09.03.1987
Efri deild: 51. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3805 í B-deild Alþingistíðinda. (3423)

342. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. 3. minni hl. fjh.- og viðskn. (Stefán Benediktsson):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 785 um frv. til l. um tekju- og eignarskatt sem 3. minni hl. fjh.og viðskn.

Í upphafi máls míns vil ég byrja á að þakka formanni nefndarinnar og samnefndarmönnum mínum fyrir samstarfið í þessu máli sem hefur verið nokkuð átakamikið. Ekki vegna þess að ágreiningur manna væri ýkjamikill heldur fyrst og fremst vegna þess að þar var gert nokkuð margt á stuttum tíma. Einnig vil ég þakka viðmælendum nefndarinnar sem sýndu okkur þolinmæði í því tímahraki sem við vorum í því að mikið lá á að afgreiða þetta mál og eins að þakka starfsmönnum ráðuneytisins sem hafa verið okkur innan handar við að ganga frá þeim álitum og till. sem fram eru komnar.

Það fer ekkert á milli mála að hraðinn á gerð þessa máls alls er mikill og er sjálfsagt ekki hægt að mótmæla því að hann er trúlega of mikill því að betur hefði frv. verið komið fram fyrr á þessu þingi þannig að allir þeir aðilar sem um þetta mál hefðu getað og hefðu viljað fjalla hefðu átt þess kost að koma skoðunum sínum og athugunum á framfæri. Mér skilst t.d. að það standi til núna að skattanefnd ASÍ þingi á morgun um frv. sem verður þá væntanlega komið í gegnum þessa deild. Þeir mega þá hafa sig alla við ef þeir ætla að hafa áhrif á frv. meðan það er í höndum Nd. ef þingstörfum lýkur í lok þessarar viku eða snemma í næstu viku.

Það voru alveg efni til þess að leggja þetta frv. fram fyrr, þ.e. áður en til kom krafa eða skilyrði aðila vinnumarkaðarins um gerð frv. af þessu tagi eða frumvarpa, því að sú nefnd sem skilaði af sér í apríl í fyrra og fjallað hafði um skattsvik lagði mikla áherslu á að eitt af stærstu skrefunum sem stíga mætti í átt til að draga úr skattsvikum hér á landi og þar með bæta tekjustöðu ríkissjóðs væri einmitt að einfalda álagningu og innheimtu skatta.

Fjh.- og viðskn. fjallaði um þetta mál á mörgum fundum og fjallaði enn fremur samhliða um frv. til l. um staðgreiðslu opinberra gjalda og frv. til l. um gildistöku laga um staðgreiðslu. Til viðræðna við nefndina komu fulltrúar frá fjmrn. og ríkisskattstjóra, ASÍ, VSÍ, BSRB og Félagi áhugamanna um úrbætur í húsnæðismálum. Það var nokkuð einróma tónn í máli allra viðmælenda nefndarinnar á þá leið að menn voru yfirleitt hlynntir staðgreiðslubreytingunni, en höfðu ýmsa fyrirvara á samþykki sínu á álagningu tekju- og eignarskatts og framkvæmd staðgreiðslunnar. Flestir aðilanna bentu á nauðsyn þess að vinna að ítarlegri könnun á áhrifum frv. á tímanum fram að gildistöku þess.

