09.03.1987
Neðri deild: 55. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3841 í B-deild Alþingistíðinda. (3486)

196. mál, tollalög

Frsm. 1. minni hl. fjh.- og viðskn. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Hér er um að ræða eitt af viðamestu málum þingsins, að því er greinafjölda varðar a.m.k., og hefði verið eðlilegast að gefa sér betri tíma til að afgreiða málið en nú er kostur á þegar stutt er til þingslita. Meiri hl. hefur hins vegar ákveðið að hætta á það að afgreiða málið núna. Ég segi hætta á vegna þess að hér er of hratt í sakirnar farið og auðvitað bein hætta á því að þess vegna verði lagasmíðin ekki eins vönduð og hún þarf að vera varðandi þetta mikilvæga svið okkar efnahagsmála og tekjuöflunar ríkisins.

Í samræmi við þessa skoðun mína hef ég gefið út nál., sem 1. minni hl. fjh.- og viðskn., á þskj. 777 þar sem segir svo, með leyfi forseta:

„Fyrsti minni hl. treystir sér ekki til að ganga frá afgreiðslu þessa máls þar sem ekki hefur unnist nægur tími til að fara yfir það sem vert væri. Hér er um að ræða þýðingarmikla löggjöf og hefði því verið eðlilegt að gefa Alþingi góðan tíma til að fjalla um hana eftir kosningar. Hætta er á að þegar Alþingi afgreiðir mál í flaustri sé þar ekki farið eins nákvæmlega yfir málin og nauðsynlegt verður að teljast.

Þar sem meiri hl. kýs engu að síður að knýja málið fram flytur undirritaður nokkrar brtt. á þskj. 775. Enn fremur mun undirritaður greiða atkvæði um nokkrar brtt. meiri hlutans en að öðru leyti sitja hjá við afgreiðslu málsins.“

Ég mun þessu næst, herra forseti, gera grein fyrir þeim brtt. sem ég flyt, en þó kannske áður en ég kem að þeim taka fram að sumt af brtt. meiri hl. nefndarinnar er auðvitað til bóta. Ég tel hins vegar ekki ástæðu til að lengja tollkrítina, eins og hér er gerð till. um, úr einum mánuði í tvo mánuði, en frv. gerir ráð fyrir einum mánuði að meðaltali, sem verði greiðslufrestur á aðflutningsgjöldum, frá þeim tíma er far kom á ákvörðunarstað eða talið frá úttektardegi vöru hafi hún verið sett í tollvörugeymslu, eins og það er orðað í 109. gr. frv. Ég tel eðlilegt að halda sig hér við upphaflega tillögu fjmrh. og ríkisstjórnarinnar í þessu efni og ástæðulaust að vera að lengja tollkrítina. Það þýðir aukið tekjutap fyrir ríkið, verulega aukið tekjutap fyrir ríkið um skeið. Í annan stað teldi ég eðlilegra að hinkra og hafa þetta einn mánuð til að byrja með. Menn geta þá lengt það síðar meir ef reynslan af þessu kerfi verður góð. Mér finnst sem sagt óþarfi að ganga eins langt og meiri hl. leggur þarna til og mun því fyrir mitt leyti ekki styðja þá till. nefndarinnar.

Ég kem þá að þeim brtt., herra forseti, sem ég flyt á þskj. 775. Það er þá fyrst brtt. við 14. gr. frv.

Í 14. gr. frv. hljóðar 3. mgr. svo:

„Í reglugerð eða með öðrum hætti getur ráðherra einnig heimilað afhendingu vöru eða sendingar án þess að á þeim tíma liggi fyrir aðflutningsskýrsla, enda hafi farmflytjandi skráð vöruna skv. 3. mgr. 53. gr., en aðflutningsskýrsla skal þá afhent tollyfirvaldi innan tiltekins frests sem ákveðinn sé í reglugerð eða öðrum fyrirmælum.“

Ég held að í rauninni sé þessi málsgrein algjörlega óþörf og þarna sé opnað fyrir það að ráðherra fái heimild til þess að láta afgreiða vöru án þess að nauðsynlegir pappírar séu til. Ég held að það sé gjörsamlega óeðlilegt að opna tollalögin með þessum hætti. Það þýði að misbrestur verði á skýrslugjöf, og er nú nóg samt í þeim efnum þar sem það er ljóst eins og allir þekkja að skýrslugjöf í sambandi við tollamál er afar ófullkomin hér á landi.

