09.03.1987
Efri deild: 51. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3795 í B-deild Alþingistíðinda. (3422)

342. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. 2. minni hl. fjh.- og viðskn. (Ragnar Arnalds):

Virðulegi forseti. Að sjálfsögðu getur það aldrei góðri lukku stýrt þegar ríkisstjórn hleypur til örfáum vikum fyrir kosningar, rétt þegar kjörtímabili hennar er að ljúka eftir fjögurra ára setu, og leggur fram umfangsmiklar breytingar á skattkerfi landsmanna og ætlar Alþingi aðeins fáa daga til umfjöllunar og almenningi í landinu enn minni tíma og enn verri aðstöðu til að átta sig á svo gífurlega flóknu máli sem skattkerfisbreyting hlýtur að vera. Þó get ég ekki látið hjá líða að hrósa sérfræðingum ríkisstjórnarinnar og undirbúningsnefndinni, sem vann að þessu máli fyrir fjmrn., því að ég sé ekki betur en að afköst þessara manna séu með ólíkindum og að þeir hafi á margan hátt unnið verk sitt með miklum ágætum. En ég legg á það áherslu að jafnvel þótt hér sé um mjög hæfa menn að ræða, sem hafa gengið til verka vélvæddir á nútímavísu, og jafnvel þótt þeir hafi unnið verk sín á margan hátt skínandi vel, er það óvinnandi vegur fyrir hvern sem er, hversu fær sem hann er, að gera tillögur um svo umfangsmikið mál eins og skattkerfisbreytingin er án þess að veruleg slys verði eða í ljós komi alvarlegir ágallar á þeirri smíð sem menn hafa einungis haft fáar vikur til að glíma við.

Ég þarf ekki að endurtaka það sem seinasti ræðumaður sagði hér áðan, hv. 11. þm. Reykv. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir. Það er rétt sem hún sagði að það er býsna mörgum spurningum ósvarað í sambandi við þessa breytingu og það liggur ekki fyrir nein raunveruleg úttekt á því hvernig einstakir hópar koma út. Það liggja að vísu fyrir feikilega margir útreikningar og feikilega mörg meðaltöl af ýmsu tagi, en eins og öllum er ljóst segja meðaltölin aldrei nema hálfa söguna. Á bak við meðaltölin er margvíslegur raunveruleiki sem getur verið harla ólíkur því sem meðaltalsniðurstaðan gefur til kynna og því er óhjákvæmilegt þegar svona breyting er gerð að menn geti gefið sér góðan tíma til að átta sig á því í smáatriðum hvort einhverjir hópar koma ekki verulega illa út úr breytingunni og hvort ekki þurfi þá að gera sérstakar hliðarráðstafanir til að verja hag þeirra.

Það er líka rétt að leggja á það áherslu í upphafi að sú breyting sem felst í framlögðum skattafrumvörpum, bæði því sem nú er til umræðu um tekju- og eignarskatt og þremur fylgifrumvörpum þess, felur ekki í sér almenna skattalækkun fyrir launamenn. Ljóst er að sumir fá þyngri skatt en áður. Á öðrum minnkar skattbyrðin. Það eru einmitt breytingar af þessu tagi sem hefði þurft að vera miklu meira ráðrúm til að rannsaka. Breytingin felst hins vegar í verulegri einföldun álagningar og í staðgreiðslu skattanna. Hvort tveggja er tvímælalaust ágætt svo langt sem það nær. Ég lýsi enn og aftur yfir fylgi mínu við staðgreiðslu skatta og ég mun greiða staðgreiðslufrumvarpinu atkvæði mitt þó að ég óttist að þar muni nú kannske leynast ágallar ýmsir sem í fljótræðinu verði ekki komið auga á. Ég bendi hins vegar á að ríkisstjórnin er óralangt frá því marki, sem hún setti sér í upphafi ferils síns, að afnema tekjuskatt af almennum launatekjum og ég minni líka á að við þessa skattkerfisbreytingu er ekki látið eitt yfir alla ganga, fyrirtæki jafnt sem einstaklinga. Það er ekki verið að einfalda álagningu skatta á fyrirtæki. Það er ekki verið að taka upp staðgreiðslu hvað þau varðar. Það er ekki verið að leggja skatt á brúttóhagnað þeirra hliðstætt því sem nú verður um tekjur launafólks sem verða skattlagðar sem brúttótekjur og flestir frádráttarliðir hverfa.