Heildaráhrif breytinga frv. á tekjur ríkissjóðs virðast vera þau að þær lækka um 4-7,5% miðað við tekjur 1987 skv. núgildandi lögum. Þessi niðurstaða er þó að því leyti óviss að sú tekjulækkun sem menn reikna með að verði af völdum frádráttarliða eins og hlunnindagreiðslum er mjög óviss og e.t.v. ekki hægt að áætla hana fyrr en reynsla hefur komið af framkvæmd frv. Það var erfitt að sjá af þeim gögnum sem fyrir lágu hvort verulegur flutningur væri á greiðslubyrði milli fólks með mismunandi tekjur eða aðstæður þar sem beinn samanburður á núgildandi lögum með öllum sínum tilbrigðum er erfiður við það einfalda kerfi sem nú er verið að leggja til. Þó mátti greina það að barnafjölskyldur virðast a.m.k. ekki bæta stöðu sína skv. þessu frv. nema síður sé og það virtist á þeim gögnum sem koma m.a. frá Þjóðhagsstofnun að um tilflutning væri að ræða frá einstaklingum og einhleypu fólki til léttingar til barnafólks til íþyngingar. Í fljótu bragði virðast ívilnandi áhrif þessa frv. koma einna helst einhleypu fólki til góða. En raunhæfur samanburður verður sjálfsagt ekki gerður fyrr en undir lok næsta árs svo að fullnægjandi sé og gengur enginn þess gruflandi að breytingar á frv. til laga um tekju- og eignarskatt halda áfram að vera viðfangsefni þinga í framtíðinni. Það er langt í frá að þessi frv. nægi til þess að taka skattlagningu pólitískt út fyrir sviga, enda ekki kannske að því stefnt.

Það er tilfellið að þau atriði sem ekki er tekið á í þessu frv. og fylgifrv. hafa trúlega meiri áhrif á afstöðu manns til frv. en frv. sjálft. Þá ber fyrst að telja að sú ríkisstjórn sem enn situr hefur margítrekað lofað afnámi tekjuskatta af almennum launum. Þetta loforð tengist loforðum um samdrátt í ríkisútgjöldum. Ástand ríkissjóðs leyfir ekki mikinn samdrátt og þannig hlutu a.m.k. seinustu loforð manna um tekjuskattsafnám að tengjast auknum tekjum á öðrum vettvangi. Ríkisstjórnin hefur heykst á því að fylgja eftir virðisaukaskattsfrv. eða breytingum á gildandi söluskattslögum þannig að ekki verður tekna að vænta úr þeirri átt. Ríkisstjórnin hefur líka heykst á frumvarpsflutningi um skattlagningu á fjármagns-, eigna- og hlunnindatekjur ásamt skattlagningu á fyrirtæki og því verður ekki hægt að flytja greiðslubyrði af launafólki yfir á herðar þeirra sem meira mega sín fjárhagslega á meðan þessi ríkisstjórn situr.

Fyrirhuguð innheimta skatta af ökutækjastyrkjum og dagpeningum mun líklega, eins og ég gat um áðan, skapa fleiri vandamál en hún leysir. Þessi aðferð mun t.d. leggja mikla vinnu á starfsmenn skattstofa auk þess sem þeir sem móttaka slíkar greiðslur með eðlilegum hætti sem endurgreiðslu á útlögðum kostnaði verða fyrir verulegum óþægindum og útgjöldum. Það er líklega óraunsæ bjartsýni að ætla að slíkar aðferðir muni ekki leiða til breytinga á formi slíkra greiðslna og þá líklega ekki ná tilætluðum árangri yfirvalda.

Það er ljóst að greiðslur í formi ökutækjastyrkja og dagpeninga, einkum þó ökutækjastyrkja, eru stórlega misnotaðar hér á landi. Það er þó verulegur fjöldi sem fær þessar greiðslur eðlilega ákvarðaðar miðað við þau útgjöld sem þeir hafa orðið fyrir. Skattyfirvöld hafa reynt að beita nokkru aðhaldi á þessu sviði, en árangur hefur ekki orðið sem skyldi og verður ekki séð að hin fyrirhugaða skattlagning breyti miklu í því efni. Hins vegar er hætta á að þeir sem síst skyldi verði fyrir barðinu á þeim aðferðum sem fyrirhugað er að nota, þ.e. þeim sem fá eðlilega greiðslu á útlögðum kostnaði. Á þessu vandamáli þarf að finna aðra og raunsærri lausn.

Í athugasemdum með frv. um breytingu á lögum um tekju- og eignarskatt er gerð ítarleg grein fyrir þeim breytingum sem ætlað er að gera á skatt- og útsvarsstofni og er ekki tilefni til að gera athugasemdir við þá útreikninga hér. Þó verður að telja að áætlun skattstofns með tilliti til þess sem að framan er sagt vegna ökutækjastyrkja, dagpeninga og annarra hlunninda sé byggð á bjartsýni.

