04.03.1987
Neðri deild: 51. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3731 í B-deild Alþingistíðinda. (3342)

273. mál, uppboðsmarkaður fyrir sjávarafla

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Það frv. sem hér er til umræðu skiptir marga máli og getur haft veruleg áhrif þó að það sé vissulega til bóta að hér er um tímabundna ákvörðun að ræða, gert ráð fyrir að þingið endurskoði þá lagasetningu sem hér er gerð tillaga um fyrir lok árs 1989.

Ég vil alveg sérstaklega taka undir aðvaranir sem fram hafa komið í sambandi við þetta mál varðandi hagsmuni minni byggðarlaga og þau áhrif sem þetta kann að hafa fyrir dreifingu afla til einstakra verstöðva og vinnslufyrirtækja. Mér finnst að það liggi alls ekki nægilega fyrir eða ekki eins og skyldi í undirbúningi þessa máls mat á því hvaða áhrif þetta kynni að hafa ef þær vonir rættust sem forgöngumenn þessa máls binda hug sinn við og telja að séu í sjónmáli. Ég geri mér alveg ljóst að það eru ákveðin atriði sem ýta á um þetta efni, m.a. vaxandi útflutningur á óunnum fiski og sú verðþróun sem honum fylgir og hefur verið hagstæð fyrir sjómenn og ég ætla sannarlega ekki að gera litið úr þeirra hlut í sambandi við verðlagninguna og þörfina á að útgerðaraðilar og sjómenn fái eðlilegt verð fyrir sína vöru, fyrir sinn afla. En það eru fleiri hagsmunir sem þarf að líta til í þessu samhengi sem snerta auðvitað þessa sömu aðila einnig eins og alla landsmenn og fólk í ákveðnum byggðarlögum þar sem aðstæður eru engan veginn þannig að þær bjóði upp á nýbreytni af þessu tagi. A.m.k. sér maður það ekki eins og stendur, enda fyrst og fremst gert ráð fyrir því að þetta gæti gerst og haft þau áhrif sem forgöngumenn telja jákvæð á suðvesturhorninu og kannske í einstaka stærri byggðarlögum úti um landið. Hins vegar er mér ekki ljóst hvaða líkur eru á því að þarna skapist markaður um svo mikið magn að það gæti orðið í rauninni nokkuð leiðandi eða haft veruleg áhrif á fiskverðlagningu almennt. Mér er til efs, og reyndar hefur maður heyrt yfirlýsingar þar að lútandi frá stórum aðilum sem eru í senn með útgerð og fiskvinnslu, að þeir hugsi sér að ráðstafa nema þá mjög litlu broti af þeim afla sem þeir hafa umráð yfir til slíks markaðar og nægir að minna á yfirlýsingar sem heyrst hafa frá forráðamönnum Granda hf. í Reykjavík. Það er því kannske ekki ástæða til að ætla að þetta hafi mikil áhrif á þessum 2-3 árum sem gert er ráð fyrir að lögin séu í gildi óendurskoðuð nema eitthvað sérstakt komi til.

Ég heyrði frá hæstv. ráðh. aðvörunarorð í sambandi við þessi efni og ég deili þeim áhyggjum með honum sem fram komu í hans máli. Mér finnst í rauninni að hann hefði kannske átt að lýsa betur inn í þetta mál með aðild margra sem hafa lítið að því komið og að það yrði skoðað betur áður en farið væri að setja þessa löggjöf hér í þinginu. Mér finnst menn hafa farið óþarflega greitt fram með það ef það er ætlunin, eins og sýnist vera, að afgreiða þetta mál hér nú og setja þessar heimildir í lög.

Þetta frv. er því marki brennt eins og margt sem varðar sjávarútveginn að það er gert ráð fyrir leyfisveitingum af hálfu sjútvrn., það sé sjútvrh. sem veitir leyfi til reksturs uppboðsmarkaðar fyrir sjávarafla. Það er í mínum huga ofureðlilegt að það sé reynt að hafa takmarkanir og meta málin í sambandi við þetta, en hitt er einnig áhyggjuefni hvernig staðið er að lagasetningu hér í sambandi við flest atriði sem snerta okkar sjávarútveg. Þar eru völdin afskaplega mikið á einni hendi, eins og hér er einnig í sambandi við þessa leyfisveitingu, og mér hefur aldrei hugnast vel að það væri ráðandi stefna að þjappa valdi í þessum aðalatvinnuvegi okkar svo mjög saman eins og þarna gerist.

