09.03.1987
Neðri deild: 55. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3839 í B-deild Alþingistíðinda. (3485)

196. mál, tollalög

Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. meiri hl. fjh.og viðskn. sem er birt á þskj. 752. Undir þetta nál. rita auk mín hv. þm. Halldór Blöndal, Ólafur G. Einarsson, Sverrir Sveinsson og Guðmundur Bjarnason. Minni hlutar eru tveir og munu þeir hafa skilað inn sérálitum og verður gerð grein fyrir þeim hér síðar á þessum fundi.

Nefndin hefur rætt þetta mál á fjölmörgum fundum. Meiri hl. nefndarinnar leggur til að frv. verði samþykkt með þeim brtt. sem fluttar eru á þskj. 753.

Fjöldi manna kom á nefndarfundi og gerði grein fyrir sínum sjónarmiðum. Umsagnir bárust frá nokkrum aðilum.

Ég tel ástæðu til að benda sérstaklega á nokkrar brtt. sem fluttar eru á þskj. 753.

Í fyrsta lagi er gerð till. til breytingar á 27. gr., en sú grein fjallar um tollumdæmi. Þar eru gerðar þrjár brtt. Í fyrsta lagi er gerð sú brtt. að á eftir orðinu „Kjósarsýslu“, sem er í 1. tölul., komi: þó ekki Bessastaðahreppur. Það þýðir að Bessastaðahreppur mun áfram tilheyra öðru tollumdæmi, þ.e. Hafnarfjarðartollumdæmi sem um getur í 25. tölul. sömu greinar. Þá er í b-lið 10. brtt., við 27. gr. lagafrv., gerð till. um að Skilmannahreppur og Hvalfjarðarstrandarhreppur tilheyri eftir sem áður sýslumanninum í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu, en renni ekki undir umdæmi tollstjórans á Akranesi. Þriðja breytingin er innifalin í þeirri sem ég lýsti fyrst.

Þá er við 28. gr., sem fjallar um aðaltollhafnir og tollhafnir, gerð sú breyting að til viðbótar þeim 13 aðaltollhöfnum, sem um getur í 28. gr. frv., kemur ný tollhöfn sem er Sauðárkrókur.

Þá vil ég geta þess að meiri hl. nefndarinnar gerir till. til breytinga á 33. gr. frv. þar sem Tollgæsla Íslands er nefnd á nafn. Og nú segir skýrum orðum, með leyfi forseta:

„Við embætti ríkistollstjóra starfar Tollgæsla Íslands undir stjórn tollgæslustjóra. Tollgæslustjóri skal fullnægja skilyrðum um embættisgengi sem sett eru í 1.-6. tölul. 32. gr. laga nr. 85/1936, um meðferð einkamála í héraði.

Tollgæsla Íslands skal hafa með höndum tolleftirlit á tollsvæði ríkisins eftir því sem nánar er kveðið á um í lögum þessum.“

Þetta er gert til þess að það sé skýrt undir hvern og hvar Tollgæsla Íslands starfar en nefndarmeirihlutanum þótti sem ekki væri nægilega skýrt kveðið á um þetta atriði í lagafrv.

Meiri hl. nefndarinnar gerir, auk margra annarra brtt., till. sem er 18. till. á þskj. 753 og er við tollkrítarákvæði lagafrv., en þar er gert ráð fyrir því að greiðslufrestur á aðflutningsgjöldum lengist úr einum mánuði að meðaltali í tvo mánuði, eins og segir í 18. brtt. meiri hl. á þskj. 753.

24. brtt. á sama þskj. fjallar um það að ráðherra sé skylt með reglugerð að ákveða hvaða gjald skuli innheimta fyrir störf tollstarfsmanna sem ekki teljast liður í almennu tolleftirliti, og að krafa þessi njóti lögtaksréttar. Hér er verið að leggja áherslu á að öll venjuleg störf tollstarfsmanna eru auðvitað eins og önnur samsvarandi störf, löggæslustörf, unnin á kostnað íslenska ríkisins, en sé um sérstök störf að ræða þá skal innheimta gjöld af þeim sem starfið beinist að.

Í 25. brtt. á þskj. 753 er gert ráð fyrir því að við 146. gr. frv. bætist við orðin „að höfðu samráði við Hagstofu Íslands“ og þá orðast lagagreinin þannig, ef frv. verður samþykkt:

„Ráðherra setur nánari reglur um skil tollyfirvalda á aðflutnings- og útflutningsskjölum og öðrum gögnum að höfðu samráði við Hagstofu Íslands.“ Þetta er í samræmi við ábendingu sem kom frá hagstofustjóra um nauðsyn á samráði fjmrn., tollstjóraembættisins og Hagstofu Íslands hvað varðar skráningu aðflutnings- og útflutningsskjala.

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til þess að fara ítarlega í aðrar þær brtt. sem birtast á þskj. 753. Það er ljóst að verði þetta frv. að lögum er stefnt að því að gera tollmeðferð á vörum einfaldari og nútímalegri en hún er í dag. Yfirstjórn tollamála verður skýrari og úrskurðarvaldið er flutt úr ráðuneyti til ríkistollanefndar, en það eru svipuð ákvæði og nú gilda um skattalög þar sem nú starfar ríkisskattanefnd og ríkisskattstjóri. En með lagafrv. er verið að gera tillögur til breytinga á núverandi skipan í tollamálum þannig að þessi lög falli að skattalögum hvað þetta snertir. Nýmæli í lagafrv. eru þau að nú eru skýr ákvæði um greiðslufrest á aðflutningsgjöldum, eða tollkrít, og benda má reyndar á önnur atriði eins og ákvæði um tollfrjálst svæði, en þetta hlýtur hvort tveggja að teljast merk nýmæli.

Herra forseti. Meiri hl. hv. fjh.- og viðskn. leggur til að frv. verði samþykkt með þeim brtt. sem meiri hl. gerir á áðurgreindu þskj.