Í 4. gr. frv. um gildistökuna eru nokkur athyglisverð ákvæði og þá leyfi ég mér, frú forseti, að sveifla mér örlítið á milli mála. Þar er m.a. kveðið á um að þeim mönnum sem ber lögum samkvæmt að telja sér til tekna endurgjald sé óheimilt að gera það á árinu 1987 ef það myndar tap í rekstrinum. Á það hefur verið lögð áhersla á undanförnum árum að þessir aðilar reikni sér tekjur eftir ákveðnum reglum þótt um tap sé að ræða á rekstri þeirra og greiði af þeim skatt innan ákveðinna marka. Samkvæmt þessu frv. mega þeir það ekki á árinu 1987. Þessi ákvæði eru í hæsta máta óviðeigandi og valda mismunun milli manna og fyrirtækja eftir eignaraðild.

Í staðgreiðslufrv. eru ítarleg ákvæði um álag og dráttarvexti vegna vangreiðslna. Hins vegar virðist aðeins gert ráð fyrir almennum sparisjóðsvöxtum á ofgreiðslum, en ljóst er að talsvert verður um ofgreiðslur í þessu kerfi. Almennir sparisjóðsvextir hafa eins og menn vita lengst af ekki nægt til að halda í við verðlagsbreytingar og því verður að telja að þessi ákvæði séu óréttlát gagnvart gjaldendum. Hvað framkvæmd þessara laga varðar er stjórnun staðgreiðslunnar í höndum ríkisskattstjóra og síðan er skattstjórum ætlað að hafa eftirlit með höndum. Í frv. er látið að því liggja að talsverður sparnaður verði við hina almennu framkvæmd álagningarinnar vegna einföldunar og muni þar af leiðandi starfskraftar skattstofa nýtast til eftirlits með staðgreiðslunni. Þetta kom m.a. líka fram í máli hæstv. ráðh. þegar hann mælti fyrir þessu máli. Það verður að draga í efa að um raunverulegan sparnað verði að ræða á skattstofum við almenna framkvæmd og ekki liggur nægilega fyrir enn þá hvernig framkvæma á þær breytingar sem verða á verkefnum skattstofanna og innheimtumanna. Því er um nokkra áhættu að ræða vegna skamms undirbúningstíma og minnir það mann eina ferðina enn á að þetta frv. hefði betur verið komið fram nokkru fyrr.

Með þessum þremur frv. er gert ráð fyrir að gerðar verði veigamiklar og jafnvel nokkuð óæskilegar breytingar á ákvæðum laga um vald skattyfirvalda til að ákveða gjaldendum stofna til greiðslu skatta og verður það að teljast nokkuð athyglisvert. Þetta á t.d. við um 6. gr. frv. um staðgreiðslu og 4. gr. frv. um gildistökuna. Samkvæmt þeim breytingum sem nú er verið að gera á 59. gr. skattalaganna getur skattstjóri að eigin mati hækkað reiknað endurgjald án þess að gjaldandi sé beðinn um skýringar á því sem kann að þykja óeðlilegt. Það verður að telja varhugavert líka og reyndar óþarft að auka verulega vald skattstjóra, ekki síst af þeim ástæðum að skattstofurnar eru nú þegar um þessar mundir illa í stakk búnar til að fara með slíkt vald, m.a. vegna skorts á sérhæfðu starfsfólki til faglegrar umfjöllunar mála, og með tilliti til þess að yfirvöld ætla ekki að láta þessa framkvæmd kosta meira en kostað hefur verið til framkvæmdarinnar hingað til verður að ætta að ekki verði mögulegt innan þess ramma að standa við þær fyrirætlanir sem af þessum atriðum leiða.

