29.10.1986
Efri deild: 7. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 383 í B-deild Alþingistíðinda. (348)

88. mál, álagning tímabundinna skatta og gjalda 1987

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Það er sannarlega ástæða til að staldra hér aðeins við, sérstaklega þegar hæstv. fjmrh. gerir svo stuttan stans í ræðustólnum til að mæla fyrir þessu frv., sem hefur inni að halda býsna mörg atriði og ekki öli skyld þó að þau tengist auðvitað með vissum hætti, en hann hefur kosið að fara þá leið hér að leggja fram það sem stundum er kallaður „bandormur“ á vinnumáli þingsins, ef þannig má til orða taka.

Það er sérstaklega ánægjulegt að heyra fjmrh. Sjálfstfl. enn einu sinni mæla hér fyrir sérstökum skatti á verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Ég minnist þess í þessari hv. deild að hann er líklega annar ráðherrann úr þessum flokki sem mælir fyrir þessum skatti, sem Sjálfstfl. barðist mjög heiftarlega gegn hér þegar hann var lagður á á sínum tíma, og sem forveri hæstv. núv. fjmrh. lagði heiður sinn að veði í blaðaviðtali, ef ég man rétt, um það að þessi skattur skyldi afnuminn. Það var mjög eftirminnilegt og það þurfti ekkert að velkjast í vafa um það hvað hæstv. núv. iðnrh. Albert Guðmundsson átti við þegar hann var að tala um sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði og raunar hafa ýmsir hv. þm. Sjálfstfl. haft mörg orð um þennan skatt, Morgunblaðið skrifað um hann leiðara o.fl., o.fl. Það er þess vegna ánægjulegt að heyra hæstv. núv. fjmrh. mæla fyrir þessum skatti.

Við studdum þennan skatt á sínum tíma, lögðum reyndar seinna til að hann væri lækkaður og loks látinn falla niður. En á það hefur Sjálfstfl. ekki fallist og gerir nú tillögu um að þetta haldist áfram óbreytt og er það út af fyrir sig athyglisvert.

Annað langaði mig til að minnast á hér. Hér er enn einu sinni verið að fjalla um breytingu á lögum frá því í des. 1978 um sérstakt tímabundið vörugjald. Raunar held ég að þetta sérstaka tímabundna vörugjald eigi sér enn lengri sögu en frá 1978. Ég held að það hafi verið komið á töluvert áður, ef ég man rétt. Þessi orð, „sérstakt“ og „tímabundið“, voru notuð á sínum tíma vegna þess að gjaldið átti að vera sérstakt og það átti að vera tímabundið.

Nú þegar hæstv. fjmrh. Sjálfstfl. leggur enn einu sinni fram tillögu um að þetta gjald verði framlengt, þá vildi ég spyrja hann: Er ekki ástæða til að fella nú niður þessi orð og kalla þetta bara vörugjald? Vegna þess að þó það eigi að heita tímabundið að nafninu til, þá er það framlengt frá ári til árs og hefur í raun verið alveg ótímabundið. Er ekki best að koma bara hreint til dyranna og segja hlutina eins og þeir eru í staðinn fyrir að vera að fela þá á bak við einhver nöfn sem ekki eru sannleikanum samkvæm og ekki í takt við þann raunveruleika sem við búum við?

Þá langaði mig, virðulegi forseti, loks að gera að umtalsefni í nokkrum orðum húsnæðisgjaldið, sem hér er um fjallað, og taka að ýmsu leyti undir það sem hv. 2. þm. Austurl. sagði hér áðan. Það er óljóst hvernig þessi mál eiga að vera skv. því frv. sem hæstv. fjmrh. hefur mælt fyrir. Það er með öllu óljóst. Í 9. gr. þessa frv., þar sem fjallað er um húsnæðisgjald, segir: „Gjaldið rennur óskipt í ríkissjóð og skal því ráðstafað til útlána á vegum Byggingarsjóðs ríkisins.“ Þetta er nokkurn veginn skýrt og skiljanlegt. Síðan segir í athugasemdum um II. kafla, með leyfi forseta: „Þrátt fyrir þetta“ þ.e. fjármögnun byggingarsjóðanna með skuldabréfakaupum lífeyrissjóða - „er áfram þörf á verulegu framlagi ríkissjóðs til byggingarsjóðanna. Samkvæmt fjárlagafrv. fyrir árið 1987 nemur framlagið á næsta ári 1300 millj. kr.“ - Það munu vera 1000 millj. eða einn milljarður í Byggingarsjóð ríkisins og 300 millj. í Byggingarsjóð verkamanna. Síðan segir enn orðrétt: „Í ljósi þessa annars vegar og ákaflega þröngrar fjárhagsstöðu ríkissjóðs hins vegar þykir ekki hjá því komist að kveða á um álagningu og innheimtu húsnæðisgjalds í óbreyttri mynd á næsta ári. Áætlað er að tekjur af gjaldinu nemi um 600 millj. kr.“

Ef láta á þetta fé aðeins renna beint um ríkissjóð til húsnæðiskerfisins þá sé ég ekki hvað hin þrönga fjárhagsstaða ríkissjóðs kemur þessu máli við, öðruvísi en að ríkissjóður ætli sér að taka hluta af þessu húsnæðisgjaldi og nota til almennra rekstrarútgjalda, eins og nú virðist vera vaxandi siður hjá þessari ríkisstjórn. Þess vegna sýnist mér alls ekki ljóst hvert verður heildarframlag ríkisins til byggingarsjóðanna, og þá er ég bæði að tala um Byggingarsjóð ríkisins og Byggingarsjóð verkamanna. Er það þær 1300 millj., sem gert er ráð fyrir í fjárlögunum, að viðbættum þessum 600 millj. kr., sem húsnæðisgjaldið, þetta sérstaka húsnæðisgjald sem samkomulag var um gert, gefur og greint er frá hér í þessum athugasemdum? Eða eru þessar 600 millj. kr., sem húsnæðisgjaldið er, hluti af því og er það innifalið í því? Ef í ljós kemur að svo sé er ég ansi hræddur um að þá muni menn þurfa að endurskoða eitt og annað, vegna þess að ég sé ekki að það sé samkvæmt samkomulagi því sem gert var á sínum tíma.

En hæstv. fjmrh. skýrir þetta væntanlega út hér á eftir. Þetta er óljóst eins og þetta er orðað hér í frv., þ.e. eru þessar 600 millj. hluti af þessum 1300 eða koma þær til viðbótar? Þetta er auðvitað meginspurning, sem hæstv. fjmrh. hlýtur að svara hér á eftir, og ég geri ráð fyrir að svör hans móti mjög afstöðu manna til þessara frumvarpsgreina sem hér er um fjallað.