10.03.1987
Sameinað þing: 60. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3863 í B-deild Alþingistíðinda. (3528)

400. mál, fyrirhleðslur á vatnasvæði við Markarfljót

Eggert Haukdal:

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að bera þessa fsp. fram og hæstv. ráðh. fyrir svörin. Það helst í hendur ný brú og endurbætt garðakerfi og því þarf að sjálfsögðu að flýta brúarframkvæmdum. Það er nokkuð í land að takist að stokka fljótið allt til sjávar, sem er endanlegt markmið, en strax í sumar verður að leggja í það nokkurt fjármagn að beina fljótinu í ákveðinn farveg framan brúar þar sem það brýtur þar mjög mikið land.

Það hafa mikil stórvirki verið unnin í vegagerð á undanfarandi árum undir forustu dugmikils samgrh. Ný Markarfljótsbrú er á áætlun fyrir það áætlunartímabil sem nú er verið að vinna að með vegáætlun, eins og ráðherra gat um.

Að undanförnu hafa þm. verið á fundum varðandi endurskoðun vegáætlunar. Það sem þar hefur hins vegar komið fram bendir ekki til bjartsýni um framgang Markarfljótsbrúar. Það vantar nefnilega mikið á að stjórnarliðar sýni í verki að fylgja eftir samgrh. sínum í tillögum hans um vegamál. Enn er ekki lokið afgreiðslu vegáætlunar og er því enn hægt að skipta meiru á verkefni fyrir árin 1988, 1989 og 1990 í öllum kjördæmum landsins. Ef þessi umræða vekti Alþingi til þess hefur hún ekki orðið til einskis.