09.03.1987
Efri deild: 51. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3818 í B-deild Alþingistíðinda. (3433)

340. mál, staðgreiðsla opinberra gjalda

Frsm. 1. minni hl. fjh.- og viðskn. (Sigríður Dúna Kristmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég ræddi þetta frv. ekki sérstaklega í máli mínu áðan þá er við ræddum um frv. til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt þar sem þáv. forseti gerði ekki grein fyrir því að ætlunin væri að ræða þessi mál öll saman. Ég vil því gera nokkra grein fyrir áliti mínu á þessu máli nú.

Eins og fram kemur í nál. á þskj. 768 hefur það verið eitt af stefnumiðum Kvennalistans frá upphafi að taka upp staðgreiðslu opinberra gjalda hér á landi. Því hefur Kvennalistinn í tvígang flutt till. til þál. um staðgreiðslu opinberra gjalda á þessu kjörtímabili, en þær ekki fengist útræddar. Sú sem nú liggur fyrir þinginu mun vera 38. mál þessa þings.

Kostir staðgreiðslukerfis opinberra gjalda eru þeir helstir í fyrsta lagi að í slíku kerfi myndast ekki skuld hjá skattgreiðanda, í öðru lagi fylgir innheimta skatta hagsveiflunni hverju sinni og í þriðja lagi má ætla að innheimta skatta verði öllu skilvirkari en nú er. Þess ber þó að gæta að með staðgreiðslukerfi er skattheimtu flýtt frá því sem nú er og ef verðbólga fer hjaðnandi er skattheimta í reynd hert og því nauðsynlegt að endurskoða skattprósentuna reglulega með tilliti til verðbólgustigs hverju sinni. Kvennalistinn er því samþykkur staðgreiðslu opinberra gjalda í sjálfu sér og til frekari rökstuðnings þar með þá vísa ég í grg. með 38. máli sem ég nefndi hér áðan.

Meginágallar þess frv. sem hér liggur fyrir eru í fyrsta lagi að frv. nær aðeins til staðgreiðslu tekjuskatts og útsvars launamanna. Vitaskuld hefði verið eðlilegast að láta skattkerfisbreytinguna ganga yfir alla beina skattlagningu í landinu í einu en ekki aðeins hluta hennar, eins og þetta frv. gerir ráð fyrir, en í frv. er ekki tekið á skattlagningu á eignir, fjármagns- og eignatekjur né á skattlagningu fyrirtækja. Miðað við þau rök sem eru sett fram í grg. með frv. þess efnis að einn meginkostur skattkerfisbreytingarinnar sé tryggari og skilvirkari innheimta opinberra gjalda liggur í augum uppi að öllu brýnna er að koma þessari breytingu á hvað varðar skattlagningu á fyrirtæki og fjármagns- og eignatekjur en launatekjur.

Við vitum það og það hefur verið staðfest í þeim skýrslum sem út hafa verið gefnar af opinberri hálfu um skattsvik hér á landi að undanskot frá skatti eru margfalt umfangsmeiri hvað varðar tekjur fyrirtækja og fjármagns- og eignatekjur en hvað varðar launatekjur. Í frv. er því að mínu mati byrjað á öfugum enda. Ef svigrúm var ekkí fyrir hendi til að láta breytinguna ganga yfir alla beina skattlagningu í einu hefði frá sjónarmiði ríkissjóðs og miðað við ofangreind rök tvímælalaust átt að byrja á að koma á staðgreiðslu fjármagns- og eignatekna og tekna fyrirtækja en ekki launatekna, eins og frv. kveður á um.

Satt best að segja finnst mér mjög undarlega að verki staðið hér og liggur nokkurn veginn í augum uppi að sú staðreynd að gengið verður að kjörborðinu eftir nokkrar vikur hefur töluvert með framlagningu og framgang þessara mála hér að gera. Því er þeirri heildarendurskoðun sem heitið var á öllu skattkerfinu snúið upp í endurskoðun á skatti launamanna eingöngu. Þetta er fráleitt sé miðað við hag ríkissjóðs og miðað við þá kosti staðgreiðslukerfisins að heimtur verði betri og því liggur nær að ætla að hagur fyrirtækja og fjármagnseigenda sé nær hjarta núv. fjmrh. en hagur ríkissjóðs. Ég gagnrýni mjög harðlega að byrjað skuli hafa verið á þessum enda í endurskoðuninni en ekki hinum endanum, þ.e. endurskoðun a tekjuskatti fyrirtækja og tekjuskatti af eigna- og fjármagnstekjum.

