04.03.1987
Neðri deild: 51. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3743 í B-deild Alþingistíðinda. (3347)

273. mál, uppboðsmarkaður fyrir sjávarafla

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Ég hef ekki séð það eintak af Alþýðublaðinu sem hér hefur verið vitnað til í umræðunni. Nú hlýt ég að koma hér upp og taka undir orð þeirra sem á undan mér hafa talað og lýsa furðu minni á þeim sjónarmiðum sem þar eru túlkuð af Karli Steinari Guðnasyni, hv. þm. Alþfl. Þarna eru á ferðinni viðsjárverð og stórhættuleg viðhorf sem nauðsyn er að andmæla þegar í stað.

Öll viðleitni okkar Íslendinga hefur verið í þá átt á s.l. árum og áratugum að öðlast full yfirráð og ráðstöfunarrétt yfir þeim verðmætu auðlindum sem hafsvæðin umhverfis landið eru. Við höfum t.d. í hv. utanrmn. nýlega rætt og varið þennan rétt gagnvart Efnahagsbandalagi Evrópu sem vildi öðlast veiðiréttindi í landhelgi okkar vegna tollaívilnana í tengslum við saltfisksútflutning. Sama máli gegnir að sjálfsögðu um öll vinnslustig sjávarafurða okkar.

Okkur er jafnrík nauðsyn að standa vörð um aðgang okkar að og réttindi til meðhöndlunar aflans. Ég mótmæli þeim skoðunum sem fram hafa komið frá hv. þm. Karli Steinari Guðnasyni og vara mjög við þessum viðhorfum.

Ég vil líka taka undir það sem hv. 2. þm. Reykn. sagði áðan. Um þetta þurfa að vera mjög skýr ákvæði í lögum þannig að við getum varðveitt rétt okkar gagnvart erlendri ásælni.