04.03.1987
Efri deild: 48. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3717 í B-deild Alþingistíðinda. (3325)

391. mál, fæðingarorlof

Helgi Seljan:

Virðulegur forseti. Ég fæ þetta mál í nefnd og mun skoða bæði þessi frv. þar og átta mig betur á raunverulegri útkomu þeirra. Ég held að ég vilji nú skilja hæstv. ráðh. svo, þegar hann flutti framsögu fyrir þessum málum báðum, að afgreiðsla þeirra núna væri ekki einungis gagnleg heldur í raun og veru nauðsynleg og ég fyrir mitt leyti mun stuðla að því að svo verði. Ég ætla a.m.k. að vona að það sé ætlun, ekki bara ráðherrans heldur stjórnarflokkanna hér, að láta þetta verða að virkileika þó að það verði náttúrlega ekki fyrr en um næstu áramót sem þetta byrjar að taka gildi, þannig að þetta er auðvitað ávísun yfir á framtíðina eins og margt fleira sem við sjáum nú þessa dagana.

Það ber vissulega að fagna þessu frv. og þessari frumvarpsgerð þó að síðla sé á ferð og ýmislegt mætti þar um segja, einkum sakir þess hversu mál þetta, fæðingarorlofið, hefur oft og rækilega verið hér til umfjöllunar. Í þeim umræðum, þ.e. um það frv. sem hv. 11. þm. Reykv. gat um áðan og hún hefur flutt hér þrívegis, þá hef ég látið það í ljós sem mína skoðun að í fáu væri um að ræða meira réttlætismál á félagslega sviðinu, á uppeldissviði, á jafnréttissviði, með umhyggjuna fyrir hinum unga þegni í fyrirrúmi, en einmitt lenging fæðingarorlofsins.

Ég hef hiklaust látið það í ljós að svo brýnt sem það væri að koma þessu máli sem lengst og sem fyrst þá væri það dagljóst að hér yrði um áfanga að ræða. Það yrði um áfanga að ræða eins og verið hefur, ákveðin skref að góðu réttlætismarki sem við getum síðar rætt hversu best skuli háttað og hverja tímalengd eigi að setja á oddinn ef við lítum til lengri framtíðar. Þar get ég tekið undir með hv. síðasta ræðumanni að vitanlega er hér ekki um neina endanlega gerð að ræða. Við skulum ekki ætla samfélagi okkar aðra þróun en þá að hér sé einnig um áfanga að ræða eins og áður hefur verið.

Ég neita því ekki hins vegar að ég hefði viljað sjá á þessu árabili tekin ákveðin skref að þessu marki í stað þeirra fyrirheita sem nú á að lögfesta og ég tel að eigi að lögfesta. Ég tel að það beri að skilja mál hæstv. ráðh. svo að við eigum að vinna að lögfestingu þessa núna í heilbr.- og trn. þó að til þess sé mjög skammur tími og erfitt að átta sig á því svo skömmu fyrir þinglok og svo skömmu fyrir kosningar, jafnvel svo að viss ónotagrunur læðist nú að manni í tengslum við það. Það skal þó fram tekið, til að fyrirbyggja misskilning sögunnar vegna, að hæstv. ráðh. tryggingamála á að baki, eins og reyndar var komið hér inn á áðan í hans máli, þá sem þm., verulega úrlausn einmitt í þessu máli og skal því ekki út af fyrir sig vera að draga úr því að um virkilegan áhuga hafi verið að ræða hjá hæstv. ráðh. að koma þessu máli fyrr og betur frá sér, en við vitum að hér eru ýmis mál sem kallað er á. Hér segir einnig fjármagnið til sín og svo ákveðinn vilji í því á hvað menn vilja leggja áherslu.

Þar hlýtur maður auðvitað að víkja að því að þetta mál ber að skoða í því ljósi, svona seint fram komið eins og það er, að þessi hæstv. ríkisstjórn fær tæpast þau eftirmæli að hún hafi verið ríkisstjórn félagslegra átaka eða félagslegra réttlætismála, enda samrýmist slíkt illa hinni óheftu markaðshyggju sem æ meira hefur sótt á og ég held að enginn hafi lýst betur í framkvæmd og því hvernig hún gæti komið út en einmitt Sigurlaug Bjarnadóttir, fyrrv. hv. þm. og flokkssystir trúlega enn þá hæstv. ráðh., og gott ef ekki meðflm. hennar á sínum tíma að frv. um fæðingarorlof ef ég man rétt.

Hér er farið inn á nýjar brautir í framkvæmd fæðingarorlofs og greiðslna í þessum greinum. Ég held að það þurfi allt vandlega skoðun. Ég hef ekki áttað mig á þessu enn þá. Mér þykir ýmislegt vera það flókið að það þurfi vandlega athugun. Ég heyri það t.d. þegar þeir tveir ræðumenn, sem hér hafa talað, eru að túlka ákvæði þessara laga, þá fer það nokkuð á misvíxl svo að ekki skýrist málið fyrir mér beinlínis í því efni, einmitt vegna þess að hér er farin nokkuð flókin leið að þessu marki og túlkun nokkuð á annan veg í máli hæstv. ráðh. t.d. en í máli hv. 11. þm. Reykv. hér áðan - í sumum greinum og það býsna veigamiklum greinum sem við höfum oft rætt hér áður.