Það er skoðun mín að ef hvort tveggja hefði verið gert, að afnema frádráttarliðina hjá launafólkinu og að afnema frádráttarliðina hjá fyrirtækjunum, þá á ég við alla þá mörgu frádráttarliði sem fyrirtæki eiga völ á til að lækka skattstofn, hefði heildarskattstofn fyrirtækjanna vaxið verulega. Það hefði þá verið möguleiki á því að lækka skatthlutfall félaga rétt eins og gert hefur verið hjá einstaklingunum, ef heildarskattstofninn hefði orðið stærri, ef frádráttarliðirnir hefðu verið afnumdir, og þar af leiðandi meira til að leggja á, og afla ríkissjóði aukinna tekna jafnhliða. Tekjuaukinn hefði getað numið um 1000-1500 millj . kr.

Um skatta fyrirtækja hef ég oft fjallað á Alþingi og það er kannske ekki ástæða til að hafa mörg orð um það efni. En ég geri í brtt. mínum að tillögu minni að felldar verði niður eða lækkaðar í áföngum eftirfarandi heimildir sem fyrirtækjum eru veittar í skattalögum til að gera skattstofn sinn sem minnstan.

Í fyrsta lagi er um að ræða það ákvæði skattalaga að færa megi niður matsverð vörubirgða í lok reikningsárs um allt að 10% og þessa niðurfærslu má alla draga frá skattskyldum tekjum áður en álagning fer fram. Þessa heimild ber að afnema í áföngum á næstu árum og gerum við tillögu um það hér að það gerist á næstu þremur árum.

Sama gildir um þá heimild skattalaga að útistandandi viðskiptaskuldir megi færa niður um allt að 5% og draga alla niðurfærsluna frá skattskyldum tekjum áður en álagning fer fram. Hér er gerð af minni hálfu og okkar Alþýðubandalagsmanna tillaga um að þessi heimild sé afnumin í áföngum á næstu árum og hverfi alveg á árinu 1991.

Í þriðja lagi eru það ákvæðin um framlög í fjárfestingarsjóði. Um þau framlög var saminn sérstakur lagabálkur einmitt á þessu kjörtímabili sem allur gengur út á það að hlífa fyrirtækjum við skattgreiðslum. Það er einfaldlega tillaga okkar að þessar heimildir falli niður.

Í fjórða lagi eru það afskriftirnar að svo miklu leyti sem þær eru ekki í neinu samræmi við endingartíma eignanna. Þar er einnig um að ræða breytingu sem átti sér stað á yfirstandandi kjörtímabili þar sem afskriftaprósentur voru hækkaðar úr hófi fram frá því sem áður hafði verið. Það er tillaga okkar að afskriftaprósentur verði lækkaðar í það horf sem þær voru í þegar þessi stjórn kom til valda.

Í fimmta lagi eru það framlögin í varasjóð sem eiga stóran þátt í skattleysi fyrirtækja nú um stundir. Það er tillaga okkar að þessi framlög verði skattlögð eins og aðrar tekjur.

Ég hef margsinnis bent á það við umræður á Alþingi að þessar miklu frádráttarheimildir fyrirtækja eru meginástæðan til þess að meginþorri fyrirtækja á Íslandi greiðir lítinn sem engan tekjuskatt. Ég hef fært sönnur á það að fyrirtækin sem greiða engan skatt, þ.e. engan tekjuskatt, eru rétt um helmingur af heildartölu fyrirtækjanna, en leiða má líkur að því að þau sem greiði mjög lágan tekjuskatt séu um fjórðungur þeirra þannig að það er í mesta lagi 1/4 hluti sem greiðir skatt í einhverju eðlilegu samræmi við hagnaðinn.

Ég hef ekki á þessu stigi máls gert tillögu um lækkun skatthlutfalls félaga þó ég viðurkenni hins vegar að væri lagður brúttóskattur á hagnað fyrirtækja væri ekki óeðlilegt að lækka skatthlutfallið eitthvað, kannske niður í 40% eða jafnvel niður í sama hlutfall og er jaðarskattur eftir samþykkt þessara frumvarpa, þ.e. 35%.

Ég álít hins vegar að við það að breikka skattstofninn svo gífurlega sem raun ber vitni með því að afnema allar þessar undanþáguheimildir skapaðist svigrúm til að gera hvort tveggja: að lækka skatthlutfallið og þó afla ríkissjóði verulegra tekna sem við höfum áætlað að yrðu einhvers staðar á bilinu 1000-1500 millj. kr. eftir því hversu hátt skatthlutfallið yrði. Ég er reiðubúinn til að taka þátt í því að lækka skatthlutfallið á félögin ef till. okkar um frádráttarliði og afnám þeirra hjá fyrirtækjum verður samþykkt, en að sjálfsögðu er það ekkert álitamál ef þær till. yrðu allar felldar. Það væri þá svigrúm til að gera það við 3. umr. málsins.

Í nál. mínu á þskj. 773 er gerð grein fyrir till. okkar um breytingar á tekjuskattskerfinu til viðbótar við þá meginbreytingu, sem í frv. felst, að tekin sé upp staðgreiðsla skatta. Það er till. okkar að skatttekjur ríkissjóðs af fyrirtækjum verði auknar um 1200 millj. kr. með þeim aðferðum sem ég hef nú þegar lýst.

Í öðru lagi er það till. okkar að minnka skattbyrði á almennum launatekjum um nokkurn veginn sömu upphæð. Við leggjum til að skattfrelsismörk einstaklinga verði hækkuð sem svarar til þess að 38 þús. kr. mánaðartekjur séu algjörlega skattfríar, en í frv. er miðað við 33 þús. kr. skattfrelsismörk. Á tekjubilinu frá 38 þús. kr. til 50 þús. kr. mánaðartekna yrði verulega dregið úr skattbyrði sem svarar til þess að einungis útsvar sé lagt á þessar tekjur, en enginn tekjuskattur. Því má með réttu segja að till. okkar feli í sér tekjuskattsleysi upp í 50 þús. kr. mánaðartekjur. Skattbyrði launatekna á tekjubilinu frá 50 og upp í 70 þús. kr. mundi minnka verulega einnig, en áhrif þessarar skattalækkunar mundu síðan dvína og deyja út þegar kæmi upp fyrir 100 þús. kr. tekjur. Till. er lýst myndrænt í fskj. nál. þar sem bæði kemur fram hverjir yrðu skattar af mánaðartekjum skv. till. okkar og það borið saman við skattálagningu á mánaðartekjur skv. till. ríkisstjórnarinnar og vísa ég til þessara mynda sem að sjálfsögðu eru byggðar á tilsvarandi tölvuútskrift.

Þessum markmiðum, sem ég nú hef lýst, yrði náð á þann hátt að skattþrepin yrðu tvö, þ.e. 33% upp að 50 þús. kr. mánaðartekjum, en 38% á tekjur sem væru þar umfram. Persónuafsláttur yrði hækkaður úr 11 500 kr. skv. frv. ríkisstjórnarinnar í 12 540 kr. eða með öðrum orðum að persónuafslátturinn yrði 150 480 kr. á ári og er þetta að sjálfsögðu deilitala miðuð við mánuð.

Ég vek sérstaka athygli á að með skattatillögum ríkisstjórnarinnar er tveimur hópum greitt allþungt kjaftshögg. Þar á ég annars vegar við leigjendur og hins vegar við misgengishópinn margfræga sem fór illa út úr misgengi lána og launa á árunum 1983 til 1984. Ég minni á hvað fyrri hópinn snertir að leigjendur eru löngum verr settir í húsnæðismálum en aðrir. Ég tel að það væri hneyksli nú, þegar í fyrsta sinn er farið að greiða út húsnæðisstyrki, ef þeir gleymdust með öllu, en að því stefnir að öllu óbreyttu. Ég get ekki séð að það sé neitt réttlæti í því að greiða húseigendum húsnæðisbætur, en leigjendur fái alls ekki neitt og missi það litla sem þeir höfðu í frádrátt. Þess vegna geri ég tillögu um að leigjendur fái sömu húsnæðisbætur og húsbyggjendum eru ætlaðar.

Ég minni á að leigjendur hafa notið þess undanfarin ár að mega draga hálfa húsaleigu frá við álagningu tekjuskatts. Ég hef upplýsingar undir höndum sem sýna að um 1600 leigjendur nýttu sér þetta við seinustu álagningu og fengu um 60 millj. kr. frádrátt. Auðvitað eru leigjendur margfalt fleiri en þessari tölu nemur, en það voru bara ekki nema 1600 sem höfðu nægar tekjur og aðstöðu til að nýta sér heimildina í skattalögunum því menn þurfa að sjálfsögðu að hafa dálitlar tekjur til þess að heimild af þessu tagi nýtist skv. núgildandi lögum.

Nú þegar breytt er um kerfi og teknar eru upp húsnæðisbætur skiptir ekki lengur máli hvort menn eru með miklar tekjur eða litlar. Það á einfaldlega að greiða út húsnæðisstyrki úr ríkissjóði. Ég er hlynntur þessu fyrirkomulagi. Ég tel að þetta nýja kerfi í sambandi við húsnæðisstyrkina sé ágætt og til bóta. En ég tel hins vegar afskaplega einkennilega að staðið að sleppa þá alveg þeim hópnum sem bersýnilega er heldur verr á vegi staddur en þó hinn sem á eignirnar og er að byggja yfir sig, þ.e. þeir sem ekki hafa haft efni á því að kaupa sér húsnæði. Það væri hneyksli að sleppa þessum hópi. Þegar ég spurði um þetta í fjh.- og viðskn. Ed. kom í ljós að þetta mál hafði hvorki verið rætt í viðræðum aðila vinnumarkaðarins né heldur innan nefndarinnar sem undirbjó löggjöfina þannig að vissulega má á þessu stigi málsins líta á þetta sem slys, mistök. En þetta er slys sem á að koma í veg fyrir. Enn er tími til að koma í veg fyrir það. Þetta eru mistök sem er unnt að leiðrétta. Ég skora á hæstv. fjmrh. að leiðrétta þessi mistök. Ég mun ekki láta þessa till. ganga til atkvæða við 2. umr. í trausti þess að hann taki sér einhvern umhugsunarfrest til að velta því fyrir sér hvort hann vill ekki koma til móts við leigjendurna. Það mun ekki kosta ýkjamikið satt best að segja. Þetta eru ekki stórar upphæðir. Það skiptir þetta fólk ákaflega miklu máli. Ef hæstv. fjmrh. nýtir sér ekki umhugsunarfrestinn og vill ekkert fyrir þetta fólk gera er ekki lengur um slys að ræða. Þá er um árás að ræða, skerðingu af ásettu ráði og þá er málið orðið annars eðlis.

Um hinn hópinn er það að segja, þ.e. misgengishópinn, að hann fór ákaflega illa út úr misgengi lána og launa á árunum 1983-1984 og hafði að sjálfsögðu löngum gert sér vonir um að ríkisvaldið kæmi með einhverjum hætti til móts við sig með ráðstöfunum vegna þess að auðvitað var ekkert réttlæti í því hvernig þetta gekk fyrir sig á sínum tíma. En nú bætist það við að þessi hópur, sem hafði þó gert sér vonir um að geta afskrifað að einhverju leyti þær miklu fjárhæðir sem gengu þarna á misvíxl með skattfrádrætti á komandi árum, lendir í því að skattafslátturinn verður nú aðeins til sex ára. Hann er bundinn við sex ár og er miklu takmarkaðri en áður var. Ég álít að hér verði að gera bragarbót. (Forseti: Ég vek athygli hv. þm. á því að það þarf að fresta þessum fundi nú, en hann mun hefjast að nýju kl. 17.00 ef hv. þm. vill fresta sinni ræðu og ljúka henni kl. 17.00.) Já, ég nefndi að það þyrfti bersýnilega að gera bragarbót á þessu frv. og mun reyna að botna það á eftir. - [Fundarhlé.]

Virðulegi forseti. Ég fjallaði áðan í ræðu minni um skattkerfisbreytingarnar sem nú er verið að afgreiða í gegnum hv. Ed. og ber að skoða þessa ræðu mína sem framsöguræðu um þrjú frumvörp sem bárust fjh.- og viðskn., þ.e. um staðgreiðslu, um tekju- og eignarskatt og um gildistöku staðgreiðslunnar.

Ég vék seinast að tveimur hópum sem ég tel að beri skarðan hlut frá borði við þessa kerfisbreytingu, en tek það þó skýrt fram að ég hygg að hóparnir séu miklu fleiri en þessir tveir þó ég nefni þá fyrsta. Ég var í fyrsta lagi búinn að vekja athygli á því að leigjendur fara nokkurs á mis þar sem þeir glata heimild sinni til að draga frá skatti hálfa húsaleigu og fá ekkert í staðinn. Ég nefndi það áðan að ég teldi það vera hneyksli ef einmitt þessi hópur gleymdist þegar byrjað er í fyrsta sinn að greiða út húsnæðisstyrki.

Síðan vék ég að svonefndum misgengishóp, en það eru mennirnir sem fóru illa út úr misgengi lána og launa á árunum 1983-1984 þegar lánin hækkuðu í hlutfalli við lánskjaravísitölu en launin sátu eftir. Ég vakti athygli á því að þeir hefðu lengi vænst þess að komið yrði til móts við þá í hinum mikla vanda þeirra, en það hefði ekki orðið þrátt fyrir ítrekuð góð orð ráðamanna í þá átt, en nú bættist það við að ívilnun í skattakerfinu sem þeir hefðu notið væri verulega skorin niður, bæði á þann hátt að skattafslátturinn verður hlutfallslega minni en skattfrádráttur þeirra var og í öðru lagi vegna þess að skattafslátturinn er nú bundinn við næstu sex ár, en samkvæmt gamla kerfinu væri vel hugsanlegt að þeir nytu skattfrádráttar í nokkra áratugi eða a.m.k. meðan þeir væru að greiða niður langtímalán eins og t.d. húsnæðismálastjórnarlán og lífeyrissjóðslán. Ég vek því athygli á till. minni sem er að finna á þskj. 781, þ.e. 10. brtt., sem einmitt fjallar um þetta mál, því að í ákvæði til bráðabirgða 2. mgr., segir svo, með leyfi forseta, og er ég þá að vitna í frv. ríkisstjórnarinnar:

„Vaxtaafsláttur sem um ræðir í 1. mgr. ákvarðast þannig að frá frádráttarbærum vöxtum skal draga fjárhæð er svarar til 7% af tekjuskattsstofni. Vaxtaafsláttur telst vera 30% af þeirri fjárhæð sem þá er eftir.“

Ég geri það að tillögu minni að þessi setning orðist svo:

„Vaxtaafsláttur sem um ræðir í 1. mgr. telst vera 34,75% af frádráttarbærum vöxtum.“

Það er gert ráð fyrir því skv. till. minni að allir frádráttarbærir vextir séu þarna taldir með og að hlutfallið sem er dregið frá sé ósköp einfaldlega skatthlutfallið í lögunum sem að meðaltali verður 34,75%. En í frv. ríkisstjórnarinnar er bæði um verulega skerðingu að ræða á vaxtaupphæðinni og hlutfallstalan er 30%, en ekki 34,75% eins og að öðru leyti er gert ráð fyrir sem heildarálagningarprósentu í frv.

Ég tel að misgengishópurinn komi hliðstætt út úr nýja skattkerfinu með þessari breytingu og hann gerði samkvæmt gamla skattakerfinu, en viðurkenni hins vegar að þá er ekki á neinn nýjan hátt komið til móts við þennan hóp og bendi ég sérstaklega á tillögur sem þessi hópur hefur sett fram um hvernig mætti koma verulega miklu betur til móts við hann með öðrum og róttækari hætti. Þar er um mjög flóknar tillögur að ræða sem mér finnst að þurfi endilega að ræða frekar. En vegna þess hversu flóknar tillögurnar eru og hversu lítill tími hefur nú gefist til að athuga þær nánar læt ég nægja að flytja till. sem fela í sér að þeir sem þar um ræðir séu a.m.k. ekki verr settir en áður var.

Ég hef nefnt það áður að við skattkerfisbreytinguna frá eftiráskattlagningu og yfir í staðgreiðsluskatt er mikil hætta á því að sumir tapi en aðrir hagnist á breytingunni. Þannig er t.d. um þá sem fara til náms á þessu ári en koma svo aftur til vinnu næsta ár. Í ár eru þeir að greiða skatt af tekjum liðins árs, en hefðu að öllu óbreyttu verið skattlausir næsta ár vegna tekjuleysis í ár og þannig hefðu þeir getað bætt sér upp launamissi í eitt ár. Nú lenda þeir beint inn í staðgreiðslu næsta árs. Ég bendi á að auðvelt á að vera að veita þeim sem þannig stendur á fyrir sérstaka ívilnun við álagningu skatta á næsta ári, en heimild til leiðréttingar af þessu tagi mundi helst eiga heima í frv. til l. um gildistöku staðgreiðslunnar, 4. gr., þar sem einmitt er fjallað um endurmat á tekjum ársins 1987. Til að gera málið ögn einfaldara vil ég leyfa mér að mæla fyrir þeirri till. minni, þó að hún snerti annað þingmál, þ.e. gildistökufrv. sem verður tekið fyrir á eftir. Ég vek á því athygli að ég hef flutt sérstaka till. á þskj. 782 sem er svohljóðandi:

„Nú hefur skattgreiðandi verið tekjulítill eða tekjulaus á árinu 1987 vegna veikinda, námsvistar eða atvinnuleysis og skal þá lækka álagðan tekjuskatt og útsvar í samræmi við viðmiðunarreglur sem ríkisskattstjóri setur.“

Þetta er ósköp einfaldlega sett fram til að setja undir þann leka að menn verði fyrir óbeinu tapi við skattkerfisbreytinguna vegna þess að þeir höfðu engar atvinnutekjur á árinu 1987. Það er ekki aðeins þegar menn hafa farið utan til náms á þessu ári sem slíkt getur átt sér stað. Það getur líka verið af öðrum ástæðum eins og t.d. vegna veikinda eða vegna atvinnuleysis.

Nú má að vísu segja að sé maður veikur á árinu 1987 og eigi að greiða skatta af tekjum ársins 1986, hafi ætlað að bæta sér það upp með skattleysi á árinu 1988, geti hann sótt til ríkisskattstjóra um lækkun skatta á árinu 1987 vegna þess hvernig á stendur fyrir honum á því ári. En tilvikin eru miklu fleiri en þetta. Það er t.d. hugsanlegt að maðurinn hafi verið veikur tvö ár, þ.e. bæði árið 1986 og 1987, og þá er hann kominn í mjög svipaða aðstöðu og námsmaðurinn sem fór utan á þessu ári, 1987, og fær ekki neina sérstaka skattaívilnun þess vegna þegar hann síðar kemur heim aftur til starfa á árinu 1988. Þessi brtt., sem er flutt við gildistökufrv., setur undir þennan leka. Ég vek alveg sérstaka athygli á þessari till. sem ég tel að sé bráðnauðsynleg til að koma í veg fyrir að veruleg slys verði við breytinguna úr eftiráálagningu og yfir í staðgreiðslu.

Ég hef nefnt þá sem tapa á skattkerfisbreytingunni, en það er nauðsynlegt að nefna líka þá sem græða á breytingunni. Það eru þá einkum og sér í lagi þeir sem geta skammtað sjálfum sér eða ættmennum sínum laun vegna þess að þeir ráða yfir launagreiðslum atvinnufyrirtækja. Ég kalla ekki að menn græði á skattkerfisbreytingunni þó að menn taki sig til á árinu 1987 og vinni eins og púlshestar og nái þannig einhverjum tekjum sem ekki verða skattlagðar. Menn hafa sannarlega unnið til þess, ef menn eru að leggja slíkt á sig á árinu 1987, og ég hygg að það verði ýmsir sem gera það. En ég er miklu frekar að tala um hina sem fá þarna hugsanlega verulega skattaívilnun vegna aukinna tekna sem þeir hafa á engan hátt unnið fyrir.

Það er að vísu reynt í frv. að sjá við þessum leka að einhverju leyti með því að ákveðið er að fari reiknað endurgjald atvinnurekanda vegna eigin starfa fram úr 25% af endurgjaldi ársins 1986, að teknu tilliti til breytinga á lánskjaravísitölu milli ársins 1986 og 1987, skuli leggja skatt á það sem fram yfir fer. Sama er látið gilda um þá sem standa atvinnurekandanum nærri. Hér eru menn húsbændur sjálfs sín og eru að ákveða sjálfum sér eða sínum laun. Þeir geta hagnast verulega á skattkerfisbreytingunni með því að ætla sjálfum sér há laun árið 1987 og síðan lægri laun árið eftir. Auðvitað verður að reyna að koma í veg fyrir undanskot tekna í stórum stíl af þessari ástæðu. Ég tel að 25% ákvæðið í 4. gr. nefnds frv. sé alls ófullnægjandi. Það sé ofrausn að heimila mönnum án nokkurs aukins vinnuframlags eða án þess að þeir hafi tekið á sig á nokkurn hátt aukin ábyrgðarstörf að skjóta undan skatti svo háum fjárhæðum. Ég hef því lagt til að þessi prósentutala verði lækkuð niður í 10% . Ég sé að hv. þm. Stefán Benediktsson, fulltrúi Alþfl. í fjh.- og viðskn., hefur lagt til að þessi prósentuheimild falli alveg út og auðvitað gæti það komið til greina, en ég hef gengið heldur skemmra en hann í þessum efnum og legg til að prósentan verði að hámarki 10%.

Virðulegi forseti. Ég hef gert grein fyrir tillögum mínum við afgreiðslu frv. um tekju- og eignarskatt og raunar hef ég gert grein fyrir tillögum sem ég flyt við fylgifrv., þ.e. gildistökufrv., og flutt þær athugasemdir sem ég hef að gera við staðgreiðslufrv.

Ég vil þó geta nokkurra tillagna sem enn hafa ekki verið nefndar, en það eru tillögurnar á þskj. 781, 3. tölul., þar sem gert er ráð fyrir að við 52. gr. laganna bætist nýir töluliðir. Ég leyfi mér að vitna til lagagr. sjálfrar, 52. gr., en þar er fjallað um hvað ekki teljist rekstrarkostnaður. Þar er minnst á að í rekstri skuli ekki teljast til kostnaðar gjafir nema um sé að ræða kaupauka sem þá telst til endurgjalds fyrir vinnu, þ.e. einfaldlega til launagreiðslna. Ekki skuli teljast til rekstrarkostnaðar fjársektir eða önnur viðurlög hverju nafni sem nefnast vegna refsiverðs verknaðar skattaðila sjálfs, þar með talið verðmæti upptækra eigna eða greiðslur í þess stað. Það er afskaplega gáfulegt af löggjafanum að slá því föstu að ef menn eru sektaðir fyrir skattsvik megi þeir ekki draga sektina frá skatti í næsta sinn.

Í þriðja lagi má ekki telja til rekstrarkostnaðar arð eða vexti af framlögðu fé manns til atvinnurekstrar eða sjálfstæðrar starfsemi, hvort heldur reksturinn er á eigin ábyrgð eiganda eða með ótakmarkaðri ábyrgð í sameign með öðrum. Það er hins vegar till. okkar að við þessa upptalningu bætist tveir liðir sem svo sannarlega eru tímabærir í okkar skattakerfi. Þeir hljóða svo:

„Persónulega eyðslu forráðamanna fyrirtækis eða starfsmanna er óheimilt að telja til rekstrarkostnaðar. Skal ríkisskattstjóri gefa út árlega reglur um takmörk skv. þessum tölulið.“

Hér er einmitt vikið að einni algengustu aðferðinni sem eigendur fyrirtækja beita til að komast hjá skattgreiðslum og ívilna sjálfum sér, en það er að telja ýmiss konar eyðslu í þágu heimilis til rekstrarkostnaðar og fá þann kostnað þannig dreginn frá hagnaði fyrirtækisins.

Í öðru lagi leggjum við til svofellt ákvæði: „Risnu má ekki telja til rekstrarkostnaðar nema hún sé sannanlega í þágu fyrirtækisins. Ríkisskattstjóri setur reglur um risnukostnað fyrirtækja eftir stærð þeirra og veltu með hliðsjón af markaðsstöðu fyrirtækjanna. Við ákvörðun sína skal ríkisskattstjóri sérstaklega gæta þess að persónuleg eyðsla forráðamanna fyrirtækis eða starfsmanna þess færist aldrei á kostnað fyrirtækisins.“

Þetta er að sjálfsögðu náskyld till., en engu að síður mjög þörf og brýn.

Virðulegi forseti. Þá á ég aðeins eftir að nefna eina brtt. sem ég flyt og er 9. brtt. á þskj. 781, en hún varðar það með hvaða hætti föstum stærðum í skattalögunum er hnikað til í samræmi við vísítölu. Eins og áður hefur komið fram í þessari umræðu er gert ráð fyrir því í 18. gr. frv. að fjárhæðir sem nefndar eru í 68. og 69. gr., þ.e. persónuafslátturinn og barnabæturnar, skuli breytast tvisvar á ári í samræmi við lánskjaravísitölu. Það á að taka mið af hlutfallslegri breytingu lánskjaravísitölunnar sem í gildi er 1. júní miðað við þá breytingu sem orðið hefur á vísitölunni frá 1. des. næst á undan og þessi breyting kemur þá til framkvæmda 1. jan. hvert ár. Samsvarandi breyting er síðan gerð á meginfastastærðum frv. hinn 1. júlí ár hvert, þá miðað við lánskjaravísitölu hálfu ári áður.

Ég hef ekki skilið enn hvers vegna er miðað við lánskjaravísitölu í þessu frv. Ég hef ekki getað fengið það inn í minn koll hvers vegna það þykir rökréttara, sanngjarnara og eðlilegra að láta skattafslátt í lögum fara eftir því hvort olía hækkar í verði eða ekki, hvort byggingarkostnaður eykst verulega eða hvort aðrar breytingar verða á hvort heldur sem er verðlagi byggingarvara eða þeim vörum sem eru í framfærsluvísitölu frekar en hitt, sem hingað til hefur verið gert, að láta þessar breytingar hreyfast í takt við tekjur fólks og breytingar á þeim. Ég hef því lagt til í brtt. 9 að í stað orðsins „lánskjaravísitölu“ komi: vísitölu kauptaxta verkamanna og iðnaðarmanna.

Þetta er vísitalan sem sjá má í Hagtölum mánaðarins sem Seðlabanki Íslands gefur út. Þessi vísitala er reiknuð að staðaldri, er kölluð kauptaxtavísitala og er, eins og ég nefndi áðan, miðuð við kauptaxta verkamanna og iðnaðarmanna. Ég gæti vel fallist á að taka einhverja aðra vísitölu. Það má vel vera að það mætti byggja upp nýja vísitölu sem tæki ekki aðeins mið af kauptaxtabreytingum heldur líka því launaskriði sem á sér stað í þjóðfélaginu eftir áætlun Þjóðhagsstofnunar hverju sinni og öðrum þeim upplýsingum sem fram kæmu hjá kjararannsóknarnefnd. Ég er ekki að segja með þessari till. að þessi kauptaxtavísitala sé hin eina sanna viðmiðun. Það má vafalaust byggja upp sanngjarnari viðmiðun því vissulega er þessi vísitala ekki mælikvarði á breytingar allra atvinnutekna í þjóðfélaginu heldur bara á vissar breytingar sem eiga sér stað, þ.e. meðal verkamanna og iðnaðarmanna. En þetta er eina vísitalan sem unnt er að vitna til eins og sakir standa og meðan önnur er ekki við hendina er eðlilegast að hafa not af henni.

Við umræðu um þetta atriði í hv. fjh.- og viðskn. komu fram upplýsingar um hvað hefði verið mikill munur annars vegar á hreyfingu atvinnutekna í þjóðfélaginu og hins vegar á lánskjaravísitölu. Það kom í ljós að munurinn á þessum tveimur vísitölum getur oft verið býsna mikill. Hann hefur oft verið mjög verulegur. Það er jafnvel áætlað á þessu ári, árinu 1987, geti orðið um að ræða 6% mismun á þessu tvennu, þ.e. hreyfingu teknanna annars vegar og hins vegar hreyfingu lánskjaravísitölunnar. Og hverjir ætli tapi nú á þessum mun eins og sakir standa? Jú, auðvitað eru það launamenn sem gera það vegna þess að það er áætlað að atvinnutekjurnar hækki hraðar en lánskjaravísitalan og þar af leiðandi hækka afsláttarliðirnir hægar en þeir mundu ella gera ef miðað væri við atvinnutekjur. Þegar ég innti nánar eftir því hvort ekki gæti verið um verulega kjararýrnun að ræða af völdum þessa við umræður um málið í nefndinni fékk ég það staðfest, sem hafði veri ágiskun mín en reyndist rétt þegar farið var að reikna, að þessi munur gæti á talsverðu launabili numið um 2% í kjörum ef munurinn á vísitölunum væri 6%, sem er í sjálfu sér fullkomlega rökrétt, vegna þess að skatthlutfallið sem verið er að leggja á er afskaplega nálægt því að vera 33% eða 1/3 af tekjum. Ef verður þessi 2% munur sem fólk fer á mis við er hætt við því að um sé að ræða kjararýrnun upp á rétt um 2%, a.m.k. á því tekjubili sem kemur fyrst fyrir ofan 33 000 kr. mánaðartekjur. Síðan fer þessi munur að sjálfsögðu lækkandi eftir því sem ofar dregur í launastigann.

En af þessu geta menn séð að hérna er ekki um neitt smámál að ræða. Hérna er um verulegt hagsmunamál að ræða fyrir almenning. Það er að vísu svo að ef lánskjaravísitala vex hraðar en atvinnutekjurnar og kjör fólks eru að versna hagnast fólk frekar á þessu, en ég óttast að stjórnvöld mundu sjá við þeim leka með því að leiðrétta stærðirnar í lögum þegar svo stæði á, en væru aftur á móti miklu tregari og seinni til að koma fram leiðréttingum þegar hreyfingin væri hagstæð fyrir ríkissjóð en óhagstæð fyrir skattgreiðendur. Við höfum reynslu af því, ekki hvað síst frá seinasta ári, að skattvísitala hækkaði miklu minna en hún átti að gera. Það minnir okkur á að það er viss tilhneiging hjá stjórnendum ríkisins að hækka skatta með þessum hætti. Ég sé ekki betur en að það hljóti að vera miklu sanngjarnara og eðlilegra að miða í þessu tilviki við kauptaxtavísitölu.

Virðulegi forseti. Ég hef lýst yfir mjög eindregnum stuðningi við staðgreiðslu skatta. Ég tel líka að það sé framfaraspor að einfalda skattkerfið. Við Alþýðubandalagsmenn munum greiða atkvæði með staðgreiðslufrv. sem hér liggur fyrir. Við höfum hins vegar bent á að ekki sé nein breyting til batnaðar hvað varðar skattbyrði af almennum launatekjum. Við höfum borið fram fjöldamargar brtt. við tekjuskattsfrv., höfum bent á ýmsa ágalla sem á því eru og munum láta það ráða afstöðu okkar til tekjuskattsfrv. hvaða útreið þessar till. okkar fá. En í öllu falli munum við ekki treysta okkur til að greiða frv. atkvæði verði þær felldar.