29.10.1986
Efri deild: 7. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 386 í B-deild Alþingistíðinda. (350)

88. mál, álagning tímabundinna skatta og gjalda 1987

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins vekja athygli á því að það samkomulag, sem gert var um að leggja á 1% viðbótargjald í sambandi við söluskattinn, var gert vegna sérstakra neyðarráðstafana í húsnæðismálum, vegna hinna svokölluðu greiðsluerfiðleika lána sem voru afgreidd frá húsnæðismálastjórn og átti að vera sérstaklega til þess að létta vanda þeirra húsbyggjenda, sem voru komnir í þrot, eins og það var kallað.

Ég hygg að það hafi aldrei verið ætlunin að með þessu gjaldi væri verið að létta af ríkissjóði þeim skyldum sem á honum hvíla að leggja til ákveðið framlag til byggingarsjóðanna, heldur var þetta einvörðungu - og leiðrétti mig þá hver sem getur það hér - gert til þess að létta vanda þeirra húsbyggjenda sem verst voru staddir og veita þeim sérstaka fyrirgreiðslu hjá húsnæðisstjórn. Og þá er auðvitað spurningin: Verður framhald á slíku hjá húsnæðismalastjórn eða fer þetta bara í hið almenna lánakerfi til hvaða lánaflokks sem er inni í kerfinu og léttir þar með ákveðnum byrðum af ríkissjóði? Ég tel að ef þetta er þannig, eins og ég skil það, þá sé í raun og veru verið að ganga á svig við samkomulagið sem gert var vegna þess að féð fer ekki til sömu þátta og samið var um, því að það var samið sérstaklega um þetta vegna sérstakra neyðarráðstafana.

Eftir því sem maður heyrir núna, þá er búið að afgreiða þau lán og hætt að afgreiða þau lán, sem teljast til greiðsluerfiðleikalána, og ég spyr þá: Er meiningin að halda þeim lánaflokki gangandi áfram inni í húsnæðisstjórn? Er meiningin að halda því áfram og verja umtalsverðri upphæð í þetta? Eða er verið að koma þessu þannig fyrir að ríkissjóður þurfi ekki að borga nema 700 millj. kr. inn til byggingarsjóðanna í staðinn fyrir 1600 millj. áður?