10.03.1987
Efri deild: 54. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3870 í B-deild Alþingistíðinda. (3533)

397. mál, fangelsi og fangavist

Davíð Aðalsteinsson:

Hæstv. forseti. Sú nefnd sem stóð að því að semja þetta frv. tók sér ferðir á hendur, fleiri en eina og fleiri en tvær, til þess að skoða fangelsi landsins og þann aðbúnað sem þar ríkir. Að ýmsu leyti er e.t.v. eðlilegt að taka undir málflutning hv. 5. landsk. þm. Hins vegar verðum við náttúrlega að gæta þess að dagamunur getur verið á bæði andrúmslofti og umgengni í slíkum stofnunum sem fangelsi eru.

Ég vil fullyrða það að það starfsfólk sem vinnur í þessum fangelsum hefur sinnt sínum störfum af mikilli trúmennsku og natni eftir aðstæðum. Aðstaða er mjög bágborin. Það er rétt. Þetta frv. sem hér liggur fyrir er auðvitað að okkar dómi grunnurinn eða upphafið að því að bæta þetta ástand.

Það kom fram í framsögu hæstv. ráðh. og það kom fram í máli hv. 2. þm. Austurl. að fjárveitingar til fangelsanna hafa verið mjög af skornum skammti á undanförnum árum. Það er því miður okkur til skammar, hv. alþm. og Alþingi, hversu naumt hefur verið skammtað í því sambandi. Vonandi verður breyting á því. Ég vænti þess að þrátt fyrir allt ríki innan Alþingis fullur skilningur á þessum málum, fullur skilningur á því hversu bráðnauðsynlegt er að auka fjárveitingar til þessa málaflokks þannig að þarna verði búið við sæmilega aðstöðu a.m.k.

Sú nefnd sem samdi þetta frv. tók sitt hlutverk ekki þannig að það væri byggingartæknilegs eðlis heldur fremur að mynda lagaramma um það starf sein þarna færi fram. Síðan væri það framkvæmdarvalds og Alþingis að ákveða framhaldið á grunni laganna. Í þessu efni má minna á að í lögum um fangelsi og vinnuhæli frá 1973 er gert ráð fyrir í einni grein laganna ákveðinni fjárhæð til byggingar fangelsa á hverju ári. Við þetta hefur hvergi nærri verið staðið enda þekkjum við og vitum mýmörg dæmi þess að einu gildir hvað stendur eða hvað getið er um fjárframlög í hinum einstöku lögum, eftir því er nánast ekki farið.

Ég kom hér upp öðru sinni ekki síst til að vekja á því athygli að nefndin fór í öll fangelsin, kynnti sér þar aðstæður eftir því sem mögulegt var, og ég segi enn og aftur: Andrúmsloft og umgengni getur verið mismunandi eftir dögum en alltaf má ganga betur um, ég tek undir það.

Ég ætla ekki að hafa um þetta frv. fleiri orð. Ég ítreka það sem ég sagði í minni fyrri ræðu: Það er nauðsynlegt, þrátt fyrir skamman tíma, að nefndin að lágmarki komi því svo fyrir að þetta frv., efni þess, fái rækilega umfjöllun þar til kvaddra aðila. Það er óumflýjanlegt að leita hófanna, ef ég má svo að orði komast, víða úti í samfélaginu og kanna viðhorfin til efnis frv. Ekki síst í málaflokki eins og þessum er nauðsynlegt að það myndist breiðfylking, góð samstaða um málefnið.