10.03.1987
Efri deild: 55. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3873 í B-deild Alþingistíðinda. (3542)

339. mál, byggingarsjóður aldraðs fólks

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Ég skrifa undir þetta nál. með fyrirvara. Hann er nú ekki stórvægilegur en ég vildi þó koma honum að hér. Þessi sjóður, sem hér er um rætt og er hluti af ágóða af Happdrætti DAS, eins og hér var komið inn á af hv. frsm., er vissulega orðinn þann veg að hann gegnir ekki neinu verulegu hlutverki lengur. Hann hefur raunar aðeins verið til styrktar og hennar mjög óverulegrar til einstakra bygginga. Á sínum tíma var hér, þegar í fá hús var að venda varðandi aðstoð við slíkar byggingar, um nokkra hjálp að ræða. Við höfum hins vegar komið upp myndarlegum sjóði sem vonandi á eftir að verða enn myndarlegri, þ.e. Framkvæmdasjóði aldraðra. Ég tók það fram varðandi það mál hins vegar í gær, þegar við vorum að afgreiða það hér út úr deildinni, málefni aldraðra, heildarlöggjöfina, að ég óttaðist um afdrif sjóðsins, þ.e. fjárhagsleg afdrif hans. Með skattkerfisbreytingunni núna eyðileggjum við þann möguleika sem við höfum haft til þess að leggja á ákveðinn nefskatt sem hefur runnið beint í Framkvæmdasjóð aldraðra og við höfum hækkað hér þing eftir þing talsvert mikið umfram verðlagsforsendur og náð þannig meira fjármagni en ella inn í þennan sjóð, enda hafa framkvæmdir hvarvetna kallað á.

Ég hef af því áhyggjur að þegar þetta verður komið inn í fjárlög og menn fara að úthluta þessum sjóði framlagi á fjárlögum verði það eins og með marga aðra sjóði sem eru jafnvel lögbundnir um framlög að hann verði skertur og vara mjög eindregið við því. En í trausti þess einmitt að Framkvæmdasjóður aldraðra verði ekki síður öflugur en hann er í dag og jafnvel enn öflugri get ég út af fyrir sig stutt þetta frv. sem hér er um að ræða. Að vísu kemur upp í hugann spurning um ráðstöfun á eignum þessa sjóðs eins og þarna er lagt til og hv. frsm, kom inn á.

Ég skal vera fyrstur manna til að viðurkenna það að Hrafnistubyggingarnar, þ.e. byggingarnar á vegum DAS, hýsa í ríkum mæli fólk af landsbyggðinni þannig að þær eru vitanlega ekki fyrir Reykvíkinga eina eða nágrannabyggðirnar. Þar hafa margir notið skjóls og því engin ástæða til neins dilkadráttar í þeim efnum, síður en svo. Það sem eiginlega kom mér mest á óvart og olli mér mestum vonbrigðum var að sjá það í grg. með þessu frv., ef það er rétt með farið, að nettóágóðinn af Happdrætti DAS sé ekki nema í kringum 10 millj., það er með ólíkindum ef svo er. Samkvæmt grg. frv. kemur það í ljós að 40% eru 4,1 millj. og þá liggur það nokkurn veginn í hlutarins eðli að ágóðinn er ekki meiri en 10 millj. Það kemur mér mjög á óvart, vægast sagt, sérstaklega í ljósi þess hve myndarlega er nú byggt og myndarlega að verkum þar staðið á margan veg. En út í það fer ég ekki hér. Ég dreg ekki þessar tölur í efa og hef ekki haft aðstöðu til þess heldur að átta mig betur á þeim. Ég vil heldur ekki gera það að ágreiningsefni hvernig ráðstöfun eigna þessa sjóðs er háttað en ég hefði auðvitað gjarnan talið það eðlilegast að eignir þessa sjóðs rynnu beint í Framkvæmdasjóð aldraðra, þennan meginsjóð og stjórn Framkvæmdasjóðsins skipti því þá í samráði við ráðuneytið, skipti því þannig að t.d. Hrafnistubyggingarnar hefðu fengið eitthvað þar úr. Mér hefði þótt það eðlilegra í staðinn fyrir að vera að skipta þessu í tvennt eins og þarna er ráð fyrir gert. Ég geri það hins vegar ekki að ágreiningsatriði þótt mér hefði þótt það eðlilegra en vildi gera grein fyrir þessum fyrirvara mínum og þá alveg sérstaklega því að með afnámi þessa sjóðs væri ekki í önnur hús að venda en Framkvæmdasjóð aldraðra og því ber Alþingi mikla ábyrgð á þeim sjóði að hann verði ekki skertur á næstu árum, heldur efldur vegna þess að við eigum þarna virkilega skuld að gjalda því fólki sem nú þarf á aðstoð að halda á sínum efri árum og þurfum virkilegt fjármagn í þennan sjóð ekki síður en við höfum gert á undanförnum árum.