09.03.1987
Efri deild: 51. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3822 í B-deild Alþingistíðinda. (3435)

340. mál, staðgreiðsla opinberra gjalda

Frsm. 3. minni hl. fjh.- og viðskn. (Stefán Benediktsson):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 793 við frv. til laga um staðgreiðslu opinberra gjalda frá 3. minni hl. fjh.- og viðskn. Í því nál. segir, með leyfi frú forseta:

„Það hefur lengi verið stefnumál Alþfl. að koma á staðgreiðslu opinberra gjalda samhliða einföldun álagningar allra skatta. Ágalli þessa frv. er fyrst og fremst sá að hér er aðeins fjallað um lítinn hluta skattheimtu. Enn er frestað afnámi tekjuskatts og auk þess er álitamál hvernig að innheimtu er staðið.

En þar sem hér er fyrst og fremst um það skref að ræða til breytinga á innheimtu sem oft hefur verið lofað en enn aldrei staðið við mælir 3. minni hl. með samþykkt frv.“

Frú forseti. Ég flyt engar brtt. við þetta frv., vil aðeins benda á að við höfum, sem í nefndinni sitjum, heyrt, bæði innan nefndarinnar á máli viðmælenda og eins í viðræðum við menn utan funda, alls kyns athugasemdir við viss ónákvæmnisatriði í þessu frv. eða atriði sem lúta að samskiptum framteljenda og skattyfirvalda sem kunna að orka tvímælis. Ég bendi á eitt slíkt atriði sem í sjálfu sér er ekki merkilegt en er dæmi um slíkt.

Í 15. gr. frv. segir: „Staðgreiðsla skal dregin af launum launamanns og skilað í ríkissjóð skv. ákvæðum 20. gr."

Í 20. gr. segir síðan: „Greiðslur skv. 1. mgr. skal inna af hendi í banka, sparisjóði eða póststöð sem innborgun á sérstakan reikning eða reikninga ríkissjóðs og sveitarfélaga“.

Ef grannt er skoðað eða með mikilli nákvæmni virðist vera hér á ferðinni ákveðið ósamræmi á milli þessara tveggja greina í sama frv. að því leyti að í öðru er skýrt kveðið á um að skila skuli til ríkissjóðs, en í hinni greininni er talað um sérstakan reikning sem ekki er nánar farið út í að skýra hvað er.

Í umsögn um einstakar greinar frv. segir aðeins: „Nýmæli þessarar greinar er að launagreiðandi skuli standa skil á greiðsluskyldri fjárhæð í banka, sparisjóði eða póststöð sem innborgun á sérstakan reikning eða reikninga ríkissjóðs og sveitarfélaga hjá innlánsstofnunum. Enn fremur hefur hann rétt til að velja á milli þessara aðila og skattstjóra er hann skilar skilagrein sinni“.

Það er sem sé hvergi skýringar á því að finna hvað átt er við með þessu skilgreiningaratriði í 20. gr. „sérstakur reikningur“.

Eins og fram kom í máli mínu við umræðu um frv. um tekju- og eignarskatt hafa menn ákveðnar efasemdir vegna þeirra breytinga sem gerðar eru á ákvæðum laga um vald skattyfirvalda til að ákveða gjaldendum stofna til greiðslu skatta og á það í þessu sérstaka tilfelli sem við erum að ræða þetta frv. einkum við um 6. gr. frv. Frv. gerir eiginlega ráð fyrir því og frumvörpin öll að meira eða minna leyti að skattstjóri geti að eigin mati hækkað reiknað endurgjald án þess að gjaldandi sé beðinn um skýringar á því sem kann að þykja óeðlilegt og ekki alveg ljóst samkvæmt frumvörpunum hver áfrýjunarréttur framteljandans eða gjaldandans er.

Í máli mínu áðan, frú forseti, gerði ég athugasemdir við sama atriði sem hv. 11. þm. Reykv. var að ljúka við að gera athugasemdir við, þ.e. spurninguna um áhrifin af þessum nýju ákvæðum um skatt af ökutækjastyrkjum og dagpeningum. Ég held að það sé erfitt að benda á eitthvað það í þessum frumvörpum sem kemur í veg fyrir að hér verði óhjákvæmilega um vissa mismunun að ræða og þá mismunun sem snertir einmitt þá aðila sem síst skyldi eins og hv. 11. þm. Reykv. lýsti, þ.e. þá menn sem safna nótum dyggilega, greiða sinn útlagða kostnað, fá hann að einhverju leyti endurgreiddan, en greiða skatt af þeim tekjum sem í þessum tilgangi eru notaðar og fá endurgreiðslur af því ekki fyrr en í versta falli þegar um kostnað í janúar er að ræða, ári seinna. Þetta geta, alla vega hjá sumum aðilum, trúlega orðið nokkuð myndarleg lán sem þeir lána ríkissjóði. Ég treysti því einfaldlega að höfundar frv. skoði færar leiðir til að bregðast við þessu og ég treysti því líka að höfundar frv. starfi áfram í þeim anda sem þeir hafa markað sér með þessu frv., þ.e. að finna leiðir til lausnar á flóknum vandamálum, eins og t.d. þessu, án þess að til komi mikið aukið skrifræði, en maður gæti gælt við þá hugmynd að spá í að það starf sem í dag hefur farið í eftirlit með framtölum manna almennt fari að nokkru leyti í þann farveg að sinna eftirliti með framlögðum nótum manna vegna endurgreiðslna á ökutækjastyrkjum og dagpeningum sem eins og ég nefndi áður getur í trúlega þó nokkuð mörgum tilvikum verið ansi myndarlegur bunki af nótum sem þarf að skoða og kanna ítarlega.