Eins og áðan sagði er yfirstjórn staðgreiðslunnar í höndum ríkisskattstjóra og hann á að setja skattstjórunum starfsreglur. Hann á að hafa eftirlit með framkvæmd laganna, en hann á einnig að úrskurða sektir fyrir brot á lögunum skv. 31. gr. frv. nema málinu sé vísað til dómstólanna og úrskurður ríkisskattstjóra er fullnaðarúrskurður. Það sektarvald sem gert er ráð fyrir að fá ríkisskattstjóra í hendur skv. frv. er mjög víðtækt, sbr. 31. gr. frv. Það getur ekki talist eðlilegt að hið víðtæka sektarvald sé fengið í hendur þeim aðila sem ábyrgð ber á framkvæmdinni og hefur með höndum eftirlit með greiðslum og framtölum. Með þessu er þó alls ekki verið að setja fram vantraust á embættismanninn sem í þessu embætti situr heldur er bent á að þetta fer einfaldlega illa saman. Í lögum um tekju- og eignarskatt er sektarvaldinu fyrir komið með öðrum hætti, sbr. 108. gr. núgildandi laga.

Með tilkomu staðgreiðslu opinberra gjalda er stigið verulegt framfaraskref í innheimtu opinberra gjalda þegar til lengri tíma er litið að því gefnu að framkvæmdin takist vel og náð verði þeim markmiðum sem að er stefnt. Því miður virðist sem þetta frv. hafi ekki fengið nægilegan undirbúning þótt hér hafi mikið starf verið unnið á mjög skömmum tíma. Nokkrum efasemdum verður því að lýsa varðandi undirbúning framkvæmdarinnar, en fjölmarga þætti þessa máls á eftir að vinna og á eftir að skýra. Fróðlegt hefði verið að fá upplýsingar um þær áætlanir sem gerðar hafa verið t.d. um einstaka þætti undirbúningsins, svo sem nánar um breytingu verkefna skattstofanna og innheimtumannanna, skipulag eftirlits skattstjórans, þjálfun mannafla, hönnun tölvukerfa sem halda eiga utan um staðgreiðsluna og skiptingu milli ríkis og sveitarfélaga og margt fleira. Það er skaði ef farið yrði af stað hér með gott mál án nægilegs undirbúnings.

Svo maður snúi sér þá, frú forseti, beint að því frv. sem hér er á dagskrá hef ég lagt fram brtt. við frv. í nokkrum liðum og vil ég leyfa mér að fara yfir þær.

Í fyrsta lagi er augljóst að frv. mismunar þeim sjómönnum sem eru í fríu fæði hjá útgerð og þeim sem fá fæðispeninga. Því er flutt brtt. við 2. gr. frv. svo að jafnræði megi ríkja með sjómannastéttinni allri. Þessi brtt. er við 2. gr. a-lið. Brtt. hljóðar svo: „Við 2. gr. A-liður orðist svo: 2. málsl. 5. tölul. orðist svo: Sama gildir um greiðslur sem sjómenn á íslenskum fiskiskipum fá frá útgerðarfyrirtækjum til að standa undir fæðiskostnaði um borð í fiskiskipum.“

Þetta ætti að tryggja að skattyfirvöld litu fæðispeninga og frítt fæði sömu augum þannig að þessum aðilum verði ekki mismunað við álagningu.

Eins og ég gat um í máli mínu áðan er ekki að finna í frv. neinar hugmyndir um tilfærslu á skattbyrði milli skattgreiðenda í heild þar sem frv. tekur aðeins til hluta skattgreiðenda eða réttara sagt til hluta skattgreiðslna. Því sýnast ekki vera efni til að flytja brtt. um lækkun skattprósentu eða hækkun persónuafsláttar fyrr en heildarlöggjöf um eignir, eignatekjur, um skatta a eignir, eignartekjur a fyrirtæki er komin fram á hausti komanda. Alþfl. ætlast til þess að þar megi auka tekjur ríkissjóðs um 4-500 millj. kr. og nota þá tekjuaukningu til að aflétta sköttum af almennum launatekjum. Það verður að teljast frekar heilbrigt sjónarmið í blönduðu hagkerfi að gera þá kröfu til fyrirtækjaeigenda og fjármagnseigenda að umsvif þeirra skili þeim arði sem nægi til að létta skattbyrði launþega þeirra.