Í öðru lagi staðfestir þetta frv. skattlagningu á almennar launatekjur í landinu þrátt fyrir yfirlýstan vilja Alþingis og núv. ríkisstjórnar um að afnema í áföngum tekjuskatt af almennum launatekjum. Við vitum að þótt skattleysismörkin séu hækkuð nokkuð í þessu frv. frá því sem nú er eru þau ekki hækkuð nógu mikið til að ná því að afnema launaskatt af almennum launatekjum þannig að í þessu frv. gengur núv. ríkisstjórn enn á ný á bak heitstrengingum sínum um afnám tekjuskatts af almennum launatekjum.

Í þriðja lagi er ekki ljóst að sú innheimtuaðferð tekjuskattsins sem lögð er til í frv. sé sú skilvirkasta og einfaldasta sem völ er á. Í stað þess að fela vinnuveitendum að innheimta og skila tekjuskattinum, eins og frv. gerir ráð fyrir, hefði mátt fela bönkum þetta hlutverk. Auk augljósra kosta hefði það fyrirkomulag þann kost í för með sér að tekjur launamanns væru allar bókfærðar á einum stað sem auðvelda mundi til mikilla muna allt skatteftirlit og þá ekki síst eftirlit með launagreiðendum. Slík tilhögun í staðgreiðslu tekjuskatts og útsvars er fyrir hendi í Færeyjum og er nánar gerð grein fyrir þessari tilhögun í stuttri úttekt sem fylgir með þessu nál. og unnin var hjá embætti ríkisskattstjóra. Þar kemur fram að kostirnir við það fyrirkomulag að fela bönkum að innheimta og skila tekjuskattinum í stað þess að fela vinnuveitendum það eru helstir þeir að fyrir launagreiðendur er þetta til mikilla þæginda þar sem hann þarf ekki að framkvæma neina útreikninga sjálfur heldur nægir honum að skila til viðskiptabanka síns lista yfir þá launamenn sem hann greiðir laun til. Frá sjónarhóli launamannsins er þetta fyrirkomulag einnig til verulegra þæginda. Hann fær laun sín ætíð inn á banka og hann getur betur treyst að útreikningar afdráttarins séu réttir en ef launagreiðandinn framkvæmir hann sjálfur. Í þriðja lagi er þetta einnig hagkvæmt frá sjónarhóli ríkissjóðs því að með þessu móti eru tryggð skil á afdregnum skatti og í öðru lagi auðveldar þetta verulega skatteftirlit, eins og ég sagði áðan, þar sem allar launagreiðslur fara án nokkurs vafa í gegnum banka. Í fjórða lagi ættu með þessu fyrirkomulagi að geta verið fyrir hendi nokkuð áreiðanlegar hagrænar upplýsingar sem hægt er að nota við hagstjórn hér á landi, sé áhugi fyrir að nota slíkt yfirleitt við hagstjórn, sem ég efast stundum um.

Í stað þess að fara þá leið að fá bönkum það hlutverk að innheimta og skila tekjuskattinum er sú leið farin í þessu frv. að vinnuveitendum er falið að innheimta skattinn. Hérna er í fyrsta lagi verið að leggja auknar byrðar á herðar vinnuveitenda og ekki hef ég séð neitt álit frá þeirra hálfu um hvort þeir eru sáttir við það sjálfir. Í öðru lagi er hér um að hluta til sama hóp að ræða og skilar söluskatti. Við vitum hvernig heimtur á söluskatti hafa verið og liggur engan veginn í augum uppi, miðað við þá reynslu, að vinnuveitendur séu tryggasti innheimtuaðilinn sem völ er á. Í þriðja lagi eiga launamenn með því móti sem frv. gerir ráð fyrir skattgreiðslu sína undir vinnuveitanda sínum og það kann að reynast ekki alls kostar heppilegt í mörgum tilvikum.

Það fyrirkomulag sem í frv. er er að mínu viti miklu óálitlegra og ótryggara frá sjónarmiði allra sem í hlut eiga en það fyrirkomulag sem ég hef hér rætt um og fylgir með sem fskj. með þessu áliti.

Til að taka upp það fyrirkomulag að fá bönkum það hlutverk í hendur að innheimta og skila tekjuskattinum verður að gera róttækar breytingar á því frv. sem hér liggur fyrir og enn fremur framkvæma breytingar á ýmsum öðrum lagaákvæðum. Til þess hefur ekki unnist tími á þessu stigi málsins þar sem við höfum haft ákaflega lítinn tíma til að fjalla um frv., eins og fram hefur komið. Þessum hugmyndum er hér með komið á framfæri og þess er farið á leit við þá sem hafa með höndum að endurskoða þessi frv., hvort sem þau verða að lögum eða ekki, að þeir athugi þessa hugmynd gaumgæfilega í þessari endurskoðun því að hér er tvímælalaust að mínu viti um miklu heppilegri, áreiðanlegri og skilvirkari aðferð við innheimtu og skil tekjuskattsins að ræða.

