04.03.1987
Neðri deild: 51. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3729 í B-deild Alþingistíðinda. (3341)

273. mál, uppboðsmarkaður fyrir sjávarafla

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Ég vil fyrir hönd Kvennalistans lýsa stuðningi við meginefni þessa frv., en mig langar hins vegar til að vekja máls á nokkrum atriðum sem ég held að séu þess virði að gaumgæfa.

Við álítum þetta vera tilraun sem sé sannarlega þess virði að gera hana, en hins vegar höfum við nokkrar áhyggjur af þeirri byggðaröskun sem kynni að fylgja í kjölfar slíks fiskmarkaðar eða uppboðsmarkaðar.

Ég bendi á að kostnaður fyrir þá sem búa nálægt slíkum markaði er mun minni en þeirra sem búa fjær honum. Þetta gæti leitt til mikillar keyrslu á fiski. Að vísu eru þegar í gangi einhverjir samningar á milli frystihúsa eins og hæstv. sjútvrh. vitnaði til.

Mig langar, herra forseti, að vitna í nýlega grein um fiskmarkaði í tímaritinu Sjávarfréttum þar sem einmitt er rætt um byggðaröskunina, en ég vil jafnframt benda á að sú tilhneiging getur orðið að sjómenn flytjist þangað sem landað er. Oft er það þannig að konur sjómanna stunda fiskverkun. Ef þær flytjast með mönnum sínum og fjölskyldurnar hreinlega flytjast þangað sem landað er munu frystihúsin leggjast niður og þau munu líka þjappast í kringum það svæði þar sem fiskmarkaður verður.

Í umræðum um fiskmarkað á Suðvesturlandi segir í tímaritinu Sjávarfréttum: „Ganga menn gjarnan út frá því að hærra verð fáist á markaðnum en nú er greitt. Hvaða áhrif hefur það á verðmyndun á ferskum fiski á landinu öllu? Getur slíkur markaður, þótt lítill sé, nánast tekið yfir ákvarðanir verðlagsráðs?"

Síðar í þessu sama tímariti er minnst á að framkvæmdastjórar frystihúsa telja að það gæti orðið mjög erfitt að flytja fisk um langa vegalengd til þess eins að fá á hann verð og keyra hann síðan heim aftur. Það hafi áhrif á gæði fisksins. Síðan eru beinar athugasemdir hvað varðar byggðaröskun sem er reyndar það atriði sem við höfum mestar áhyggjur af. Vitna ég enn:

„Flestir viðmælendur Sjávarfrétta voru fylgjandi því að gerð yrði tilraun með fiskmarkað þótt menn væru mismunandi vongóðir um árangurinn. Þannig taldi Árni Benediktsson rétt að prófa þetta þótt hann teldi ýmis vandamál því samfara. Kristján Ragnarsson kvað sjálfsagt að reyna, en menn yrðu að vera tilbúnir að gera upp kostina og gallana áður en framhaldið yrði ákveðið. „Ég vona mjög einlæglega að þetta raski ekki búsetu í landinu. Ef svo yrði teldi ég fiskmarkað af hinu verra. Svo mikið á landsbyggðin í vök að verjast gagnvart Reykjavík og nágrenni.“"

Vitnað hefur verið til tilvonandi stofnunar fjarskiptamarkaðar og uppboðsmarkaðar á Akureyri í nýlegri grein í Morgunblaðinu og ég vildi beina þeirri fsp. til hæstv. ráðh. hvort hann í fyrsta lagi hefði hugleitt vandamálið í sambandi við byggðaröskunina og í öðru lagi hvort hann hefði velt fyrir sér þessari hugmynd með fjarskiptamarkað sem hér er vitnað til. Ég vitna, með leyfi forseta:

„Gunnar Arason, formaður hafnarstjórnar á Akureyri og formaður fiskmarkaðsnefndar, og Guðmundur Sigurbjörnsson hafnarstjóri kynntu skýrslu nefndarinnar í gær, en um er að ræða nefnd sem gerir tillögur um fiskmarkað á Akureyri. Kom fram í máli þeirra að þegar hugur aðila við Eyjafjörð var kannaður var enginn áhugi fyrir fiskmarkaði eins og settur verður upp á suðvesturhorninu, þ.e. með því fyrirkomulagi að fiskinum verði öllum komið á einn stað og seldur þar. Þeir sögðu menn hræðast byggðaröskun yrði fiskur fluttur frá ýmsum stöðum á svæðinu á slíkan markað.

Þá væru einnig meiri tengsl milli veiða og vinnslu hér á svæðinu og hefði það sitt að segja. Starfsmaður nefndarinnar var Karl M. Kristjánsson viðskiptafræðingur og vann hann frumskýrslu.

Er framangreind viðbrögð aðila við Eyjafjörð voru ljós kviknaði hugmynd um fjarskiptamarkaðinn og hlaut hún góðan hljómgrunn. Lagt er til að umrætt hlutafélag verði í eigu kaupenda og seljenda og að hluta til í eigu Akureyrarbæjar sem gæti átt allt að 30-40% í félaginu til að byrja með en gæti síðan selt ef aðrir aðilar lýstu áhuga á að eignast hlut. „Fjarskiptamarkaður, er svo er kallaður, verður þannig upp byggður að nútímatækni varðandi fjarskipti verður nýtt“, eins og Gunnar orðaði það. Skip þyrftu því ekki að koma í land áður en boðið yrði í fiskinn heldur yrði það gert í gegnum nefnt hlutafélag og löndun færi síðan fram hjá kaupanda. Þarna yrði að sjálfsögðu farið eftir því hvernig skipið hefði staðið sig með afla og hreinlæti áður þannig að skipið hefði ákveðinn feril eða ákveðna sögu hvað varðar meðferð aflans sem hægt væri að fara eftir og ef það ekki stæðist væri hægt að vísa aflanum til baka.“

Mig langar til að beina þessum fsp. til hæstv. ráðh., en að öðru leyti ítreka ég að Kvennalistinn styður meginefni frv. og telur þetta tilraun sem sé sannarlega þess virði að gera, en þó með gætni.