10.03.1987
Sameinað þing: 60. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3863 í B-deild Alþingistíðinda. (3527)

400. mál, fyrirhleðslur á vatnasvæði við Markarfljót

Fyrirspyrjandi (Þórarinn Sigurjónsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir svör hans og tek undir að það sé ástæða til að hraða þeim áætlunum um áframhaldandi fyrirbyggjandi aðgerðir sem hann minntist á. Hér er um stórmál að ræða sem getur kostað mikla fjármuni ef ekki er haft nægilegt eftirlit með vatnasvæðinu og mannvirkjum.

Viðlagatrygging hefur lagt fram verulegt fjármagn til að fyrirbyggja eftir því sem mögulegt er að fljótið valdi skemmdum á mannvirkjum og ríkissjóður hefur lagt jafnháa fjárveitingu á móti svo að verulegt átak er hægt að gera til að auka öryggi byggðarinnar og samgangna um Suðurland. En ég tel nauðsynlegt að það fjármagn sem til er nú verði notað til að tryggja það sem mest má verða að halda fljótinu í eðlilegum farvegi svo að hvorki komi til skemmdir á mannvirkjum eða gróðurlendi sem mikið hefur gengið á síðustu 50 árin og er það svo hundruðum hektara skiptir.