10.03.1987
Sameinað þing: 60. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3860 í B-deild Alþingistíðinda. (3521)

369. mál, erlent áhættufjármagn

Fyrirspyrjandi (Gunnar G. Schram):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. viðskrh. fyrir svörin við fsp. Það er alveg ljóst að ef við lítum til reynslu annarra þjóða kemur í ljós að erlend fjárfesting felur í sér margvíslegt hagræði umfram erlendar lántökur. Með því móti nýtist þjóðinni erlent fjármagn með öðrum hætti en þegar tekin eru erlend lán. Það verður að greiða eins og við þekkjum af erlendum lánum án tillits til árferðis, en slíkt getur og hefur dregið úr stöðugleika efnahagslífsins hér á landi. Erlent fjárfestingarfé er á hinn bóginn áhættufé sem arður er ekki greiddur af nema þegar hlutaðeigandi fyrirtæki skilar hagnaði. Þannig dreifist áhættan af atvinnustarfseminni á fleiri herðar sem að sjálfsögðu á ekki við þegar erlend lán eru tekin.

Ég fagna því, sem fram kemur í svari ráðherra, að fyrir dyrum stendur athugun á rýmkun þeirra reglna sem gilda um nýtingu erlends áhættufjármagns til fjárfestingar í nýjum íslenskum áhættugreinum, m.a. þá þeirri skýrslu um þau efni sem hann hefur nýlega látið dreifa á Alþingi. Ég tek undir þau orð hans að það verður að gjalda varhug við því að erlent fjármagn flæði ekki inn í íslenska útflutningsatvinnuvegi. Á mörgum öðrum sviðum getur það hins vegar nýst mjög vel, á sviði iðnaðar, á sviði þjónustu og fleiri sviðum.