Í núgildandi lögum ríkir sá andi að þó nokkurt tillit er tekið til þeirra sem eru að stunda nám, eru að hefja störf á vinnumarkaði eða til þeirra sem eru að ljúka starfi. Það verður ekki séð að það sé nein ástæða til að farga þessum afar mannúðlegu sérkennum á íslenskum skattalögum og því flytjum við brtt. við viðeigandi greinar frv. þar að lútandi.

Við 3. gr. frv. flyt ég brtt. Hana er að finna á bls. 2 í þskj. 784. Þar bætist við nýr tölul. er orðist svo: Tekjur samkvæmt 1. tölul. a-liðs 7. gr., þegar frá þeim hafa verið dregnar þær fjárhæðir sem um ræðir í 1.-3. tölul. þessa stafliðar, sem maður hefur aflað á síðustu 12 starfsmánuðum sínum áður en hann lætur af störfum vegna aldurs. Frádráttur þessi skal þó aldrei vera hærri en 700 þús. kr., enda hafi viðkomandi náð 55 ára aldri eða öðlast rétt til eftirlauna eða ellilífeyris úr lífeyrissjóði. Réttur til frádráttar skv. 1. málsgr. kemur ekki til greina nema einu sinni fyrir hvern mann. Frádrátt skv. 1. málsgr. skal einnig veita vegna framteljanda sem fellur frá og hafði fyrir heimili að sjá og hafði ekki nýtt þessa frádráttarheimild áður.

Þessi brtt. er reyndar nokkurn veginn samhljóða fyrri grein sem er að finna í 30. gr. núgildandi laga, staflið A, 9. tölul. að öðru leyti en því að framreiknuð upphæð þessa frádráttar mun víst láta nærri að vera á milli 1400 og 1500 þús. kr. í dag og þykir ekki ástæða til þess að sú upphæð sé svona há. Þess vegna er gerð tillaga um að hún sé á núgildi 700 þús. kr.

Hvað viðvíkur hagsmunum námsmanna hef ég leyft mér að flytja brtt. við 10. gr. um að við 1. mgr. bætist nýr málsl. er orðist svo:

„Ráðherra er þó heimilt að tvöfalda í 12 mánuði persónuafslátt þeirra námsmanna sem náð hafa 21 árs aldri frá og með þeim tíma er þeir ljúka námi.“

Þetta ákvæði kemur þá í stað fimm ára reglunnar svokölluðu þar sem þeim námsmönnum sem ekki höfðu getað nýtt sér möguleika sína til persónufrádráttar meðan á námi stóð var heimilt að draga ákveðna upphæð frá tekjum sínum a næstu fimm árum eftir að þeir höfðu lokið námi til að koma á móts við þann vannýtta persónufrádrátt sem fallið hafði dauður á meðan þeir ekki höfðu neinar tekjur og þá til þess líka að hjálpa þessum aðilum með einhverju til að ráða við þær þungu byrðar sem þeir bera sem nýkomnir eru heim úr námi, e.t.v. með fjölskyldu, og nokkurn veginn neyddir til þess vegna aðstæðna hér á landi að kaupa eða byggja yfir sig samtímis því að þeir eru að greiða skuldir sínar vegna námsins.

Fram kom í viðræðum við fulltrúa sjómanna að sá frádráttur sem frv. gerir ráð fyrir að sjómenn skuli njóta er allt of lítill og því er flutt till. um hækkun hans. Að vísu hefur meiri hl. nefndarinnar þegar flutt till. um 30% hækkun hans, en fram kom mjög eindregið í máli fulltrúa sjómanna að sú hækkun væri að þeirra mati ekki nóg og því flyt ég brtt. við 10. gr. um að 2. málsl. 1. mgr. B-liðar orðist svo: Sjómannaafsláttur skal vera 220 kr. fyrir hvern dag sem maður telst stunda sjómannsstörf.

Við 3. mgr. A-liðar hef ég einnig gert það að tillögu minni að við bætist nýr málsl. er hljóði svo: Ráðherra er þó heimilt að setja ákvæði í fyrrgreinda reglugerð um millifærslu persónuafsláttar milli mánaða hjá námsmönnum með hliðsjón af takmörkuðum vinnutíma þeirra ár hvert.