Hitt er annað mál að það kann að vera erfitt að fá virkt kerfi hagsmunaaðila til að taka á þessum málum í von um að samkomulag takist milli þeirra og það er kannske það sem menn bera við þegar verið er að réttlæta þá miklu valdasamsöfnun í ráðuneyti sem gerist í sambandi við stjórnun fiskveiða og þetta frv. endurspeglar einnig á sinn hátt. Ég er ekki að ætla hæstv. ráðh. að hann vilji í rauninni skara eld að sinni köku hvað eigin völd snertir. Það er ég ekki að segja. En hitt er þó ljóst að tilhneigingin er í þessa átt og kannske ekkert óeðlilegt af framkvæmdarvaldsins hálfu og mér finnst eiginlega skylt að menn leiti annarra leiða þó að ég sé ekki með beinar tillögur þar að lútandi.

Það eru sem sagt sérstaklega hagsmunir landsbyggðarinnar og hinna minni staða sem mér finnst geta verið í húfi í sambandi við þá þróun sem þetta gæti hleypt af stað frá því kerfi sem við höfum búið við og er ég þó engan veginn að segja að það sé hið eina rétta og þurfi ekki endurskoðunar við. Ég held að það sé alveg ljóst að þar gengur margt úrskeiðis í sambandi við sjávarútveg okkar og þá þróun í rauninni frá því markmiði, sem menn almennt hafa tekið undir, að reyna að tengja saman veiðar og vinnslu. Þróunin gengur í rauninni gegn þessu markmiði hin síðari ár og það er áhyggjuefni í mörgum greinum.

Það eru ýmsar blikur á lofti í sambandi við okkar fiskvinnslu í landinu sem full ástæða er til að ræða á hv. Alþingi. Það er náttúrlega útflutningurinn á óunnum afla í mjög auknum mæli hin síðari ár. Það er útgerð fiskitogara sem hömlur hafa verið settar á í sambandi við fjárfestingar nýverið vissulega, en það sem ég vildi alveg sérstaklega koma að, og ég vænti að hæstv. ráðh. hlýði á það, er fregn sem lesa má á forsíðu Alþýðublaðsins í gær, aðalfyrirsögn á forsíðu Alþýðublaðsins í gær. Það er ekki oft sem maður vitnar til þess málgagns, en það er í það skrifað og það kemur út daglega svipað og önnur dagblöð þó að síðurnar séu færri og það er sjálfsagt að gefa því gaum sem þar er á ferðinni, ekki síst vegna þess að þar tala menn sem hafa talið sig hafa byr í íslenskri pólitík upp á síðkastið og ætla sér mikinn hlut ef trúa má þeirra yfirlýsingum. Og hvað segir talsmaður Alþfl. á forsíðu Alþýðublaðsins í gær, einn af þm. Alþfl., hv. þm. Karl Steinar Guðnason, sem því miður á ekki sæti í þessari hv. deild þannig að hægt sé að hafa orðastað við hann um það efni sem hann boðar sem fagnaðarerindi í Alþýðublaðið í gær? Hann segir þar, með leyfi forseta. Það er orðrétt viðtal við þm.:

„Við fögnum öllu nýju framtaki í atvinnumálum á Suðurnesjum.“ - Yfirskriftin á þessu er: Erlent fjármagn í fiskvinnsluna. „Með þessu móti hefur fengist fjármagn til þess að koma þessum fyrirtækjum á flot og þeim stýra framsæknir og duglegir menn sem eiga eftir að láta frekar að sér kveða í atvinnumálum á Suðurnesjum“, sagði Karl Steinar Guðnason, alþm. og formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur, í samtali við Alþýðublaðið í gær.“

Og áfram heldur blaðið: „Erlendir aðilar hafa nýverið keypt sig inn í tvö fyrirtæki á Suðurnesjum, ICE-Scott í Garði og Íslenskan gæðafisk hf. í Njarðvíkum. Þessi tvö fyrirtæki hafa undanfarið auglýst í fjölmiðlum og boðið allt að 30-50% hærra verð fyrir fisk en boðið er samkvæmt fiskverði verðlagsráðs.

