09.03.1987
Neðri deild: 57. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3855 í B-deild Alþingistíðinda. (3501)

196. mál, tollalög

Frsm. 1. minni hl. fjh.- og viðskn. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Mér finnst satt að setja nokkuð sérkennilegt hvernig þessi mál standa. Hæstv. fjmrh. gaf þá yfirlýsingu á fundi með fötluðum inni í Sjálfsbjargarhúsi fyrir tveimur vikum að tiltekinni skipan yrði komið á í sambandi við þessi mál. Þar lýsti hann því yfir að þessi mál ættu að fara til Tryggingastofnunar ríkisins og jafnframt hefur komið fram hjá honum bæði nú og áður að það hafi verið sent bréf til heilbr.- og trmrn. Ég hélt satt að segja að hérna væri um tiltölulega einfalda breytingu að ræða þannig að það ætti ekki að þurfa að mylja það lengi með sér að henda hér inn stjfrv. um þær breytingar sem óhjákvæmilegar eru. Ég verð þó að líta svo á með tilliti til þeirra yfirlýsinga sem hæstv. fjmrh. hefur hér gefið að það sé ætlun ríkisstjórnarinnar að frv. verði lagt fyrir núna og verði að lögum á þessu þingi. Ég tek yfirlýsingu hæstv. fjmrh. þannig því að ég tel mjög mikilvægt að þetta atriði sé á hreinu um leið og tollamálin almennt eru afgreidd þó ég taki það auðvitað fram rétt til skýringar að í frv. eins og það liggur fyrir er gert ráð fyrir að allar undanþáguheimildir eins og þær hafa verið haldi sér. Það er engin breyting á því samkvæmt því ákvæði til bráðabirgða sem fylgir þessu frv. En það stendur til að breyta þessu með öryrkjabifreiðarnar og þess vegna hefði mér fundist eðlilegt að það frv. lægi hér fyrir og ég undrast að hæstv. heilbr.- og trmrh. skuli ekki vera búinn að koma því máli hér inn. En ég vænti þess að orð hæstv. fjmrh. megi taka þannig að það sé ætlun ríkisstjórnarinnar að klára þetta mál og ég mun ganga eftir því að við þá yfirlýsingu, sem hæstv. fjmrh. hefur gefið hér í dag, verði staðið áður en þingið fer heim.