Hér er um það að ræða að námsmenn hafa nokkra sérstöðu á vinnumarkaði þar sem þeir eru tekjulausir eða tekjulitlir 8 mánuði ársins að jafnaði, en hafa svo tekjur eins og aðrir launamenn 3-4 mánuði ársins. Ef ekki yrði neitt að gert gjalda þeir skatta af þessum tekjum sínum þá mánuði sem þeir ynnu og fengju þá síðan endurgreidda rentulitla í byrjun næsta skattárs. Hér er gerð tilraun til að opna möguleika fyrir ráðherra að millifæra persónuafslátt milli mánaða á staðgreiðsluári. T.d. væri hægt að hugsa sér það þannig að þessa 3-4 sumarmánuði hefðu námsmenn tvöfaldan persónuafslátt á sínu skattkorti þannig að með fjögurra mánaða vinnu væru þeir búnir að nýta 8 mánaða persónuafsláttarmöguleika. Það er erfitt að ákveða á þessu stigi málsins hver millifærsla persónuafsláttarins milli mánaða skuli vera. Það geta menn betur ákveðið þegar þeir sjá vel hver afrakstur námsmanna er af störfum sínum á ári hverju að jafnaði og haga síðan þessari millifærslu í samræmi við það.

Í 11. gr. frv. er fjallað um þann þátt þessa frv. sem mjög hefur verið rætt um, þ.e. húsnæðisbæturnar. Til að byrja með vil ég taka undir með þeim öðrum, sem hér hafa talað, sem bent hafa á að það er mjög margt sem mælir með því að húsnæðisbæturnar eigi í raun og veru ekki heima í þessu frv. og væru betur komnar annars staðar. Hérna er, eins og oft hefur verið bent á, um niðurgreiðslu vaxta að ræða sem ætti miklu frekar heima í lögum um Húsnæðisstofnun. En ef við göngum út frá því að þetta sé hluti af frv. og því verði ekki breytt í bráð má draga í efa að þessi frvgr. skili öðrum árangri en þeim að breyta einfaldlega ekki stöðu ríkissjóðs. Það eru þau áhrif sem sérstaklega hefur verið sóst eftir. Húsbyggjendum eða -kaupendum sem keypt hafa fyrir 1985 skilar hún styttingu þess tíma sem þeir áttu von á að njóta vaxta- og verðbótafrádráttar og ef horft er til þeirra sem keyptu 1981-1984 er það virkilega harður kostur. Í annað sinn á sex árum verða þeir hér með fyrir barðinu á aðgerðum ríkisvaldsins með mjög svipuðum hætti í raun og veru. Fyrst er það kjaraskerðingin 1983 og síðan misgengi lána og launa og nú í annað sinn misgengi á afborgunartíma lánanna milli lána og launa.

Þeir sem eru að kaupa í annað eða þriðja sinn, þ.e. þegar fjölskyldan er að stækka eða er orðin hvað stærst og heimilistekjurnar þar af leiðandi e.t.v. hlutfallslega minnstar, eru settir hjá og þannig nær þetta frv. e.t.v. ekki til þeirra sem helst þyrftu þess með. Þess vegna hef ég leyft mér að flytja brtt. við þessa grein með það að markmiði að reyna að ná til þeirra að nokkru sem hvað mest. munu þurfa á aðstoð að halda. Þessi grein er í tölul. 3 á þskj. 784 um að við 11. gr. 1. mgr. B-liðar verði um umorðun að ræða á þann veg að sagt verði: Beri maður sem skattskyldur er skv. 1. gr. vaxtakostnað, sbr. 51. gr., vegna öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota á hann rétt á sérstökum bótum, húsnæðisbótum.

Þetta er raunverulega samhljóða frv., en síðan kemur breytingin: Við fyrstu íbúð sem maður eignast skal reikna fullar húsnæðisbætur en hálfar sé um kaup annarrar eða þriðju íbúðar að ræða.

