04.03.1987
Neðri deild: 51. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3736 í B-deild Alþingistíðinda. (3344)

273. mál, uppboðsmarkaður fyrir sjávarafla

Guðmundur H. Garðarsson:

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til l. um uppboðsmarkað fyrir sjávarafla. Ég vil þegar í upphafi minnar ræðu lýsa því yfir að Sjálfstfl. styður að sú tilraun verði gerð á grundvelli þessa frv. Rétt er þó að taka fram, eins og komið hefur fram hjá öðrum ræðumönnum, og undirstrika að hér er fyrst og fremst um tilraun að ræða því að það er mjög erfitt að segja fyrir um á þessu stigi hvort eða hvernig eigi að fara í uppboðsmarkað á Íslandi þar sem aðstæður eru allt öðruvísi en í þeim löndum sem menn hafa sínar fyrirmyndir einkum frá.

Ég vek einnig athygli á því að flestir helstu forustumenn samtaka sjávarútvegsins hafa undirritað það að þessi tilraun verði gerð. Vek m.a. athygli á nefndaráliti sem forseti Sjómannasambands Íslands, Óskar Vigfússon, Ágúst Einarsson útgerðarmaður, Gísli Jón Hermannsson og fleiri undirrita.

En það sem kom mér m.a. til að fara upp í ræðustólinn var einmitt það atriði sem hv. 5. þm. Austurl. kom inn á vegna þess að það atriði sem hann vakti athygli á í umræðunni er þess eðlis að nauðsynlegt er að gera sér grein fyrir því einmitt þegar verið er að stofna til uppboðsmarkaðs hér á suðvestursvæðinu og taka af öll tvímæli, eins og hæstv. ráðh. gerði að vísu rétt áðan í ræðu, um að ekki er ætlast til þess að erlendir aðilar komi inn í þessa framkvæmd bakdyramegin eða með öðrum hætti. Það gæti gereyðilagt þessa tilraun ef svo slysalega tækist til að einhverjir „strámenn“ erlends fjármagns reyndu að hafa áhrif á þessa framkvæmd og koma inn bakdyramegin. Það er grundvallaratriði og hefur verið frá upphafi að Íslendingar sætu einir að þeim auðlindum sem máli skipta, en það eru sérstaklega, eins og hv. þm. vita, fiskimiðin og nýting þess afla sem kemur úr sjó.

Hv. 5. þm. Austurl. vitnaði í frétt í einu dagblaðanna, Alþýðubaðinu, frá 3. mars s.l., ég leyfi mér að vitna í það aftur eins og hv. 5. þm. Austurl. gerði, þar sem einn af forustumönnum Alþfl. á þingi lýsir yfir sérstökum fögnuði yfir því sem hann nefnir „nýtt framtak í atvinnumálum“. Það framtak sem fögnuði er lýst yfir felst í því að einhverjir erlendir aðilar munu vera orðnir eignaraðilar að tveim litlum fyrirtækjum suður á Suðurnesjum. Það var fagnaðarefni fyrir hv. þm. og forustumann Alþfl. að nú væru erlendir aðilar komnir inn í íslenskan sjávarútveg.

Ég vil, með leyfi forseta, rifja upp að erlendir aðilar voru áður fyrr eignaraðilar að takmörkuðu leyti í útgerðarfyrirtækjum hérlendis. Er þess að minnast að á áratugnum 1920-1930 voru reknar breskar útgerðarstöðvar í Hafnarfirði. Hann er núna í kjördæmi hv. þm. Karls Steinars Guðnasonar, 6. landsk. þm., sem er í Ed. Þessi útgerð var rekin með töluverðum blóma fyrst til að byrja með, en síðan gerðist það að hinum erlendu aðilum fundust Íslendingar vera of aðgangsharðir bæði í kröfum um að fá eðlilega hlutdeild af þeim tekjum sem útgerðin gaf af sér sem og að Íslendingar sættu sig ekki við þann aðbúnað sem þeir urðu að búa við um borð í bresku togurunum sem gerðir voru út frá Hafnarfirði á þeim tíma. Þetta var áður en vökulögin voru sett árið 1924. Þá tíðkaðist það að menn voru látnir standa á meðan þeir gátu og hvíldir voru aðeins teknar þegar menn voru svo aðframkomnir að þeir gátu ekki staðið lengur við verkun aflans um borð í skipunum.

