29.10.1986
Efri deild: 7. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 395 í B-deild Alþingistíðinda. (356)

85. mál, sveitarstjórnarlög

Helgi Seljan:

Virðulegur forseti. Hv. flm. fór vítt um svið og sá um veröld alla, ef svo má að orði kveða. Var það vissulega holl lesning og verðug allrar umhugsunar fyrir okkur, a.m.k. hverjum þeim sem vill sjá heimsmyndina í heild sinni án þess að hafa ákveðna formúlu eða ákveðna kenningu að leiðarljósi og sjá allt þar í svarthvítu eins og allt of mikið er um varðandi fólk almennt. Ég held að formáli hv. flm. hafi verið okkur nokkuð holl lesning annars vegar og góð tilbreyting frá því dægurþrasi sem annars á sér stað hér daglega og ég þakka henni fyrir.

Ég á sæti í þeirri nefnd sem fær þetta mál til umfjöllunar og ég tel rétt að skoða það vel í félmn. Ég geri mér vissulega ljóst að það eru annmarkar á framkvæmd, eins og kom fram hjá hv. 6. landsk. þm. Það er nú svo með blessað lýðræðið að það er býsna erfitt yfirleitt. Það er býsna erfitt í framkvæmd að fylgja því eftir og koma því á á þann veg að allir geti sáttir verið og unað við það. Hitt er svo annað mál að ég hlýt að minna á að í fyrra afgreiddum við með hraði í raun og veru út úr þessari hv. deild sveitarstjórnarlög í heild sinni. Það var ekki hlustað mikið á okkur stjórnarandstæðinga þá varðandi ýmsar lagfæringar sem við vildum gera á þeim lögum og jafnvel miklar breytingar og þetta hespað af í ótrúlegum flýti. Ég á svo sem ekki von á því að hv. stjórnarlið hafi skánað svo á þessu eina misseri sem liðið er að það muni hlusta mikið á raddir af þessu tagi frekar nú.

Ég játa að vissulega væri æskilegt að hér væri hægt að setja nánari reglur, en það sýnist mér samt að sé hægt að gera með ákveðinni reglugerð um framkvæmd þessara laga svo sem gert er um ýmsa þætti í sveitarstjórnarlögum í dag, ekki síður vandasama og viðkvæma. Vissulega væri æskilegt að geta gert einhver skil á milli mála sem færu í slíka atkvæðagreiðslu, en það er vandasamt líka að greina á milli hvaða mál eru stór og hvaða mál eru svo lítils virði að það tekur því ekki að leggja þau undir allsherjaratkvæðagreiðslu í einu sveitarfélagi. Ég hygg að það yrði erfitt fyrir okkur að ætla að fara að skilgreina það líka hvaða mál það væru sem ættu að flokkast undir að almenningur ætti að segja álit sitt á þeim og hvaða mál væru svo smávægileg vegna þess að mat okkar á þeim málum í heild sinni er svo misjafnt.

Ég mæli með góðri skoðun þessa máls í nefndinni og veit að hv. 5. þm. Vesturl., sem er formaður félmn. og þótti það miklu miður í fyrra að þurfa að hespa sveitarstjórnarlög af með þeim hætti sem þar var gert, þeim hraðakstri sem þar fór fram, er þeim mun tilleiðanlegri til þess að við gefum okkur góðan tíma nú til að skoða öll þessi mál og m.a. þann þátt sem hér er til umræðu, og efast ég reyndar ekki um að hv. flm. á sér vísan stuðningsmann í hv. 5. þm. Vesturl. hvað það snertir að þoka þessu máli nokkuð áleiðis.