10.03.1987
Efri deild: 54. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3868 í B-deild Alþingistíðinda. (3531)

397. mál, fangelsi og fangavist

Davíð Aðalsteinsson:

Hæstv. forseti. Það er að sjálfsögðu laukrétt sem komið hefur fram í umræðunni að hér er um mjög viðkvæm mál að ræða. Það skal fúslega játað að það nefndarstarf sem ég veitti forstöðu hefði mátt ganga hraðar fyrir sig. Það lágu ýmsar ástæður til þess að ekki reyndist unnt að skila þessu verki fyrr en raun hefur borið vitni.

Vegna málsmeðferðarinnar í þinginu tel ég mjög æskilegt að hv. nefnd taki þetta frv. til rækilegrar skoðunar og afli upplýsinga eftir því sem föng eru á. Ég geri mér auðvitað grein fyrir því að tíminn er afskaplega naumur. Það eru ekki margir starfsdagar eftir þessa þings og ekkert óeðlilegt að sumir séu svartsýnir á að takist að afgreiða þetta mál. Hins vegar tel ég brýnt að málið verði tekið til alvarlegrar athugunar til þess að greiða þá fyrir meðferðinni síðar og að efni frv. fái einhverja lágmarksumfjöllun meðal þeirra aðila úti í þjóðfélaginu sem eðlilegt þykir að fjalli um efni frv.

Að sjálfsögðu kom ýmislegt í ljós við umfjöllun nefndarinnar sem stóð að því að semja þetta frv., m.a. að það er álit nefndarinnar að fangelsi hér á landi séu allsendis ófullnægjandi. Reyndar hefur þetta komið fram bæði fyrr og síðar. Sannleikurinn er sá að full þörf er á því að endurnýja algjörlega þann húsakost sem þar er búið við og ekki síst þegar um er að ræða fangelsin hér í Reykjavík.

Ég hef ekki ætlað mér að fara út í efnislega umfjöllun um þetta mál en ég vonast til þess að nefndin sem fær það til meðferðar skoði þetta mál gaumgæfilega og að lágmarki komi því svo fyrir að þar til bærir aðilar úti í samfélaginu taki það til rækilegrar umfjöllunar og umræðu í því augnamiði þá til þrautavara að málið nái sem fljótast fram að ganga og verði að lögum á næsta þingi.