09.03.1987
Neðri deild: 57. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3853 í B-deild Alþingistíðinda. (3499)

196. mál, tollalög

Frsm. 1. minni hl. fjh.- og viðskn. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Í þeim mikla bálki sem hér er til meðferðar er gert ráð fyrir að framlengja þær undanþágu-, lækkunar- og samræmingarheimildir sem eru til í gildandi tollalögum. Þau ákvæði er að finna í 6. gr. þessa frv. og á því er frekar hnykkt í ákvæði til bráðabirgða.

Eitt af þeim atriðum sem hér er um að ræða eru ákvæði sem heimila niðurfellingu tolla, lækkun tolla af bifreiðum til öryrkja. Fyrir nokkrum vikum lýsti hæstv. fjmrh. yfir því að reglum um þetta efni yrði breytt og jafnframt að öryrkjar sem fengju þessar bifreiðar mundu framvegis fá ákveðnar greiðslur og að þær ættu að fara í gegnum Tryggingastofnun ríkisins. Um nokkurra vikna skeið eða eftir að hæstv. fjmrh. gaf út þessa yfirlýsingu sína hefur verið mikið um að fatlaðir hafa haft samband við Tryggingastofnun ríkisins og spurt að því hvernig þessum málum eigi að koma fyrir og hafa ekki fengið skýr svör vegna þess að Tryggingastofnunin hefur ekki fengið nákvæm fyrirmæli um hvernig eigi með þessi mál að fara. Ég tel að hér sé um að ræða svo stórt mál að eðlilegast hefði verið að frv. um þetta efni hefði verið lagt fram og afgreitt núna á þeim dögum sem eftir eru fram að þingslitum.

Í grg. þessa frv. á bls. 53, tölul. 7, segir:

„Heimild í 27. tölul. 3. gr. tollskrárlaga fjallar um eftirgjöf aðflutningsgjalda af bifreiðum sem öryrkjar festa kaup á. Í kjölfar þeirra umfangsmiklu breytinga sem almennt urðu á aðflutningsgjöldum á fólksbifreiðum í tengslum við kjarasamninga í febrúar s.l. var ákveðið að endurmeta núverandi skipan þessara mála með það fyrir augum að tengja eftirgjöf gjalda af bifreiðum beint öðrum samfélagslegum aðgerðum varðandi öryrkja. Í framhaldi af þessari endurskoðun hefur verið ákveðið að leggja fram frv. um breytingu á 19. gr. laga nr. 67/1971, um almannatryggingar. Er þar lagt til að auk styrkja til öryrkja vegna reksturs bifreiða verði m.a. heimilt að veita þeim styrk til bifreiðakaupa. Jafnframt er gert ráð fyrir að nauðsynlegar breytingar verði gerðar á fjárveitingartillögum til almannatrygginga á fjárlögum fyrir árið 1987.“ En taka ber fram að þessi grg. er skrifuð á s.l. hausti áður en fjárlög voru afgreidd. „Með tilliti til þessara breytinga er lagt til að nefnd heimild verði felld úr gildi“, segir hér, en eins og ég tók fram áðan er gert ráð fyrir að niðurfellingarheimildirnar, þrátt fyrir þessi ákvæði í 6. gr., haldi sér.

Hér er því sem sagt slegið föstu að frv. sé tilbúið um þetta mál. Ég óska eftir upplýsingum um það frá hæstv. fjmrh. hvar þetta frv. er á vegi statt og lýsi því jafnframt yfir að ég tel eðlilegt og sjálfsagt að sú skipan þessara mála sem ríkisstjórnin hefur tilkynnt öryrkjum, fötluðum, verði lögfest um leið og Alþingi fjallar um þetta mál og að gefin verði yfirlýsing við 3. umr. þannig að þessi hv. þingdeild hafi fengið fram afstöðu hæstv. fjmrh. í þessu efni áður en málið fer frá deildinni.