Ég legg þess vegna til í fyrsta lagi, varðandi 14. gr., að 3. mgr. falli niður.

Í öðru lagi geri ég tillögu um það, ef greinin verður ekki felld niður, að aftan við greinina bætist, ég flyt þá varatillögu: enda séu skjölin fullnægjandi að höfðu samráði við Hagstofu Íslands.

Eins og kunnugt er á Hagstofan að halda innflutningsskýrslur og til þess að bráðabirgðaafgreiðsla sé í lagi er auðvitað algjört lágmark að Hagstofan hafi aðgang að fullnægjandi skjölum. Það er ekki gert ráð fyrir því í greininni eins og hún lítur út hér og þess vegna legg ég til að við hana bætist orðin: enda séu skjölin fullnægjandi að höfðu samráði við Hagstofu Íslands.

Þá geri ég till. um að breyting verði á 16. gr. frv. og þar bætist við ný málsgrein á þessa leið: „Innflytjandi eða umboðsmaður hans fá ekki afhenta vöru nema frágangur aðflutningsskýrslna sé í samræmi við lög þessi.“

Það kom fram í viðræðum við fulltrúa Tollvarðafélagsins og fjölmarga fleiri aðila við meðferð málsins í nefndinni að frágangur skýrslna af hálfu innflytjenda er satt að segja mjög slakur hér og mjög oft ábótavant. Talsmenn Tollvarðafélagsins tóku þannig til orða að meiri hlutinn af þeirra starfstíma færi í stílaleiðréttingar. Þeir áttu þá við að þeir þyrftu að standa í því að leiðrétta þær skýrslur sem innflytjendur gefa. Og tekið var undir það af fulltrúum Hagstofunnar að skýrslugjöf í sambandi við innflutning væri afar ófullkomin og slök. Þess vegna legg ég til að aftan við 16. gr. bætist ný málsgrein um að innflytjandi eða umboðsmaður hans fái ekki afhenta vöru nema frágangur aðflutningsskýrslna sé í samræmi við lög þessi.

Í þriðja lagi flyt ég brtt. við 37. gr. frv., en hún fjallar um ríkistollanefnd. Þar segir:

„Ráðherra skipar þrjá menn í ríkistollanefnd, þar af einn sem formann og skal hann fullnægja skilyrðum til þess að verða skipaður héraðsdómari. Aðrir nefndarmenn skulu hafa staðgóða þekkingu á tollamálum. Nefndarmenn skulu skipaðir til tveggja ára í senn.“

Ég held að það sé mjög mikilvægt að ríkistollanefnd sé þannig skipuð að ákvarðanir hennar verði taldar fullgildar og þar sé gætt óhlutdrægni í hvívetna. Í brtt. minni geri ég þess vegna ráð fyrir að aftan við orðin „Aðrir nefndarmenn skulu hafa staðgóða þekkingu á tollamálum“ bætist orðin: enda séu þeir óháðir innflutningsaðilum. Sem sé að áður en skipað er í ríkistollanefnd verði vandlega gengið úr skugga um að það séu ekki hagsmunaaðilar sem eru að skipa menn í nefndina.

Auðvitað mætti hugsa sér að þetta væri með þeim hætti að neytendur kæmu þarna við sögu annars vegar og innflytjendur hins vegar, en ég hygg þó að besta fyrirkomulagið sé það að það sé einfaldlega tryggt sem best að allir þeir aðilar sem skipa ríkistollanefnd séu óháðir innflutningsaðilum, hvort sem um er að ræða neytendur eða innflytjendur sjálfa.

