28.10.1986
Sameinað þing: 9. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 380 í B-deild Alþingistíðinda. (343)

Framleiðnisjóður landbúnaðarins

Landbúnaðarráðherra (Jón Helgason):

Herra forseti. Stefnan í þessum málum hefur verið mörkuð í samstarfi við Stéttarsamband bænda. Þau þungu orð sem sumir hv. þm. hafa látið falla um þessa stefnu eru því harður dómur um forustumenn bændasamtakanna sem hafa unnið að því með landbrn. að móta þessa stefnu. Ég held að það sé óhætt að taka undir það, sem hér kom fram áðan, að það er af lítilli þekkingu sem margt hefur verið sagt hér.

Um niðurlagningu á byggð í jaðarbyggðum vil ég aðeins geta þess að af 92 leyfum sem Veiðimálastofnun hefur veitt fyrir fiskeldisstöðvum eru 16 á Vestfjörðum. Þetta er dæmi um nýja uppbyggingu og nýjar búgreinar. Ég taldi upp áðan þau hundruð bænda sem hafa fengið stuðning úr Framleiðnisjóði til uppbyggingar nýrra búgreina. Það er það sem verið er að gera með þessu, eins og ég sagði, auk þess sem reynt er að vinna bug á riðunni.

Ég undirstrika að hér er um mannleg vandamál að ræða og það er reynt eins og frekast er kostur að taka tillit til þess. Af þeim sökum er ekki svo auðvelt að segja í skyndingu um þetta eða hitt svæðið: Þarna skulum við leggja niður búskap. Þess vegna er í fyrsta áfanga leitað eftir þeim sem vilja af frjálsum vilja fara þessa leið og telja sér hag að því. Það eru furðulegar andstæður sem koma fram í þeim málflutningi sem hér hefur verið hafður í frammi.

Ég vil svo að lokum benda á að það hefur aldrei verið gert meira átak í markaðsmálum en á s.l. ári. Úr Framleiðnisjóði var varið mjög miklu fjármagni til að athuga markað erlendis. Því miður bar það ekki raun í bili, en enn þá er verið að leita á fjölmörgum stöðum í fjölmörgum löndum að þeim möguleika. Sem betur fer hefur markaðsöflun hér innanlands borið miklu meiri árangur. Markaðsöflunin og auglýsingin kemur m.a. fram í því að á sumarmánuðunum seldist helmingi meira dilkakjöt í hverjum mánuði í þrjá mánuði en var í vor. Benda má á að í septembermánuði varð mjög mikil aukning á sölu á nær öllum tegundum mjólkurvara, t.d. 26% aukning í osti. Sem betur fer er sölustarfið að bera árangur. Þetta er jákvætt starf. Þess vegna vonumst við til þess að við komumst út úr þessum erfiðleikum án þvingana og lögskipana á einstaka bændur heldur með því að gera tilboð til bænda sem telja sér ávinning að því að fara þessa leið.