05.03.1987
Sameinað þing: 59. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3772 í B-deild Alþingistíðinda. (3405)

244. mál, mannréttindamál

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég legg aðallega leið mína hér í þennan ræðustól til að fagna því að mannréttindamál skuli bera upp á dagskrá Alþingis. Það gerist of sjaldan að við tökum upp umræður um þau mál í þröngu sem og víðu samhengi, mannréttindamálin og kjör manna hvar sem þeir búa á hnettinum.

Ég er efnislega sammála þessari till. Það er að sjálfsögðu rétt að Alþingi fordæmi brot á mannréttindaákvæðum Helsinki-sáttmálans og ég lít svo til að í sjálfu sér þurfi ekki sérstaka till. til að samþykkja að íslenska ríkisstjórnin vinni að því að draga úr slíkum brotum og fá Helsinki-sáttmálann viðurkenndan og framkvæmdan án undanbragða. Það tel ég í raun sjálfsagðan hlut sem ríkisstjórninni beri skylda til að sinna hvort sem væri, en það er ugglaust ekki verra að hnykkja á því sérstaklega með samþykkt.

En það sem mér fannst aðeins skorta í þessari umræðu og ég hefði gjarnan kosið að heyra af vörum frsm. eða hæstv. utanrrh. var það ósköp einfaldlega að ástand mannréttindamála í heiminum er víða bágborið og það er ekki einskorðað við það svæði sem sérstaklega er fjallað um í Helsinkisáttmálanum. Þar af leiðandi hef ég talið æskilegt að í slíkri samþykkt af hálfu Alþingis fælist almenn skírskotun til hæstv. ríkisstjórnar um að vinna gegn mannréttindabrotum hvar sem þau eiga sér stað á byggðu bóli.

Því miður er það svo að skýrslur opinberra aðila og alþjóðlegra stofnana eins og Sameinuðu þjóðanna og samtaka á borð við Amnesty International bera með sér að ástand mannréttindamálanna fer versnandi á mörgum svæðum í heiminum. Það er beiskur sannleikur að kyngja á því herrans ári 1987, en því miður er það svo að skýrslur til að mynda um fangelsanir samviskufanga benda til þess að þeim fari fjölgandi víða í heiminum. Ég mundi því leggja til að sú virðulega nefnd sem tekur þessa till. til meðferðar hugleiði hvort ekki sé rétt að henni fylgi einnig almenn skírskotun og hvatning til íslensku ríkisstjórnarinnar um að vinna gegn mannréttindabrotum hvar sem þau eiga sér stað, til að mynda á svæðum í Asíu, Afríku og Suður-Ameríku þar sem slík afbrot eru talin fara vaxandi.

Það væri einnig eðlilegt að við hnipptum í bandalagsþjóð okkar, sem sumir nefna svo og teygir anga sína inn í Evrópu sjálfa, Tyrkland, en það ríki hefur því miður oft og iðulega verið í hópi efstu ef ekki efsta ríki á skýrslum Amnesty International yfir þjóðir þar sem fólk er fangelsað vegna skoðana sinna.

Ég ætla ekki að gerast spámaður og blanda mér í bollaleggingar hv. ræðumanna, hæstv. utanrrh. og hv. 1. flm., um hversu líklegt það sé að sú hreyfing í frjálsræðisátt, sem greinilega virðist vera á ferðinni í Sovétríkjunum, sé raunveruleg eða að hve miklu leyti hún er blekking. Ég held að sagan ein geti leitt í ljós hver þróun mála verður þar eins og svo víða annars staðar. En ég teldi ákaflega ógáfulegt og óskynsamlegt af þeim mönnum og þjóðum sem berjast fyrir auknum mannréttindum að gera nokkurn hlut annan en þann að fagna þeirri viðleitni sem þó virðist þar vera á ferðinni í þessa átt. Mér fannst kenna ofurlítið, virðulegur forseti, ég verð að segja það, fýlutóns í garð þeirra breytinga sem þar hafa sannanlega orðið og frelsun manna undanfarnar vikur úr fangabúðum eða útlegð bendir vissulega til og ummæli íslenska forsrh. sem efaðist ekki í heimsókn sinni þarna austur um einlægni ráðamanna í þessum efnum. Ég kysi því frekar að heyra að menn fagni því almennt að þarna virðist vera þróun í rétta átt. Þó að langt sé í land til þess að ástandið verði viðunandi held ég að það sé um lítið annað að ræða en að hvetja einmitt til þess að haldið verði áfram á sömu braut. A.m.k. hafa Vesturlönd stutt við bakið á ríkjum þar sem mannréttindamál eru í bágbornu ástandi með þeim rökum að það færi þó skánandi. Þar af leiðandi væri rétt að hvetja þau áfram á sömu braut frekar en grípa til einhverra annarra ráða eins og þvingunaraðgerða sem stundum eru nefndar í þessu sambandi. Ég get nefnt aftur ríkið Tyrkland, ég get nefnt El Salvador, Chile og fleiri slík ríki þar sem mannréttindabrot sannanlega viðgangast, en bandamenn eða stuðningsaðilar þessara ríkja hafa með þeim rökum sem ég vitnaði til kosið að styðja við bakið á þeim í þeirri von að þróunin gengi í rétta átt.

Herra forseti. Erindi mitt var fyrst og fremst að fagna því að þessi málaflokkur kemur hér til umræðu og koma hér á framfæri þeirri almennu skoðun minni að ef þessum málum er hreyft með ályktun á annað borð eigi hún að fela í sér almenna skírskotun á þessu sviði.