Hér með er þá lagt til í fyrsta lagi að þau skilyrði sem um ræðir í frv. og tölusett eru 1, 2 og 3, um að hér sé um að ræða fyrstu íbúð sem viðkomandi eignast, að íbúðin sé byggð eða keypt til eigin nota, að íbúðin sé lánshæf samkvæmt reglum Húsnæðisstofnunar ríkisins falli niður að undanskildum þeim sjálfsagða hlut að maður sé að fjalla um íbúð sem byggð er eða keypt til eigin nota.

Í samræmi við þetta flyt ég líka í 7. lið á þskj. 784 brtt. við ákvæði til bráðabirgða II um að orðin „í fyrsta sinn“ falli niður, en það er í samræmi við brtt. sem hér er flutt.

Efnahagslíf Íslendinga er eins og allir þekkja nokkuð sveiflukennt. Það verður því að telja að nokkur hætta sé á því að 18. gr. frv. geti haft nokkuð önnur áhrif en höfundar frv. ætlast til. Þá er ég ekki að gera þeim upp vondan ásetning. Þvert á móti. Það er tvímælalaust góð hugsun sem felst að baki því að búa til ákveðna sjálfvirkni í breytingar á þeim fjárhæðum sem um ræðir í 68. og 69. gr., en þessi sjálfvirkni getur einfaldlega ekki tekið nægilegt tillit til annars vegar þeirra oft og tíðum miklu tekjubreytinga sem geta orðið á milli ára, þ.e. þess mikla misgengis sem getur orðið á lánskjaravísitölu og kaupmáttarþróun, og því er nokkuð líklegt að löggjafinn eða stjórnvöld verði að grípa inn í, ég segi ekki kannske árlega, en nokkuð oft til að reyna að leiðrétta óæskileg áhrif af þessu misgengi. Það kom reyndar fram í máli viðmælenda okkar að menn reikna í raun og veru með því að það verði nánast árvisst verkefni löggjafans að skoða breytingarnar á þessum fjárhæðum milli ára og taka afstöðu til þess hvort þar séu hlutirnir að þróast til óæskilegrar áttar. Áhrif þess sem lagt er til í frv., þegar þau eru skoðuð í ljósi fortíðarinnar, benda til þess að kaupmáttur tekna fólks sem er með tekjur rétt yfir skattleysismörkum sveiflist hlutfallslega mest ef verðlagsbreytingar eru miklar milli ára. Þetta kom reyndar, ef ég man rétt, fram í máli hv. 3. þm. Norðurl. v. líka. Þess vegna leggjum við til að Alþingi ákveði enn sem fyrr skattvísitölu á miðju viðmiðunartímabilinu með tilliti til undangenginnar þróunar og áætlana um þjóðarhag á komandi árum. Þar með leggjum við til orðalagsbreytingu á 1. mgr. um að hún orðist svo:

Fjárhæðum sem um ræðir í 68. og 69. gr. skal breytt 1. jan. ár hvert í samræmi við skattvísitölu sem ákveðin er í fjárlögum ár hvert.

Og síðan í b-lið þeirrar sömu brtt. að 1. tölul. 1. efnismgr. falli brott, þ.e. þar sem segir í frv.: „Hinn 1. jan. á staðgreiðsluári skulu þær taka hlutfallslegri breytingu sem nemur mismun á lánskjaravísitölu“ o.s.frv.

Aftur á móti má telja nokkuð eðlilegt að 1. júlí verði breytingin á fjárhæðunum gerð í samræmi við þróun lánskjaravísitölu. Í sjálfu sér sér maður ekki ástæðu til að vefengja notkun hennar frekar en einhverrar annarrar, sérstaklega ef maður hefur leyst ákveðinn vanda með því að um áramót ákveður Alþingi skattvísitöluna og horfir þá í einu til beggja átta, þ.e. í fyrsta lagi til þróunar undanfarandi sex mánaða ef viðmiðunartímabilið er frá 1. júlí til 1. júní, og spáir síðan með tilliti til fjárlagagerðar og áætlana um þjóðarhag sex mánuði fram í tímann við setningu skattvísitölunnar um áramót.

