04.03.1987
Neðri deild: 51. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3739 í B-deild Alþingistíðinda. (3345)

273. mál, uppboðsmarkaður fyrir sjávarafla

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. svörin varðandi þá fsp. sem ég bar fram við hann og lýsi ánægju yfir að hann ætlar að láta kanna þetta mál í sambandi við útlendinga sem eru að smeygja sér bakdyramegin inn í íslensk fiskvinnslu- og fiskútflutningsfyrirtæki ef marka má frásögn Alþýðublaðsins sem var tilefni þess að ég fór að taka þetta mál hér upp sérstaklega.

Eftir að ég talaði áðan fór ég að líta í skýrslu sem liggur fyrir þinginu frá viðskrh. um erlenda fjárfestingu og íslenskt atvinnulíf og þar eru dregin fram ýmis atriði sem hæstv. ráðh. raunar vék að, lögin um fiskveiðar í landhelgi og einnig varðandi fiskvinnsluna og vakin athygli á samkvæmt þessari skýrslu að það er ekki fjallað með sama hætti og að því er virðist ekki með ótvíræðum hætti um fiskvinnslufyrirtæki og fiskveiðarnar. En hvað sem um það má segja er alveg nauðsynlegt að á þessu máli sé tekið nú þegar af festu og það sé girt fyrir að hér hefjist þróun sem erfitt getur verið að vinda ofan af eða þyngra eftir að erlendir aðilar eru farnir að fóta sig hér, kannske með dulbúnum hætti, í sambandi við atvinnurekstur hérlendis í okkar undirstöðuatvinnuvegi. Þess vegna vænti ég þess að hæstv. ráðh. beiti sér fyrir því að það verði tekið fyrir þessa þróun og þinginu gefist ráðrúm til að taka á þessu máli hið allra fyrsta til þess að það sé ekki hægt að bera við að það vanti heimildir í íslensk lög til að taka á málum sem þessum og menn geti skákað í því skjólinu því það væri illa farið.

Ég fagna ummælum hv. þm. Guðmundar H. Garðarssonar í sambandi við þetta efni og það sem heyra mátti í hans máli í sambandi við erlendar fjárfestingar í sjávarútvegi. Það væri sannarlega ánægjuefni ef sama hljóð væri í strokknum hjá Sjálfstfl. þegar komið er að öðrum auðlindum í landinu, sem menn hafa haft vonir um að gæfu eitthvað, í sambandi við okkar vatnsafl og jarðhita, þar sem menn hafa gengið með betlistafinn allt kjörtímabilið og auðvitað miklu lengur með nokkrum árangri, ef árangur skyldi kalla, á sjöunda áratugnum. Menn þekkja hvernig sú þróun öll hefur verið og uppskera í því efni og það væri út af fyrir sig ástæða til að krefja menn sagna um hvers vegna þeir vilji deila atvinnustarfsemi í landinu upp með þeim hætti að segja galopið í sambandi við iðnað og aðgang að orkulindum landsmanna en lokað í sambandi við sjávarútveginn, þar sem ég er alveg sammála hv. þm. Guðmundi H. Garðarssyni. Það væri sannarlega gott ef Sjálfstfl. næði áttum í því efni, en ég er ekki svo vongóður að það verði nein stórbreyting þar alveg í bráð. En kannske lærir Sjálfstfl. eitthvað af reynslu þessa kjörtímabils og af reynslunni af þeim stóriðjurekstri útlendinga sem viðgengst í landinu fyrir forgöngu Sjálfstfl. og þar sem menn hafa fengið dýrkeypta reynslu. Ég ætla mönnum að þeir vilji læra af reynslunni og þó að það gerist kannske ekki með miklum hávaða til að byrja með væri óskandi að slík endurskoðun gerist innan flokks sem hefur haft jafnmikil áhrif og Sjálfstfl. hefur enn í dag í íslenskum stjórnmálum.

En þessi stefna af hálfu Alþfl. kemur satt að segja nokkuð þvert á mann þegar þar er farið að boða sem fagnaðarerindi í íslensku atvinnulífi og flotholt að útlendingarnir taki forustuna eða a.m.k. komi inn í undirstöðuatvinnuvegina og taki forustu í fyrirtækjum. Auðvitað krælir á þessu víðar. Hvað gerðist ekki í sambandi við þróunarfélagið sem stofnað var með lögum fyrir tveimur árum? Þegar eitthvað loks fór að heyrast frá því félagi var það um að útlendingur, í því tilviki sænskur auðkýfingur, Wallenberg eða Wallenstein eða hvað hann nú heitir, væri að gerast meirihlutaaðili í tilteknu fiskeldisfyrirtæki hérlendis út á gloppur í íslenskri löggjöf. Og það er sjálfur forsrh. sem er ábyrgðaraðili þessara laga og sjóðs eða félags, Þróunarfélagsins. Hann er húsbóndinn sem veitti heimild til að gera þessa tilraun út á gloppu í íslenskri löggjöf.

En það er sannarlega ástæða til að hryggjast yfir þessum tóni hjá Alþfl. þó að hann komi kannske ekki alveg á óvart því að við höfum heyrt óvæntar og skrýtnar yfirlýsingar af þeim bæ á árum áður. Minni ég þá á umræðuna í tengslum við álverið 1980 þegar ritstjóri Alþýðublaðsins og núverandi formaður flokksins skrifaði í sitt blað grein eftir grein undir fyrirsögninni „Álverið er leiðarljós“ og var að reyna að sannfæra lesendur um að það væri engin ástæða til að krefja það hærra raforkuverðs en 7,9 milla eða þar um bil og þetta væri leiðarljós. En ég ætla ekki að fara að taka þann þátt upp frekar.

Ég vænti þess að Alþfl. taki á þessu máli og geri mönnum ljóst hvort hann fylkir sér um þá stefnu sem hv. þm. Karl Steinar Guðnason var að boða sem fagnaðarerindi fyrir tveimur dögum í málgagni flokksins. Það er alveg rétt hjá hv. þm. Guðmundi H. Garðarssyni, sem fram kom hér áðan, að þetta tengist einmitt því frv. sem við erum að ræða hér, uppboðsmarkaði á fiski, því að það getur verið ástæða til að ætla að útlendingar hefðu einmitt áhuga á að nota sér heimildir af því tagi sem hér er verið að opna fyrir, og ætla ég svo ekki hæstv. ráðh. að nota sitt vald til að heimila slíkt, en þeir hafi áhuga á því að nýta þær til þess að komast inn í þennan þjóðhagslega arðgæfa atvinnurekstur og undirstöðu í okkar útflutningi.