29.10.1986
Efri deild: 7. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 386 í B-deild Alþingistíðinda. (351)

88. mál, álagning tímabundinna skatta og gjalda 1987

Fjármálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Frú forseti. Það er rétt, sem kom fram í ræðu hv.2. þm. Austurl., að húsnæðisgjaldið á rætur að rekja til löggjafar sem samkomulag var um á milli þingflokkanna hér á hinu háa Alþingi. Þetta samkomulag gerði ráð fyrir að tekjuöflunin stæði út þetta ár og lögin giltu þess vegna ekki lengur. Auðvitað er það svo að þetta frv., sem hér er til umræðu, er lagt fram á ábyrgð ríkisstjórnarinnar og er ekki hluti af því samkomulagi sem gert var á sínum tíma. Það er ekki unnt að ætlast til þess í sjálfu sér. Það samkomulag var tímabundið og gilti aðeins til loka þessa árs. Það er hins vegar mat ríkisstjórnarinnar að óhjákvæmilegt sé að halda þessari tekjuöflun áfram til þess að standa m.a. undir framlögum til byggingarsjóða ríkisins að hluta til. Þetta samkomulag sem gert var og lögin sem samþykkt voru miðuðu ekki einungis að því að útvega fjármagn til sérstakra lána vegna þeirra sem voru í greiðsluerfiðleikum heldur einnig að því, að meginhluta til, að auka almenn lán byggingarsjóðanna og bæta úr stöðunni. Nú hefur verið samþykkt ný húsnæðislöggjöf og þess vegna horfa þessi mál auðvitað svolítið öðruvísi við en á þeim tíma. Ég vil aðeins ítreka að ekki er ætlast til þess af hálfu ríkisstjórnarinnar að stjórnarandstöðuflokkarnir, sem tóku þátt í samkomulaginu á sínum tíma, séu bundnir við það lengur en til loka þessa árs, og því er frv. alfarið flutt á ábyrgð ríkisstjórnarinnar og stjórnarandstöðuflokkarnir meta það auðvitað hvort þeir telja að rétt sé og skynsamlegt að afla þessa fjár til þess að standa undir hluta af framlögum til byggingarsjóðanna. Það verða þeir auðvitað að gera út frá þeirri stefnumörkun og afstöðu sem þeir hafa til ríkisfjármálanna.