10.03.1987
Neðri deild: 60. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3911 í B-deild Alþingistíðinda. (3571)

341. mál, gildistaka staðgreiðslu opinberra gjalda

Fjármálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um gildistöku staðgreiðslulaga. Í framhaldi af framsögu fyrir frv. um staðgreiðslu opinberra gjalda annars vegar og breytingar á lögum um tekju- og eignarskatt hins vegar er hér lagt fram frv. um gildistöku staðgreiðslu opinberra gjalda. Í gildistökuákvæði staðgreiðslufrv. segir að þau lög komi eigi til framkvæmda fyrr en Alþingi hefur sett sérstök lög um gildistöku þeirra. Er frv. það sem hér er til umræðu flutt til samræmis við þetta ákvæði. Það er að sönnu nýmæli við lagasetningu hérlendis að setja sérstök lög um gildistöku annarra laga en hefur tíðkast nokkuð í nágrannalöndum okkar þegar sérstaklega hefur staðið á og um viðamikla og vandasama löggjöf er að ræða. Við setningu laga um staðgreiðslu opinberra gjalda háttar mjög óvenjulega til þar sem til úrlausnar koma ýmis tímabundin atriði sem heyra munu sögunni til þegar breytingin úr núverandi innheimtuformi skatta yfir í staðgreiðslu verður um garð gengin. Með vísan til þess svo og hins að þessari breytingu tengjast tímabundin ákvæði í breyttum lögum um tekjuskatt og eignarskatt og tekjustofna sveitarfélaga þótti rétt að hafa þann hátt á að setja sérstök lög um gildistöku staðgreiðslulaganna þar sem tekið yrði á öllum atriðum sem tengjast breytingunni sem slíkri.

Ég sé ekki ástæðu til við þessa umræðu að fara frekari orðum um einstök efnisatriði, þau skýra sig sjálf, og að öðru leyti vísa ég til athugasemda með frv., en legg til, herra forseti, að þessu frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjh.og viðskn.