan læknar ráðleggja þeim að hafa börnin á brjósti í sex mánuði. Konur úti á vinnumarkaði geta ekki með góðu móti haft barn á brjósti og einnig unnið. Þetta er því önnur mikilvæg ástæða þess að sex mánuðir eru lágmarkstími fyrir fæðingarorlof. Og eins og ég hef áður margsagt og hæstv. ráðh. vék að í máli sínu hér áðan, þá er hér einnig um fyrirbyggjandi heilsugæslu að ræða því að móðurmjólkin inniheldur mörg ónæmisefni sem munu nýtast ungabörnunum síðar á ævinni og stuðla að sparnaði í heilsugæslu hér á landi þegar til lengri tíma er litið.

Ég ítreka það enn að ég tel sex mánaða fæðingarorlof algjört lágmark og tel að við ættum að stefna að því að lengja fæðingarorlof enn meir og þá í áföngum. Hins vegar er ég ekki sátt við það að nú sé verið að lengja fæðingarorlofið í áföngum, úr þremur mánuðum í sex mánuði. Þannig háttar til hér á landi að 80% kvenna og vel það eru úti á vinnumarkaðinum og enn þá hærra hlutfall kvenna á barneignaraldri er úti á vinnumarkaðinum, það er sennilega nærri 90%. Því er það augljóst að lenging fæðingarorlofs í sex mánuði er mál sem þolir enga bið og því hlýt ég að harma það að hæstv. ráðh. treystir sér ekki til að taka þetta skref í einu stökki, heldur leggur til að þessu sex mánaða marki verði náð á nærri þremur árum héðan frá talið. Ég tel að hér sé of hægt farið og ég vil jafnframt geta þess að á hverju þingi fram til þessa hef ég lagt fram fylgifrv. með því fæðingarorlofsfrv. sem ég hef flutt, fylgifrv. sem gerir ráð fyrir tekjuöflun til að standa straum af kostnaði vegna fæðingarorlofs þannig að það væri ríkinu ekki of stór þröskuldur að klífa að lengja fæðingarorlofið um þrjá mánuði í einu stökki. Þetta fylgifrv. felur í sér hækkun á prósentuhlutfalli framlags atvinnurekenda til lífeyristrygginga og er rökstutt með þeim hætti að ekki fer illa um atvinnureksturinn hér á landi nú, hann stendur með miklum blóma og hefur því svigrúm og bolmagn til að auka lítillega lífeyristryggingagreiðslur sínar og að það hljóti að teljast öllum atvinnurekstri til hagsbóta að fá heilbrigða einstaklinga til starfa.

Þetta frv. hefur ævinlega verið lagt fram með því fæðingarorlofsfrv. sem ég hef hér flutt og hefði það fengið náð fyrir augum meiri hlutans þá hefði verið kleift að lengja fæðingarorlof í einu stökki úr þremur mánuðum í sex mánuði. Það er ekki gert í þeim frv. sem nú liggja fyrir og það tel ég mjög slæmt.

Hitt meginatriðið í þeim frv. sem hér liggja fyrir eru þær greiðslur sem áætlað er að greiða foreldrum í fæðingarorlofi. Samkvæmt greiðslufrv. bera heimavinnandi konur áfram skertan hlut frá borði hvað varðar fæðingarorlofsgreiðslur. Samkvæmt frv. njóta þær einungis fæðingarstyrks, sem kallaður er - og mér finnst reyndar óskemmtilegt orð, hefði frekar viljað sjá orð eins og fæðingargreiðslur því að mér finnst eins og með þessu sé dálítið talað niður til kvenna sem ekki eru útivinnandi - þær njóta einungis fæðingarstyrks en ekki fæðingardagpeninga.

Samkvæmt því frv. sem ég hef hér áður flutt var lagt til að heimavinnandi konur nytu fullra viðmiðunargreiðslna sem eru nú um 32 000 kr. á mánuði og sú skerðing, sem hefur frá upphafi verið í gildi varðandi greiðslu fæðingarorlofs til heimavinnandi kvenna, yrði þar með afnumin. Það er ekki gert í þessu frv. Heimavinnandi konur fá samkvæmt því helmingi lægri greiðslu en konur í fullu starfi úti á vinnumarkaðinum. Mér þætti ákaflega fróðlegt að vita hvað þeir hv. þm. framsóknar, sem sæti eiga í þessari hv. deild, hafa um þetta að segja því ef ég man rétt þá hefur það verið eitt af stefnumálum Framsfl. að heimavinnandi konur sætu við sama borð og aðrar konur hvað varðar greiðslur í fæðingarorlofi. Og nú er hér fram komið stjfrv. sem kveður á um hið gagnstæða. Þær munu áfram bera skertan hlut frá borði.

Hvað útivinnandi konur varðar kveður þetta frv. á um að þær fái auk fæðingarstyrks einnig fæðingardagpeninga og séu þær í fullri vinnu þá nemi upphæðin rúmlega 33 000 kr. á mánuði sem er u.þ.b. 1000 kr. meira en þær fá nú miðað við núgildandi lög.

Ég hef haft þá skoðun í þessum málum, og hún hefur komið fram í þeim frv. sem ég hef hér flutt um þetta mál, að réttast væri að greiða konum óskert laun í fæðingarorlofi, þeim konum sem eru úti á vinnumarkaðnum. Það er vegna þess að konur eru fyrirvinnur engu síður en karlar. Við vitum það að hvert heimili nú til dags þarf tvær fyrirvinnur. Það var viðurkennt af hæstv. fjmrh. núna síðast hér í hv. deild í umræðu fyrir u.þ.b. 10 dögum síðan um frv. til skattalaga. Þar er gert ráð fyrir að hvert heimili þurfi tvær fyrirvinnur og m.a. þess vegna skiptir ákaflega miklu máli að útivinnandi kona haldi sínum launum óskertum í fæðingarorlofi, hún er fyrirvinna rétt eins og faðirinn.

Ég hef einnig bent á að rétt sé að setja ákveðið þak á greiðslur sem yrðu með þessum hætti vegna þess að ekki sé eðlilegt að Tryggingastofnun greiði út mjög há laun, en hef jafnframt bent á að hvað mæðurnar varðar er þetta ekki vandamál því staðreyndin er sú að útivinnandi konur á Íslandi hafa mjög svipuð laun. Launabil á milli útivinnandi kvenna er ekki stórt. Samkvæmt nýjustu upplýsingum sem við höfum um þessi mál, sem er að finna í skýrslu Byggðastofnunar um vinnumarkaðinn 1985, er launum kvenna þannig háttað að aðeins 5% kvenna á vinnumarkaði ná meðallaunum karla. Enda kom það fram þegar Tryggingastofnun ríkisins reiknaði þetta út fyrir mig í fyrra að það skipti stofnunina nánast engu máli hvort hún greiddi út fullar viðmiðunargreiðslur til kvenna í fæðingarorlofi eða hvort hún greiddi þeim full laun, niðurstöðutalan var sú sama, upphæðin var sú sama.

Einnig er þess að geta að með því að konur haldi fullum launum þegar þær taka fæðingarorlof þá metum við þau störf sem felast í því að annast um lítið barn jafnmikils og hvert annað starf sem móðir hefur með höndum úti á vinnumarkaðnum. Ég tel mjög mikilvægt að viðurkennt sé af hendi löggjafans að það að annast um nýfætt barn sé engu ómerkilegra en hvert annað starf, í krónum talið. Með því að skerða laun kvenna með þeim hætti sem þessi frv. gera ráð fyrir, þ.e. þær halda ekki fullum launum í fæðingarorlofi, má segja að verið sé að refsa konum launalega fyrir að eiga börn. Þær lækka í launum við það að fara heim og sinna þessum litlu börnum. Það get ég ekki samþykkt. Jafnframt er rétt að benda á, eins og fram kemur í grg. og lagatexta þessara frv., að sumar konur halda óskertum launum í fæðingarorlofi samkvæmt þeim kjarasamningum sem þær búa við. Þar er að nefna konur, og feður einnig, sem eru opinberir starfsmenn og konur í Félagi bankamanna. Þarna er því ósamkvæmni á ferðinni. Sumar konur halda fullum launum, aðrar konur gera það ekki og það fer eftir því hvar þær eru á vinnumarkaðinum samkvæmt þessum frv. hvorn hópinn þær skipa.