Fyrirtækin tvö eru bæði í veiðum og ísfisksútflutningi. „Þau bjóða gott verð og það skapar atvinnu og fjármagn í byggðarlögunum. - Við frábiðjum okkur allan gamaldags hugsunarhátt og einangrun“, segir þm. „Það er því engin ástæða til annars en horfa björtum augum til framtíðarinnar því þessi fyrirtæki vita nákvæmlega hvað þau eru að gera.“

Ég vona að menn taki eftir því sem hér er á ferðinni. Talsmaður Alþfl., þm. þess flokks, er að boða þá stefnu sem fagnaðarerindi að fá erlenda aðila inn í sjávarútveginn á Íslandi, í þessu tilviki inn í fyrirtæki sem í senn stunda vinnslu og útflutning á fiski. Ég hélt satt að segja að það væri ekki von á yfirlýsingum af þessu tagi frá Alþfl. og mönnum sem vilja láta taka sig gilda innan þess flokks. Mér þætti fróðlegt að heyra hvaða viðhorf aðrir þm. Alþfl. hafa til þessa máls. Er það mótuð flokksstefna sem hér er á ferðinni hjá þessum þm.? Er hv. 3. þm. Vestf. sammála þeirri stefnu, sem þarna er verið að marka og boða sem sérstakt fagnaðarerindi, að opna hér fyrir erlenda aðila í sem mestum mæli, ef marka má tóninn í þessum yfirlýsingum, í sjávarútvegi okkar? Til hvers vorum við að færa út landhelgi og ná yfirráðum yfir okkar auðlind, undirstöðum sjávarútvegsins á Íslandi, ef við ætlum að opna síðan bakdyramegin með sama hætti og viðleitni hefur verið til í sambandi við iðnaðinn alveg sérstaklega af hálfu Sjálfstfl., sem boðað hefur erlenda stóriðju sem úrlausn mála í atvinnulífi en er nú strand sem allir þekkja í sambandi við að láta þá stefnu ganga upp, eftir að búið er að leggja í það mikið erfiði og mikla fjármuni á heilu kjörtímabili að plægja upp akurinn fyrir erlendu stóriðjustefnuna? En hin raunverulega stóriðja Íslendinga er og hefur verið í sjávarútveginum, sá atvinnurekstur sem skilað hefur okkur stórum arði og skiptir sköpum í arðsköpun í landinu. Nú er það orðið stefnumál hjá forustumönnum í Alþfl. að opna þessa atvinnugrein, aðalatvinnugrein landsins, sem skilar hagnaði og er undirstaða okkar þjóðarbús og hlýtur að vera það sem er eftirsóknarvert fyrir útlendinga öðru fremur að komast inn í og brjótast inn í hérlendis.

Ég hélt að það væru lög í landi að útlendingar mættu t.d. ekki eignast krónu í fiskiskipum hérlendis. Ég hélt að það væru lög frá 1923. Ég skal ekki segja hvaða hömlur eru á því að komast inn í vinnsluna eða fyrirtæki af því tagi sem hér er til umræðu. Ég spyr hæstv. sjútvrh. að því: Hvert er hans viðhorf til þess sem þarna er að gerast? Hvaða reglur þekkir hann um þetta efni sem þarna er farið eftir? Undir hvaða merki er þarna gengið í sambandi við þetta? Getur þetta gengið upp samkvæmt almennum reglum og lögum í landinu? Ég hef ekki kafað ofan í það mál. En mér er jafnljóst hvað sem líður lögum og reglum að hér er að skapast hættuástand með því fordæmi sem hér er flaggað til að greiða götu erlendra aðila inn í fiskvinnslu og fiskútflutning frá Íslandi, með því að kaupa sig inn í fyrirtæki frá Íslandi sem hanga á horriminni, m.a. vegna þess hvernig haldið hefur verið á málum í sjávarútvegi um alllangan tíma, sem á sinn þátt í þessari stöðu. Ég er ekki þar með að taka það efni hér sérstaklega upp. Það væri allt of stórt mál. En hér er afmarkað efni sem mér finnst alveg nauðsynlegt að fá upplýsingar um og heyra viðhorf um hér á Alþingi og vænti að fleiri þm. láti sig þetta varða hér í deild varðandi yfirlýsingar sem komið hafa frá þm. sem sæti á í Ed. og því miður ekki hægt að eiga beinan orðastað við hér í umræðum um þetta.

En, herra forseti, varðandi uppboðsmarkaðinn hvet ég eindregið til varfærni og ég hvet þá nefnd sem um þetta mál fjallar til að reyna að nota þann skamma tíma sem til stefnu er, ef á að lögfesta þetta mál, til að líta betur inn í samhengið, áhrif á litla útgerðarstaði út um landið þar sem uppboðsmarkaður fyrir sjávarafla kemur vart til greina og enginn áhugi er á ferðinni þar að lútandi. Hér getum við verið að setja af stað þróun sem haft gæti víðtæk og hugsanlega neikvæð áhrif í sambandi við þróun einstakra byggða sem síst mega við því að standa hallari fæti en þær gera nú.