Þau átök sem urðu milli íslenskra aðila annars vegar og hinna erlendu hins vegar í Hafnarfirði á áratugnum 1920-1930 höfðu í för með sér að breska togaraútgerðin gafst upp og hvarf skyndilega frá Hafnarfirði með þeim afleiðingum að Hafnfirðingar stóðu uppi án nokkurrar útgerðar sem heitið gat og blasti þar við mikið atvinnuleysi og mikil vandamál fyrir meginþorra fólks. Þá er það sem Alþýðuflokksmenn þeirra tíma bundust samtökum um að stofna Bæjarútgerð Hafnarfjarðar til að hlaupa í skarðið fyrir þann erlenda aðila sem hafði hlaupist á brott með svo skyndilegum hætti. Þetta er saga sem Alþýðuflokksmenn þekkja e.t.v. ekki nú til dagsog þó. Það er kannske eðli Alþfl. að líta helst til útlanda um það sem hann vill helst gera í íslenskum stjórnmálum og atvinnumálum.

Ég tel fulla þörf á að rifja þetta upp og fjalla um þetta með þessum hætti, þegar verið er að tala um að koma hér upp uppboðsmarkaði sem Íslendingar ætla sjálfir að reka og njóta arðs af, vegna þess að það er full ástæða til þess og meira en ástæða til þess. Það er beinlínis nauðsynlegt að íslenska þjóðin viti hvort þessi yfirlýsing hv. þm. Karls Steinars Guðnasonar sé raunverulega yfirlýsing fyrir hönd forustu Alþfl. Er þetta raunveruleg stefna Alþfl. árið 1987?

Ég held að meginþorri þeirra sem fást við útgerð á Íslandi, útgerðarmenn, sjómenn og aðrir sem eiga hagsmuna að gæta, ég tala nú ekki um verkafólk og annað fólk sem vinnur við vinnslu í landi, eigi tvímælalaust að vita strax hvort það sé yfirlýst stefna Alþfl. að leiða Íslendinga inn í erlenda útgerð og fiskvinnslu. Þetta er mjög alvarlegt mál, þjóðernislegt og varðar sjálfstæði þjóðarinnar um ókomna framtíð og líklegast með alvarlegri yfirlýsingum sem þm. hefur gefið í háa herrans tíð.

En það er kannske ekki nein tilviljun að Alþýðuflokksmaður skuli gefa yfirlýsingu sem þessa. Það vill svo einkennilega til að um svipað leyti, þ.e. 27. febr., birtist í Morgunblaðinu grein eftir ritstjóra blaðsins, Matthías Johannessen, þar sem hann er með hugleiðingar um stöðu og stefnu Alþfl. Þessi grein er mjög athyglisverð, en hún virðist undirstrika það, sem því miður er áhyggjuefni ritstjóra Morgunblaðsins í umræddri grein, hver er raunveruleg afstaða Alþýðuflokksmanna til íslensks þjóðernis og um stefnu þeirra almennt í íslenskum stjórnmálum. Ég vil, með leyfi forseta, vitna í nokkur ummæli ritstjórans. Ég tel þau svo gagnmerk og hafa svo mikla þýðingu í þeirri umræðu sem hér fer fram um þetta atriði og einnig um stöðu íslensks sjávarútvegs og fiskiðnaðar og yfirleitt eignastöðu Íslendinga í íslensku atvinnulífi að það sé nauðsynlegt að skilgreina með þeim hætti sem ritstjórinn gerir hvert er raunverulegt eðli Alþýðuflokksmanna í íslenskum stjórnmálum og tilgangur. Í umræddri grein eftir hinn merka ritstjóra Matthías Johannessen segir hann m.a., með leyfi forseta:

„Rósin er alþjóðlegt tákn jafnaðarmanna og ég er ekki viss um að Íslendingar séu ginnkeyptir fyrir slíkum táknum. Krötum væri nær að finna sér íslenskara tákn, til að mynda melgrasskúfinn harða. Alþjóðleg tákn eru vafasöm veisla fyrir litlar þjóðir. Það eru stórþjóðirnar sem veifa þeim helst, til að mynda hamri og sigð.“

Síðan heldur ritstjórinn áfram og segir, með leyfi forseta:

„Mér er minnisstætt þegar ég átti samtal við Dam lögmann og við töluðum m.a. um sjálfstæði Færeyinga í stássstofu danska sendiráðsins við Hverfisgötu. Ég sagðist vera farinn að efast um að þeir vildu í raun og veru slíta tengslin við Dani. Dam var fulltrúi færeyskra krata. Með rósina í hendi horfði hann á mig og sagði: „Af hverju skyldum við fara yfir lækinn að sækja vatn?" Tengslin við Danmörk voru lausnarorðið.“

Ég vitna áfram, til þess að hv. þm. og þjóðin almennt, ef hún fylgist með þessari umræðu, skynji betur hugrenningar ritstjóra Morgunblaðsins og skáldsins Matthíasar Johannessens þar sem það snertir mjög stöðu þess flokks sem hefur boðið sig til forustu í íslensku þjóðlífi með þeim hætti sem við þekkjum af ræðum formanns flokksins. Ritstjórinn segir m.a. í grein sinni að það sé nokkur von um að kratar hafi snúið frá villu síns vegar og séu orðnir þjóðlegri en áður fyrr og segir m.a. að það sjálfstæði Alþfl. beri að virða. En síðan segir ritstjórinn, með leyfi forseta:

„En samt er ekki út í hött að spyrja hvort Alþfl. sé nú loksins að brjótast undan ofríki norrænna bræðraflokka og breytast í íslenskan flokk sem væri framandi sá hugsunarháttur sem ég nefndi áðan og færeyskir jafnaðarmenn hafa lifað og hrærst í.“

Það væri hægt að umorða þessa spurningu og færa hana yfir á það sem Karl Steinar Guðnason alþm. segir og er fagnaðarefni hjá honum og undirstrika það. Hefur í raun og veru orðið nokkur breyting hjá íslenska Alþfl. eða jafnaðarmannaflokknum í þá veru að hann sé ekki lengur háður hinum dönsku eða norrænu skoðanabræðrum sínum? Hv. 5. þm. Reykv. Jón Baldvin Hannibalsson verður að sannfæra Íslendinga um að jafnaðarstefnan sé orðin alíslenskt fyrirbrigði, án örva og rósa, á sama hátt og sjálfstæðismenn hafa sannfært Íslendinga um að sjálfstæðisstefnan er sprottin úr íslenskum jarðvegi og á hvergi fyrirmyndir annars staðar og allra síst í Alþýðuflokkum Norðurlandanna.

Þetta vildi ég láta koma fram við þessa umræðu, herra forseti, vegna þess að fjöregg íslensku þjóðarinnar er það að Íslendingar eigi sjálfir og ráði yfir sínum auðlindum og á ég þar sérstaklega við sjávarfang, notkun sjávaraflans og sölumeðferð hans. Þetta vil ég undirstrika við þessa umræðu. Ég vænti þess að forustumenn Alþfl. á þingi komi með skýlausar og skorinorðar yfirlýsingar um að það sé ekki stefna Alþfl. að framselja íslenskan sjávarútveg eða fiskvinnslu í hendur erlendum aðilum.