28.10.1986
Sameinað þing: 9. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 376 í B-deild Alþingistíðinda. (337)

Framleiðnisjóður landbúnaðarins

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Eftir kveðjur frá 2. þm. Norðurl. v. þar sem nokkurra jarðskjálftakippa gætti skilur maður betur hvers vegna jarðfræðingur hefur þessa umræðu í sölum þingsins.

Stefna Framsfl. í landbúnaðarmálum er skýr. Við viljum láta draga saman framleiðslu í hefðbundnum búgreinum vegna þess að markaðsaðstæður gera það að nauðsyn. Við viljum að veitt sé fjármagni til nýrra búgreina og þannig sé tryggt að búseta í sveitum haldi velli.

Þessi vandi byrjaði ekki 1983. Hann byrjaði fyrr. Þeir menn sem þá sátu á þingi þorðu ekki að taka á vandanum, voru ekki menn til þess. Þá skorti hugrekki til þess. Það eru staðreyndirnar sem blasa við. Ég hygg að Alþb. með fjmrh. í ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens mætti minnast þess hvað þeir gerðu. Og betra væri hjá þeim að klóra yfir sínar fjárveitingar þá og sína andspyrnu þá við það að fá leiðréttingu, fá fjármagnið til nýju búgreinanna. Hefðu þeir staðið við það þá væri vandinn minni í dag. Nei, þeir studdu það ekki. Þeir studdu það ekki og það er geymt en ekki gleymt. (SvG: En Steingrímur?). Hv. 3. þm. Reykv. veit væntanlega að það eru tveir sem bera það nafn hér í þingsölum, Steingrímsnafnið, og aðeins annar er í Alþb. eftir því sem ég best veit þannig að það er dálítið óglöggt þegar menn kalla fram í á þennan hátt. (SvG: Vertu ekki að sverja hann af þér svona.) Það er erfitt að sinna bæði bjölluhljómi og frammíköllum samtímis.

Herra forseti. Aðeins örfá orð í lokin. Það er mjög brýnt til þess að styrkja aðstöðu þeirra sem hafa farið yfir í nýjar búgreinar að það verði stofnaður verðjöfnunar- og verðtryggingarsjóður fyrir útflutning þeirra sem eru í loðdýraræktinni. Þetta er brýnasta aðgerðin til að tryggja jafnmikið rekstraröryggi hjá þeim sem eru í hinum hefðbundnu búgreinum og hinum sem hafa haldið út í áhættuna. Þetta verkefni þarf að vinna.