Það er afar nauðsynlegt að samræma þetta og að hið sama gildi um allar útivinnandi konur að þessu leytinu til. En það er ekki gert í þessu frv. Það eru ASÍ-konurnar, konur sem ekki teljast til opinberra starfsmanna eða bankamanna heldur eru innan Alþýðusambands Íslands, það eru þær konur sem ekki halda óskertum launum í fæðingarorlofi. Og þetta eru sömu konurnar sem lægst hafa launin hér á landi. Hvað varðar greiðslurnar sjálfar gæti dæmið litið þannig út að kona, sem er opinber starfsmaður og hefur 45 000 kr. í laun á mánuði og fer í fæðingarorlof, henni eru greiddar 45 000 kr. á mánuði í fæðingarorlofsgreiðslur. Kona, sem er í fullri vinnu úti á hinum almenna vinnumarkaði og fer í fæðingarorlof, hún fær 33 000 kr. á mánuði í fæðingarorlofsgreiðslur. Kona, sem er í hálfri vinnu úti á hinum almenna vinnumarkaði, hún fær 24 000 kr. á mánuði. Og kona, sem er heimavinnandi, hún fær minnst af öllum, hún fær aðeins 15 000 kr. á mánuði samkvæmt þessu frv. Hér tel ég vera um fullkomlega ófullnægjandi aðferð að ræða við að ákveða upphæð greiðslna í fæðingarorlofi og sú mismunun sem hér á sér stað er með öllu óviðunandi.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að ræða mjög ítarlega einstakar greinar þessara frv. Það er margt sem er til bóta hvað varðar réttindi í réttindafrv., til að mynda vil ég þar nefna 6. gr. þar sem kveðið er á um að skylt sé að færa barnshafandi konu til í starfi, ef heilsu hennar eða fósturs er hætta búin, án þess að launakjör hennar skerðist á meðgöngutíma. Eins er hér ákvæði í 7. gr. um að atvinnurekandi, sem brýtur á ákvæðum þessarar greinar með því að segja upp barnshafandi konu, sé bótaskyldur. Það er einnig til mikilla bóta. Jafnframt er hér sama hugsun og er í því frv. sem ég hef hér ítrekað flutt, að foreldrar ráði því sjálfir hvernig þeir skipta fæðingarorlofinu og geti þá jafnvel báðir tekið fæðingarorlof í einu og verið báðir heima þennan tíma. Þessu er ég mjög samþykk. Hins vegar finnst mér heldur naumt skammtaður tími hvað varðar foreldra sem ættleiða barn og eins hvað varðar móður sem fæðir andvana barn. Af foreldrum sem ættleiða barn er klipinn einn mánuður. Þeirra fæðingarorlof getur lengst orðið fimm mánuðir þegar þessi frv. eru komin til fullra framkvæmda í staðinn fyrir sex hjá öðrum. Ég sé engin rök fyrir því að klípa hér af einn mánuð. Hvað varðar móður sem fæðir andvana barn þá er aðeins gert ráð fyrir að hún njóti tveggja mánaða fæðingarorlofs en ég tel að hún þurfi skilyrðislaust þrjá mánuði til að ná sér eftir þá áreynslu sem barnsburðurinn er, svo ekki sé minnst á þá andlegu áreynslu að missa barn sitt í fæðingu. Hún þarf minnst þrjá mánuði að mínu viti og sjálfsagt er það þó varla nóg.

Ég á ekki sæti í hv. heilbr.- og trn. sem fær þetta mál til meðferðar. En ég óska eftir því að fá áheyrnaraðild að nefndinni þá er hún fjallar um þetta mál og vil því spara mér að fjalla nánar um einstök ákvæði þessara frv. nú. Megingallar frv. eru, eins og ég hef hér fjallað um, að verið er að gera einfalt mál óþarflega flókið í fyrsta lagi. Í öðru lagi tekur lengingin í sex mánuði allt of langan tíma. Við hefðum getað náð þessu í einu stökki hefði verið að staðið eins og ég hef hér á þremur umliðnum þingum lagt til. Og í þriðja lagi, og það er ekki sísta atriðið, finnst mér konum mismunað hrapallega í greiðslum skv. þessu frv. Reyndar hefur það gengið eins og rauður þráður í gegnum þær umræður, sem hafa orðið í þessari hv. deild um skipan fæðingarorlofsmála á þremur síðustu þingum, að nauðsynlegt sé að réttur kvenna sé sem jafnastur hvað varðar fæðingarorlofsgreiðslur. Það þurfa að hafa orðið mikil sinnaskipti hér í hv. deild ef þingdeildarmenn ætla að samþykkja þá greiðslutilhögun sem hér er lögð til, því að hér er um gríðarlega mismunun og misræmi í greiðslum að ræða.

Að lokum tel ég að þessi frv. séu áfangasigur í þessum mikilvægu málum, en þau eru hvergi nærri fullnægjandi sem endanleg lausn í málum þessum.