Að lokum, virðulegi forseti, vil ég segja fáein orð um 5. gr. þessa frv. sem kveður á um útvíkkun skattstofnsins. Eins og ég hef áður komið inn á í umræðum um þetta mál er ég sammála þessari útvíkkun skattstofnsins fyrst og fremst á þeirri forsendu að þá er e.t.v. einhver von til þess að greidd laun verði laun en ekki laun og eitthvað óskilgreint annað eins og nú tíðkast og í öðru lagi má vera að þetta nýtist til að draga eitthvað úr því kynbundna launamisrétti sem nú er á vinnumarkaðnum þar sem allar tölur sýna að það eru einkum karlar sem njóta hlunninda og fríðinda af hvaða tagi sem er en ekki konur. Þessi útvíkkun á skattstofni kann að reynast nokkuð drjúg til að leiðrétta þennan þátt þessa kynbundna launamisréttis.

Hins vegar vil ég taka fram að ákaflega mikilvægt er að launþegar beri ekki kostnað sem með réttu á heima hjá vinnuveitanda, þá einkum varðandi bílastyrki og dagpeninga. Þess vegna skiptir ákaflega miklu máli hvernig þær reglur verða sem fjmrh. hyggst setja um þetta ákvæði. Ég óskaði eftir að fá drög að þeim í hv. fjh.- og viðskn. en fékk ekki.

Ég vil því koma því á framfæri hér, og það er skilyrt við stuðning minn við þetta ákvæði, að það verði öruggt að kostnaður vegna starfa sem með réttu á heima hjá vinnuveitanda lendi ekki á herðum launamanna. Í öðru lagi að ekki verði þannig um hnútana búið að launamaður láni í rauninni ríkinu fyrir útlögðum kostnaði, þ.e. hann leggi út kostnað, tekinn er af honum staðgreiddur skattur jafnóðum og síðan fái hann ekki gert upp fyrr en í lok ársins og sé því gert að lána ríkinu fyrir þessum útlagða kostnaði þangað til endanlegt uppgjör liggur fyrir. Og í þriðja lagi vil ég vara við allri aukningu á skrifræði sem þetta gæti haft í för með sér þar sem menn þurfa nú að safna nótum til að geta sýnt fram á sannanlegan kostnað og þurfa menn að hafa það atriði í huga þegar reglugerð er sett um þetta atriði.

Þótt þeir gallar séu á þessu frv. sem ég hef hér tilgreint er ljóst að umtalsverð hagræðing er að því. Kvennalistinn er í grundvallaratriðum sammála því að taka upp staðgreiðslu opinberra gjalda hér á landi og því mæli ég með samþykkt þessa frv. með þeirri brtt. sem ég flyt á sérstöku þskj. og varðar 13. gr. frv. sem kveður á um framvísun skattkorts hjóna. Hún er tengd till. sem ég hef flutt við frv. til laga um tekjuskatt og eignarskatt þess efnis að fella niður þá samsköttun hjóna sem nú er að finna í þessum frumvörpum og gildandi tekjuskattslögum og nota þetta fjármagn þess í stað til aukningar á greiðslu barnabóta. Með þessari brtt. legg ég til, virðulegi forseti, að þetta frv. verði samþykkt.

Ég vil, til að spara mér eina ferð enn í ræðustólinn og hv. þingdeildarmönnum mínúturnar, gera að umræðuefni annað frv. sem fylgir með tekju- og eignarskattsfrumvarpinu, gildistökufrumvarpið sjálft. Við það frv. hef ég ekkert sérstakt að athuga annað en að ég vek athygli á því að nauðsynlegt er að endurákvarða prósentuhækkun reiknaðs endurgjalds aðila í sjálfstæðum atvinnurekstri, eins og það heitir, í samræmi við almennar tekjubreytingar milli áranna 1986 og 1987 þegar þær tekjubreytingar liggja ljósar fyrir, þannig að aðilar í sjálfstæðum atvinnurekstri sitji við sama borð hvað varðar sín laun og aðrir launamenn hér á landi.

Með þessari athugasemd legg ég til að það frv. verði einnig samþykkt.