10.03.1987
Efri deild: 54. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3867 í B-deild Alþingistíðinda. (3530)

397. mál, fangelsi og fangavist

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Ég hlýt að fagna þessu frv. og þakka hæstv. dómsmrh. fyrir að hafa lagt það fram. Ég hefði að vísu gjarnan viljað sjá það það tímanlega að það fengi afgreiðslu. Mér sýnist mjög hæpið núna eins og skammt lifir þings að það takist þó að þetta sé ekki ómerkara mál en mörg þau sem verið er að reyna að knýja í gegnum Alþingi þessa síðustu og má kannske segja verstu daga.

Hér er um að ræða afrakstur nefndarstarfs sem ég segi einnig að hefði mátt ljúka fyrr. Það skal þó viðurkennt að þetta verk var ekki auðunnið. Hér er um viðkvæm og vandmeðfarin mál að ræða, mörg, sem komið er hér inn á og þarf að taka afstöðu til og eins og hæstv. ráðh. kom inn á eru þarna eflaust enn mörg álitaefni sem menn eru ekki í öllu sáttir við.

Ég hlýt að fagna þessu sérstaklega því að kveikja þessa starfs var tillaga sem flutt var hér á Alþingi fyrir fimm árum, eins og hæstv. ráðherra kom inn á, um gagngera uppstokkun fangelsi§mála hér á landi og var ekki vanþörf á þrátt fyrir það að lögin væru ekki gömul eins og hann nefndi.

Ég skal ekki fara hér í efnislega umræðu því að ég get ekki annað en litið svo á að þetta frv. sé nú lagt fram til kynningar. Ég hefði gjarnan viljað fara út í efnislega umræðu um þetta en hef gert það oft áður og tel ekki ástæðu til þess. Ég held að viðkomandi nefnd hafi unnið gott starf, hugað að flestu því sem ég hefði viljað sjá í frv. af þessu tagi og tekið hin mannlegu sjónarmið býsna mikið inn í sem líka var meiningin með því að svo miklu leyti sem þau komast fyrir varðandi okkar refsilöggjöf í heild sinni. Ég fullyrði því að um umtalsverðar úrbætur sé að ræða sem felast í frv. bæði fyrir þolendurna og kannske ekki síður fyrir samfélagið sjálft þegar til lengri tíma er litið.

Ég hef svo oft rætt þetta hversu úr megi bæta sem best, að betrun verði af, svo sem nafngiftin hefur löngum verið í sambandi við fangelsi okkar eða annað nafn þeirra, betrunarhæli að ég fer ekki út í það nú. Ég held að verði frv. þetta að lögum geti það verulega horft til bóta, margt í framkvæmdinni. Eins og hæstv. ráðh. kom inn á er grundvallarbreyting á fullnustu og framkvæmd dóma ekki innifalin en flokkunin á fangelsum og ýmislegt sem þar gefur ákveðið svigrúm er vitanlega grundvallarbreyting hér á og réttarstaða fanga er önnur og betri miðað við stöðu þeirra almennt sem refsifanga.

Það er rétt sem hæstv. ráðh. kom inn á og hefur gert áður í svari við fsp. hér á Alþingi að inn í þetta kemur vitanlega aðbúnaður fanga allur og þar auðvitað kemur fjármagnshliðin stórlega inn í og það hvað við höfum verið nísk á það að verja fjármagni til þeirra nauðsynlegu hluta og er ekki hægt að hæla okkur fyrir það að hafa tekið þar á málum svo sem skyldi. Því er fagnað alveg sérstaklega að hér kemur inn ný stofnun í stað skilorðseftirlitsins án þess að ég sé nokkuð að vanmeta skilorðseftirlitið, ný stofnun sem sinnir félagslegri þjónustu við fanga og gerir þeim lífsgönguna í raun léttbærari þegar út er komið. Eins og hæstv. ráðh. kom inn á eru mörg grundvallaratriði í réttarstöðu fanga, sem hafa verið ýmist í reglugerð eða verið svona í framkvæmd, nú lögfest ef þetta frv. nær fram að ganga og það eru tekin ýmis atriði inn í sem skipta þessa menn mjög miklu máli eins og varðandi tómstundir þeirra, líkamsþjálfun o.fl.

Hitt er svo annað mál að ég er hæstv. ráðh. fullkomlega sammála um það að þarna þarf að hafa visst öryggi á, vissar varnir, m.a. gegn fíkniefnasmygli inn í fangelsin sem engum er vitanlega nema til ógæfu. Það þarf líka að taka allhart á þeim brotum og fylgja því vel eftir að þar verði ekki misbrestur á.

Ég vil svo leggja áherslu á það í lokin, enn einu sinni, að hin mannlegu sjónarmið eiga í þessu tilfelli ævinlega að vera í fyrirrúmi, því að ekki veitir þessum ógæfumönnum af því, svo og að eftirfylgd og aðstoð eftir afplánun sé sem allra best og víðtækust þannig að þeir geti gengið út í lífið nokkurn veginn sem nýir og betri menn og geti tekist á við þau viðfangsefni sem þeir hafa áður tekist á við eða ný viðfangsefni sem þeir kjósa að snúa sér að.

Það hlýtur að vera endanlegt markmið laga af þessu tagi, markmið refsingar og afplánunar, að áhrifin megi verða svo jákvæð sem kostur er í þessum erfiðu tilfellum. Að því marki sýnist mér margt í þessu frv. stefna og því vona ég að Alþingi beri gæfu til þess á haustþingi að lögfesta það þó að ég sjái því miður ekki mikla möguleika á því að ljúka því á þessum fáu dögum sem nú lifa þings.