Frú forseti. Það dregur nú að lokum, en þó eru tvö atriði sem ég vil taka sérstaklega fyrir undir lokin. Með tilliti til þess að með sex ára ákvæðunum í 11. gr. er verið að skapa ríkissjóði tekjur að því tímabili loknu sem hann annars ekki átti von á og með tilliti til þess að með sex ára reglunni verða þeir verst úti sem harðast urðu fyrir barðinu á misgengi lána og launa á árunum 1982-1984 og með tilliti til þess að það er yfirlýst áform stjórnvalda að menn tapi ekki neinu við umskiptin höfum við leyft okkur að flytja brtt. við ákvæði til bráðabirgða I. Þessi breyting er ekki stórvægileg, en hún getur haft allnokkur áhrif.

Hún er um það að orðin „í allt að sex ár talið frá og með árinu 1988“ í 1. mgr. falli einfaldlega brott þannig að réttur þeirra manna sem njóta vaxtafrádráttar í dag haldist áfram til loka þess tíma sem þeir höfðu upphaflega rétt til að njóta þessa frádráttar. Við teljum að það sé a.m.k. betri kostur fyrir þá að horfa fram á í augnablikinu en sá að vita að þeir missa þessa aðstöðu innan næstu sex ára, en auðvitað verð ég að lýsa því yfir samtímis að við erum reiðubúnir að taka undir hverja þá aðra hugmynd sem viðheldur sem næst þeim rétti sem þessir menn höfðu reiknað með og hugsanlega leysir þennan vanda með einhverjum öðrum hætti.

Efni þessa frv. er, eins og ég gat í upphafi máls míns, komið frá síðustu kjarasamningum og að hluta til líka fyrir tilverknað skýrslunnar um könnun á umfangi skattsvika sem lögð var fyrir Alþingi 18. apríl s.l. Í skattsvikaskýrslunni varð niðurstaðan sú eins og menn muna að ríkissjóður hefði orðið af 2500-3000 millj. kr. eða 7-8% af heildarskatttekjum á árinu 1985. Lækka hefði mátt heildarskattbyrði sem hlutfall af landsframleiðslu um 9,4% ef þessum tekjum hefði verið náð. Enn fremur kom í ljós að mestar líkur voru á skattsvikum í tengslum við svokallaða dulda atvinnustarfsemi í ákveðnum starfsgreinum.

Nefndin sem samdi skattsvikaskýrsluna taldi helstar ástæður skattsvika vera flókið skattkerfi, óljóst réttlæti skattalaga vegna fjölgunar ívilnunarákvæða einstakra hópa, há skattahlutföll og opinber höft á einstökum sviðum.

Þegar þessi skattsvikaskýrsla kom út og var hér til umræðu á þingi lofaði fjmrh. opinberlega verulegum úrbótum í frumvarpsformi, jafnvel strax á þegar liðnu haustþingi. Ekkert slíkt frv. leit dagsins ljós. Þó að líta megi á staðgreiðslu launaskatts sem hluta af einföldun skattakerfis samkvæmt kröfum skattsvikanefndarinnar verður það alls ekki til þess að bæta skattvitund manna ef önnur skattheimta verður ekki lagfærð með sömu markmið í huga fyrir gildistöku þessara frv. Þess vegna leggjum við til að samþykkt verði nýtt ákvæði til bráðabirgða IV er skuldbindi stjórnvöld til að koma á samræmdri heildarlöggjöf um skattheimtu fyrir næstu áramót og bæta tekjumöguleika ríkissjóðs á næsta ári með hertu skatteftirliti.

Jafnaðarmennska tekur til miklu fleiri þátta en efnalegs jafnaðar, en um þann þátt mannlegrar tilveru sem við erum hér að fjalla á að gilda sú grundvallarhugsun að það megi réttlæta efnalegan ójöfnuð manna með því einu að efni þeirra betur settu komi þeim verr settu til góða.

Að þessu sögðu, frú forseti, mælir 3. minni hl. nefndarinnar með samþykkt frv. svo breytts.