Þá flyt ég, herra forseti, brtt. við 115. gr. frv. Það er við kafla frv. sem fjallar um undirboðs- og jöfnunartolla. Eins og kunnugt er þá er mikið um það að íslenskir atvinnuvegir verða að þola samkeppni frá alls konar erlendum undirboðsaðilum. Hins vegar hefur ekki verið hægt að sanna þessi undirboð sem skyldi í samræmi við þau lög sem í gildi eru og þá alþjóðasamninga sem við erum aðilar að. Þess vegna tel ég að það sé nauðsynlegt að herða á ákvæðum þessara laga varðandi undirboðs- og jöfnunartolla og skylda fjmrn. til þess að hafa frumkvæði að því að fylgjast með því hvort um sé að ræða undirboð sem geti stofnað íslenskum atvinnurekstri í hættu.

Í 119. gr. frv. segir:

„Ráðherra skal, svo fljótt sem unnt er, skýra Alþingi frá álagningu undirboðs- og jöfnunartolla og ástæðum fyrir álagningu þeirra.“

Hér er sem sagt gert ráð fyrir því að ráðherra skýri Alþingi frá þessum niðurstöðum þegar hann telur rétt að leggja á undirboðs- og jöfnunartolla.

Ég tel að það sé nauðsynlegt að ganga þarna mikið lengra, það eigi að fela fjmrh. að fylgjast reglulega með hugsanlegum undirboðum á íslenskum markaði og hann geri það með þeim hætti að hann geri Alþingi árlega grein fyrir niðurstöðum sínum í þessum efnum, hvort sem hann kemst að þeirri niðurstöðu að leggja eigi á undirboðs- og jöfnunartolla eða ekki, að honum verði gert að skyldu að fylgjast með þessu rækilega og gera Alþingi grein fyrir þeim málum.

Í fimmta lagi, herra forseti, flyt ég brtt. sem lýtur að hinu sama, um að ráðherra geri Alþingi árlega grein fyrir rannsókn á undirboðum á íslenskum markaði og hann geri það með skýrslu sem hann sendi Alþingi til meðferðar.

Í sjötta lagi geri ég þá brtt. að 129. gr. frv. flytjist aftur fyrir frv. og verði ákvæði til bráðabirgða. Þar er gert ráð fyrir því eins og hér stendur, með leyfi forseta:

„Það varðar sektum, varðhaldi eða fangelsi að selja eða láta á annan hátt af hendi vöru sem flutt hefur verið tollfrjáls til landsins, samkvæmt lögum nr. 110/1951, um lagagildi varnarsamnings milli Íslands og Bandaríkjanna og um réttarstöðu liðs Bandaríkjanna og eignir þess, ef viðtakandi nýtur ekki tollfríðinda skv. þeim lögum.“

Ég tel algjörlega óeðlilegt að hafa ákvæði af þessu tagi inni í almennum lögum. Ég teldi eðlilegra, ef hægt er að tala um eitthvað eðlilegt í sambandi við hersetuna, þá teldi ég illskárra að þetta ákvæði væri í raun og veru inni sem ákvæði til bráðabirgða vegna þess að við höfum verið þeirrar skoðunar og þeir sem hafa staðið fyrir hersetunni hér á landi hafa yfirleitt verið þeirrar skoðunar að hersetan væri bráðabirgðaástand en ekki varanlegt. Þess vegna flyt ég þá tillögu að þessu ákvæði 129. gr. verði breytt í ákvæði til bráðabirgða.

Ég vil svo að lokum taka það fram, herra forseti, varðandi brtt. meiri hl. fjh.- og viðskn. að þar sem lagt er til í 25. brtt., við 146. gr., að þar bætist við orðin „að höfðu samráði við Hagstofu Íslands“ þá mun ég fyrir mitt leyti styðja þessa brtt. en að öðru leyti, eins og ég sagði áðan, sitja hjá við afgreiðslu málsins vegna þess að ég tel það ekki nægilega vel unnið af hálfu Alþingis og beinlínis varasamt fyrir Alþingi að ganga frá þessum viðamikla lagabálki upp á 150 greinar, sem hér liggur fyrir, án þess að gefa sér betri tíma til vandaðrar meðferðar.

Ég vara satt að segja við því að menn geri sér leik að því hér á næstu dögum að afgreiða svona flókin mál án þess að nokkur sýnileg ástæða sé til þess að þau verði endilega að afgreiða hér á næstu dögum. Það eru í raun og veru engin rök fyrir því að þetta mál mætti ekki alveg eins taka hér upp með haustinu.