Mér hugnast við fyrstu yfirsýn sumt vel, við annað set ég spurningarmerki a.m.k. á þessu stigi, en ég get ekki annað en sett spurningarmerki við það, því að í nefndinni mun ég reyna eftir megni að fara ofan í saumana á því sem mér þykir mest orka tvímælis. Eins og kom fram í máli hv. 11. þm. Reykv. hafa verið skiptar skoðanir um greiðsluupphæðir eða reglur um þær, spurning um jafnar upphæðir varðandi fæðingarorlof eða mismunandi eftir launum viðkomandi og þá auðvitað mismunun eftir því, eins og hún kom réttilega inn á, í hvaða stéttarfélagi viðkomandi væri og hvort samningar lægju að baki sem tryggðu viðkomandi foreldri aukinn rétt eða ekki, tryggðu full laun sem slík.

Mér sýndist í fljótu bragði vera farið hér nokkuð bil beggja, en allerfitt að átta sig á þessu öllu, og í máli hv. 11. þm. Reykv. skildi ég það svo að hér væri í raun og veru gengið skemmra en mér hafði sýnst í upphafi varðandi þetta atriði. Ég leyni því ekki að ég hef talið að sem jafnastar fæðingarorlofsgreiðslur, ef við megum orða það svo, væru eðlilegastar með tilvísun í tryggingakerfi okkar, en ég viðurkenni hins vegar það sjónarmið, sem hv. 11. þm. Reykv. hefur oft komið með sem gagnrök gegn minni skoðun, að sem orlof þá sé auðvitað einnig spurning um laun viðkomandi ef ekki er um nein samningsákvæði þar um að ræða.

Með þessari tvískiptingu hefði í raun og veru átt að vera girt fyrir þetta, þá hefði átt að vera unnt að girða fyrir þetta að verulegu leyti, en það sýnist mér sem sagt ekki vera nægilega gert ef menn vilja þá fara þá leið að viðkomandi missi einskis í launum. Í grg. með frv. og í máli hæstv. ráðh. sýnist mér náttúrlega líka að því sé vísað á framtíðina og í raun og veru sé reiknað með því, það er auðvitað mikill óvissuþáttur, að inn í samninga á almennum launamarkaði komi ákvæði af því tagi sem tryggi það að viðkomandi foreldri á almennum vinnumarkaði missi einskis í launum, þannig að það verði ekki áframhald á þessu, það verði ekki bara opinberir starfsmenn og bankamenn sem njóti þessara samningsákvæða, heldur einnig t.d. ASÍ-fólkið, sem er að vinna sér inn réttindi núna í ýmsum greinum á sama máta og hefur viðgengist lengi hjá opinberum starfsmönnum.

Þetta skýrist allt í nefnd og verður ljósara. Ég mun stuðla að því að málið fái afgreiðslu í nefndinni því að við annað er í raun og veru ekki unandi, allra síst af hálfu okkar stjórnarandstæðinga sem höfum lagt á það áherslu að einhver úrlausn fengist í þessu máli. Það kann hins vegar að vera býsna erfitt að koma þessu í gegnum báðar deildir á svo skömmum tíma með þau mismunandi sjónarmið sem hér eru og munu örugglega birtast ef við förum t.d. að kalla til aðila eða ég tala nú ekki um að fá umsagnir ákveðinna aðila varðandi þessi frv. bæði. Þá efast ég ekki um að það koma svo mörg álitaefni þar upp að við verðum í býsna miklum vandræðum. En við skulum reyna okkar besta. Það er okkur skylt, hreinlega vegna þess að hér er þó verið að fara ákveðna áfangaleið.

Ég verð svo aðeins segja það tvennt í lokin - og ætla ég ekki að fara að gera hosur mínar neitt grænar fyrir hv. 11. þm. Reykv. í því efni sérstaklega - að fyrst hæstv. ráðh. fór nú hér inn í þingsali til að sækja nefndarmenn í þessa nefnd til að undirbúa þessi lagafrv., þá hefði mér nú ekki fundist saka að hún hefði sótt hv. 11. þm. Reykv., sem hefur svo oft flutt þetta mál hér inn í deildina, í þessa umræddu nefnd, úr því að hæstv. ráðh. fór líka yfir í stjórnarandstöðuliðið eins og ljóst er í þessu efni. Ætla ég ekki að gera lítið úr hlut þess stjórnarandstöðuþingmanns sem að þessu hefur unnið, síður en svo, en mér hefði þótt það að mörgu leyti eðlilegra. En það er vitanlega spurning um vilja og smekk og kannske eitthvað fleira, en ég vona ekki.

Og svona af því að það er alveg að koma kvöldmatur, þá má kannske slá á léttari strengi líka. Mér þykir nú sem ráðherrar hæstv. vilji í lokin sem sagt halda nokkra hátíð með kjörorðinu „Góða veislu gjöra skal“. Þar hefur hæstv. samgrh. verið veislustjóri til þessa, við höfum séð það, og flutt gjafir góðar yfir í framtíðina. Nú slæst hæstv. heilbrmrh. í hópinn og það verð ég að segja að veisluréttur hennar er um allt girnilegastur með þó ákveðinni lögfestingu, að vísu einnig fram í framtíðina, á slíku brýnu réttlætismáli sem hér er á ferð.

Ég vona sem sagt að þetta verði forrétturinn hjá hæstv. ríkisstjórn, með ákveðnum forgangi þá, því af sumum réttum hæstv. ráðherra leggur aðeins reykinn og mun svo verða fram yfir kosningar en það er svo önnur saga.