09.03.1987
Efri deild: 51. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3814 í B-deild Alþingistíðinda. (3424)

342. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jón Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. gerði grein fyrir áliti meiri hl. nefndarinnar í upphafi þessarar umræðu. Ég er aðili að því meirihlutaáliti og þarf í rauninni ekki mjög miklu við hans framsögu að bæta. Ég vil þó árétta nokkur atriði varðandi afstöðu okkar framsóknarmanna til þess máls sem hér er til umræðu.

Þingflokkur Framsfl. styður þá kerfisbreytingu í skattamálum sem hér er unnið að og gerði ég raunar grein fyrir afstöðu hans við 1. umr. málsins. Þingflokkurinn og fulltrúar hans í þessari deild hafa unnið að þessu máli með þær meginlínur í huga að lögfesta þetta nýja kerfi þó að ýmsum atriðum verði vísað til frekari útfærslu og afgreiðslu ef þurfa þykir á haustþingi, hverjir sem þá sitja hér í stólum. Það er skoðun okkar að tímabært sé að taka þessa ákvörðun og raunar samkomulag þar um. Það hefur ekki verið um það deilt hér. Þetta vildi ég undirstrika.

Hinu er ekki að leyna að tíminn til að fjalla um þá miklu breytingu sem hér um ræðir hefur verið mjög skammur. Hafa verið í gangi útreikningar á ýmsum atriðum varðandi þetta mál. Því starfi þarf að halda áfram og gera sér gleggri grein fyrir fjölmörgum atriðum varðandi þessa kerfisbreytingu. Nál. meiri hl. kemur reyndar inn á nokkur slík atriði sem vísað er til nánari útfærslu áður en þessi kerfisbreyting tekur gildi um næstu áramót.

Ég vísa til þess í nál. að það þarf að endurskoða álagningarkerfi frv. með hliðsjón af upplýsingum sem álagning opinberra gjalda á árinu 1987 leiðir í ljós. Þetta vil ég undirstrika. Einnig að það er brýn nauðsyn að kanna sérstaklega ákvæði laganna um húsnæðisbætur og vaxtafrádrátt. Þetta eru mjög stór atriði og nauðsynlegt að gera sér glögga grein fyrir áhrifum þeirra og gera þá úrbætur ef þurfa þykir.

Ég vil einkum undirstrika þetta og einnig atriðin varðandi námsmenn og námsfrádrátt. Það ber að tryggja að þessir hópar verði ekki lakar settir eftir þessa kerfisbreytingu en áður var.

Einnig vil ég undirstrika sérstaklega það sem kom reyndar fram í framsögu hv. formanns fjh.- og viðskn. að það þarf að athuga sérstaklega hvort megi koma á móts við þann hóp manna sem verst varð úti vegna misgengis lánskjaravísitölu og launa. Þó verð ég að segja að ég tek kannske ekki að öllu leyti undir kenningar hv. 4. þm. Norðurl. v. í efnahagsmálum, en hann hefur mjög ákveðnar skoðanir á þeim og peningamálum almennt. En það er annar handleggur.

Ég legg áherslu á að við lítum á þessa kerfisbreytingu sem hluta í heildarendurskoðun skattakerfisins. Við lítum á hana sem fyrsta skrefið og hér verður að halda áfram við heildarendurskoðun skattakerfisins í landinu. Ég legg áherslu á þann fyrirvara í nál. sem er á bls. 3 og hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Að lokum vill meiri hl. nefndarinnar árétta það sem fram kemur í athugasemdum með frv. um heildarendurskoðun beinna skatta hér á landi. Lítur hún svo á að frv. þetta og fylgifrv. þess séu í raun aðeins fyrsta skrefið í þessari endurskoðun.“

Ég þarf ekki að hafa um þetta fleiri orð en legg mikla áherslu á þetta atriði.

Ég vil koma í framhaldi af þessu að framkvæmd þessara nýju laga og skattalaga almennt. Framkvæmdin skiptir mestu máli. Það þarf að athuga sérstaklega starfsaðstöðu og mannafla þeirra sem eiga að vinna að þessari skattkerfisbreytingu til þess að framkvæmdin verði virk og til þess að hún verði réttlát. Skattsvik í þjóðfélaginu eru talin vera mjög almenn og hafa verið gefnar út opinberar skýrslur þar um. Það er ekki vegna þess að skattalögin sem í gildi eru gefi ekki tækifæri til að taka á skattsvikum. Hins vegar hefur það ekki verið gert sem skyldi og aðstaða þeirra sem eiga að framkvæma skatteftirlit hefur verið mjög bágborin. Í kjölfar nýrra skattalaga og í kjölfar skattkerfisbreytingarinnar þarf að gera gangskör að því að bæta aðstöðu ríkisskattstjóra og skattstofanna úti á landi til að hafa uppi eftirlit og framkvæma þessi nýju lög sem ég trúi að verði til bóta.

Skattkerfið sem tekið er upp nú byggir í meginatriðum á þeim forsendum að halda núverandi skattbyrði óbreyttri eða sem næst óbreyttri þó gert sé ráð fyrir nokkru léttari skattbyrði en nú er. Skattbyrðin er pólitísk ákvörðun sem í sjálfu sér er óháð þeirri kerfisbreytingu sem hér er um að ræða. Ég er almennt talað þeirrar skoðunar að við komumst ekki hjá því að leggja fram aukið fé til samneyslunnar í þjóðfélaginu ef okkur á að takast að halda uppi því þjónustustigi hins opinbera sem nú er og halda áfram uppbyggingu í opinberum framkvæmdum. Það er þó höfuðmarkmiðið að skattkerfið sé réttlátt, að sú skattheimta sem menn ákveða hverju sinni komi réttlátlega niður og það komist enginn hjá því að greiða það sem honum ber til samfélagsins. Þetta er grundvallaratriði. Það er höfuðnauðsyn að frekari útfærsla, endurskoðun og framkvæmd þeirra laga sem hér eru í burðarliðnum tryggi réttlæti í álagningu skatta og sé aðeins fyrsta skref í endurskoðun sem stuðli að meiri jöfnuði í þjóðfélaginu en nú er.

Í trausti þess að svo verði greiði ég þessu frv. og fylgifrumvörpum þess atkvæði, en ég undirstrika að hér er aðeins um skref að ræða og ýmis atriði þessara mála þurfa nánari skoðunar við og nánari útfærslu áður en skattkerfisbreytingin tekur gildi.