04.03.1987
Neðri deild: 52. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3751 í B-deild Alþingistíðinda. (3363)

347. mál, Útflutningslánasjóður

Samgönguráðherra (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Þetta frv. er um breytingu á lögum nr. 47 frá 1970, um Útflutningslánasjóð, og er nauðsynlegt að leggja það fram vegna nýrra ákvæða viðskiptabankalaga sem tóku gildi í ársbyrjun s.l. árs. Í 28. gr. viðskiptabankalaganna er sett fram það skilyrði fyrir þátttöku viðskiptabanka í félögum eða stofnunum sem þar um ræðir að eingöngu sé um aðild að ræða er takmarki ábyrgð viðskiptabankanna við framlag þeirra. Sú lagabreyting er hér lögð til varðandi Útflutningslánasjóð og takmörkun ábyrgðar stofnaðila sjóðsins er í samræmi við þetta og í raun óhjákvæmileg. Í þessu frv. er enn fremur lagt til að gerð verði krafa um að ríkisstarfsemi, er fer fram á vegum Útflutningslánasjóðs með takmarkaðri ábyrgð, verði auðkennd á sérstakan hátt til að ljóst megi vera gagnvart þriðja aðila að hér sé um að ræða starfsemi með takmarkaðri ábyrgð. Sú framsetning, er þetta ákvæði byggir á, er svipuð framsetningu 2. gr. laga nr. 24 frá 20. maí 1972, um heimild sveitarfélaga til stofnunar og starfrækslu atvinnu- og þjónustufyrirtækja með takmarkaðri ábyrgð, en greinin byggir á sama hátt á tilliti til þriðja manns.

Ég tel ekki ástæðu til þess að ræða þetta frv. frekar en legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn..

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað.